Ýmislegt er villandi hjá bílaumboðum.

Úrskurður Neyteindastofu varðandi villandi auglýsingar á Kia-bílum er ekki eina dæmið um að rangt geti verið farið með hjá bílaumboðunum. 

Sumt er að vísu löglegt en vafasamt siðferðilega. 

Í útvarpi hef ég ítrekað heyrt fullyrt, að BMW i3 bjóði sé "léttasti rafbílinn á markaðnum." 

Ég er búinn að fletta BMW i3 upp í virtum alþjóðablöðum, þar sem birt er yfirlit yfir bílamarkað á þriðja þúsund bíla árið 2017. 

Þeim ber saman um að léttasti rafbíllinn á markaðnum hér sé Volkswagen i-Up! sem er sagður vera um 1200 kíló að þyngd. 

BMW i3 er þetta 70-100 kílóum þyngri. 

Þetta er bagaleg villa, því að Volkswagen e-Up! er líka ódýrastur rafbílanna. 

BMW-inn er nokkuð stærri en e-Up! og hvað tækni, búnað og verð má segja að hann sé kannski eðlisléttasti rafbíllinn á markaðnum eða þá léttasti bíllinn í sínum stærðarflokki, en þá verður að tiltaka það í auglýsingunni ef rétt á að vera með farið. 

Annað dæmi var nefnt hér fyrr á þessu ári með tilvitnununum í þýska tímaritið Auto motor und sport og danska ritið Bil-revyen, en þeim bar saman um það að með notkun áls hefði tekist að létta nýjast Land Rover Discovery jeppann um allt að 300 kíló. 

En umboðið auglýsir áfram og stanslaus að léttingin sé 490 kíló, sem augljóslega getur ekki staðist, þvi að bíllinn var einfaldlega ekki svona svakalega þungur fyrir léttinguna, að léttari yfirbygging ein og sér skili svona miklu. 

Ég heimsótti umboðið og sölumenn féllust á ábendingu mína, en áfram er haldið að auglýsa á óbreyttan hátt. 

Stundum er farið óbeint rangt með. Þegar hringt er í Volkswagen-umboðið ber símsvararödd nafn bílsins fram sem "vólksvagen", en réttur framburður er "folkswagen", - v er borið fram sem f á þýsku. 

Að segja "vólksvagen" er álíka rangt og að segja "vord" í staðinn fyrir Ford. 

Það verður að gera þá kröfu til söluaðila að nafn vörunnar sé borið rétt fram. 

Ég hef ítrekað haft samband við umboðið út af þessu en ekkert hefur gerst árum saman. 

Jeppa-bullið er annað fyrirbæri, að kalla bíla, sem eru ekkert annað en fólksbílar, jeppa. 

Það nýjasta var blaðadómur um nýjan "sportjeppa" sem var meðal annars hælt fyrir að vera með alveg sérstaklega verklegan framenda og mikla hæð frá vegi. 

Hinn jeppa-verklegi framendi er reyndar með háu húddi en skagar líka einstaklega langt lágt og lárétt fram úr bílnum, líkari snjóýtutönn en utanvegavænum "jeppa"framenda.

En þessi jeppa-fjandsamlega skögun var mærð.  

Þessi "jeppi" mun ekki komast yfir marga lækjarfarvegi á íslenskum jeppaslóðum. 

Veghæðin mikla er 2 sm minni en var á gömlu Volkswagen Bjöllunni, og þegar sest er upp í þennan "jeppa" með farþega og farangur sígur bíllinn niður og verður þá með aðeins um 11-12 sentimetra veg"hæð",  nánast dregur kviðinn rétt ofan við götuna, svo að það er varla að það vatni undir hann. 

Og til að kóróna allt saman er ekki hægt að fá þennan svaka "jeppa" nema með framdrifi eingöngu!!

Ég hitti mann um daginn sem var alveg sértaklega ánægður með nýjan "jeppa" sem hann hafði keypt. 

Þegar ég benti honum á að það væri ekki hægt að fá þennan flotta "jeppa" með fjórhjóladrifi, trúði hann mér ekki. 

Ég sagði honum að gá að driