Ógleymanlegar mínútur í Teigsskógi.

Þegar vegalagning um Teigsskóg komst fyrst á dagskrá fór ég einn daginn vestur, fór á bílnum eins og langt og ég komust út eftir Þorskafirði og eyddi því sem eftir var af deginum í að ganga út eftir skóginum og til baka aftur. 

Ég undraðist þá fjölbreytni í landslagi og gróðurfari sem þessi stærsti skógur við Breiðafjörð og á Vestfjörðum býr yfir, auk þeirrar kyrrðar og friðar, sem þar ríkti svo að hljóð einstakra fugla heyrðist vel. 

Það minnti mig á sólmyrkvann 1954, þegar eftirminnilegast var hvernig allir fuglarnir í dalnum þar sem ég var í sveit, þögnuðu við rökvunina, en hófu síðan aftur söng sinn eftir að dró frá sólu. 

Þegar ég fór norður hálfri öld síðar til þess að fanga þetta sem mynd með hljóði, var það enginn vegur vegna hins mikla umferðarhávaða, sem þarna ríkis stanslaust lungann úr árinu. 

Auk þess sem fuglalífið hafði beðið mikunn hnekki við framræslu votlendisins.  

Við Þorskafjörð var ég áður búinn að fljúga lágt eftir endilöngu fyrirhuguðu vegarstæði og hafði hrifist af nesjunum við fjarðarmynnin og hólmum, smáeyjum og skerjum í hinum mikla friði og þeirri kyrrð, sem kórónaði hughrifin. 

Og fór síðar sérstakt flug til að taka lofmyndir og setja saman nokkurra mínútna myndskeið, sem ég sýndi á fundi Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða, sem þá voru endurvakin um hríð. 

En mestu hrifningu mína vakti þegar ég var kominn nokkuð áleiðis á göngu minni og sá skyndilega risastóran fugl hefja sig til flugs af kletti við sjóinn og hækka flugið í hnituðum hringjum sem hann hélt áfram hnita þegar hann var kominn langleiðina að mér. 

Þetta var hinn mikilfenglegi konungur íslenskra fugla, haförninn með sína óhemju breiðu og stóru vængi. 

Þegar ég var í flugnámi heillaði lofteðlisfræðin mig einna mest og vænglagið á haferninum er til dæmis töluvert frábrugðið vænglagi fálkans. 

Vængir arnarins eru einstaklega breiðir og þannig lagaðir, að vængflöturinn sé sem stærstur, jafnvel þótt það bitni á hraða, lipurð og steypigetu, sem er aðall fálkans, hraðskreiðustu lífveru jarðar. 

Örninn þarf hin vegar á sem mestri lyftigetu vængjanna að halda til þess að lyfta sem stærstri bráð eða hræi. 

Til útskýringar hyggst ég birta hér mynd af flugvélinni Helio Courier, sem þarf sem besta hægflugseiginleika til að hægt sé að lenda henni á stuttum og ófullkomnum lendingarbrautum til að bera sem mest á flugi.

Ég sá haförn í fyrsta sinn í Vattarfirði 1960 og það var tignarleg sjón. 

En örninn sem kom til mín og hnitaði hringa yfir mér uns hann hvarf á braut, og gaf sér nægan tíma til að heilsa mér í Teigsskógi, konunglegt flug hans, stærð og hegðun, sem og umhverfið allt, skapaði  ógleymanlega minningu. 

Ef ég man rétt, var 50 sekúndna myndskeið frá þessari göngu sýnt í lok sjónvarpsfrétta eitt kvöldið, þar á meðal einhverjar sekúndur með flugi arnarins. 

2008 setti ég nokkurra mínútna myndskeið af Teigsskógi saman til að sýna á stofnfundi endurvakinna Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða, sem létu sig hugmyndir um tvær risavaxnar olíuhreinsistöðvar vestra varða.  


mbl.is Handsamaði og hlúir að máttförnum haferni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Landvinningar" í austurvegi með fótknött að vopni?

Landkönnun og landvinningar norrænna víkinga beindist ekki aðeins í vesturveg til nýrrar álfu, heldur líka allt austur á sléttu Úkraínu. 

Það fór um mig straumur við að heyra hvar Íslendingar myndu leika fyrstu leiki sína á HM, Moskva, Volgograd og Rostov, vegna þess hve gefandi það yrði að koma á þessa staði, burtséð frá nýjum landvinningum í knattspyrnunni. 

Ég kom að vísu til Moskvu í febrúar 2006 vegna skrifa bókarinnar "Emmy, stríðið og jökullinn" og fannst mikið til koma að fá að standa á þeim stað í útjaðri borgarinnar, þar sem sókn Þjóðverja inn í hana var stöðvuð í desember 1941. 

Þar er minnismerki um þetta og ekki þarf að fara nema upp í ákveðnar byggingar þar til að sjá til turna Kremlar. 

Leið mín lá að vísu til smábæjarins Demyansk, sem er við svonefendar Valdaihæðir um 300 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu, en þar var 100 þúsund manna lið Þjóðverja innilokað frá janúar til maí 1942. 

Þjóðverjar héldu uppi magnaðri loftbrú til hins innilokaða hers þessa mánuði, fluttu 16 þúsund særða út en jafnmarga hermenn inn, áður en hið innilokaða herlið gat brotist úr herkvínni. 

Þetta var fáheyrt hernaðarlegt afrek á þessum tíma en innsiglaði úrslit tímamótaorrustu áramótin eftir, þar sem Göring ætlaði að leika loftbrúna til Demyansk eftir við Stalíngrad, sem nú heitir Volgograd, en varaði sig ekki á því, að um þrefalt stærri innilokaðan her var að ræða, við mun erfiðari skilyrði og gegn hraðvaxandi flugher Rússa. 

Þegar Charles De Gaulle hershöfðingi var forseti Frakklands fór hann í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna og kom meðal annars til Volgubakka í Volgograd og stóð þar við ána á miklum söguslóðum orrustunnar miklu. 

"Þetta hefur verið mikið afrek" hraut af vörum De Gaulle, sem hafði stýrt skriðdrekasveit á vesturvígstöðvunum og síðan gengið með Frjálsum Frökkum inn í Parísarborg sumarið 1944. 

"Já, hjá okkur" sagði gestgjafi De Gaulle. 

"Nei, ekki síður hjá Þjóðverjum, að komast alla leið hingað", svaraði De Gaulle. 

Hann vissi um stórkostlegar fórnir og afrek Sovéthersins en einnig það, að í krafti yfirburða í mannaafla og framleiðslugetu Sovétmanna, var með ólíkindum hve langt Þjóðverjar höfðu samt komist áður en þeir töpuðu mikilvægustu orrustu stríðsins.  

Mikið yrði nú stórkostlegt að komast í þessar þrjár borgir, Moskvu, Volgograd og Rostov með íslenskt víkingaklapp. 


mbl.is Argentína, Nígería, Króatía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göring gerði þetta líka og Powers átti að gera það. Blásýra í Ölfusi.

Hermann Göring var heróinfíkill en þó næst æðsti valdamaður Þýskalands, næstur á eftir Adolf Hitler. 

Hann féll í ónáð hjá Foringjanum nokkrum dögum fyrir lát hins síðarnefnda, hélt að hann gæti samið við Vesturveldin um að fara gegn Sovétmönnum. 

En Hitler hafði taldi landráð að leita friðarsamninga, - hafði einmitt hafist til valda með því að lofa: "Aldrei aftur 1918!", aldrei aftur friðarsamninga. 

Með þessari þrákelkni olli hann dauða milljóna manna sem fórnað var til einskis. 

Göring iðraðist einskis og reifst við dómarana í stríðsglæpadómstólnum í Nurnberg. 

Að lokum sneri hann á böðla sína rétt áður en færa skildi hann til hengingar, hafði í fórum sínum blásýrutöflu og gleypti hana. 

Þegar Gary Powers flaug á U-2 njósnaþotu yfir Sovétríkin til myndatöku, hafði hann fyrirmæli um að láta ekki ná sér lifandi ef hann yrði skotinn niður. 

Hann gerði það ekki, og hafði ef til vill ekki ráðrum til þess, en fékk skömm í hattinn hjá sínum yfirboðurum. 

Eisenhower forseti hélt hins vegar að óhætt væri að þræta fyrir tilvist njósnavélarinnar, en varð að éta það ofan í sig og varð það hneisa fyrir hann, svona rétt áður en hann léti af embætti, þvi að Powers náðist lifandi og nógu mikið heillegt af þotunni til þess að ekki var hægt að þræta. 

Viðbrögð Krústjofss voru að lýsa yfir trúnaðarbresti við fyrrum bandamann í Seinni heimsstyrjöldinni og láta fyrirhugaðan fund æðstu manna stórveldanna fara út um þúfur. 

Lauk þar með svonefndri þíðu á milli risaveldanna og krumla Kalda stríðsins læstist um sambúð risaveldanna með Berlínarmúr og Kúbudeilu næstu tvö árin.

Í mínu ungdæmi var leikrit sem hét "Blúndur og blásýra" eftir Joseph Kesselring leikið víða.

Ekki veit ég nánar um efni þess, en rámar í svartan húmor á bak við heitið, raunar hreinan gálgahúmor ef örlög Görings eru höfð í huga.

Þegar ég gúgla heitið sé ég að Leikfélag Ölfuss sýni þetta leikrit í janúar í nýrri þýðingu Karls Ágústar Úlfssonar. 

Gæti verið komandi janúar en kannski er þetta gömul frétt, sem dúkkar upp. 

 

 

 


mbl.is Blásýra varð Praljak að aldurtila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband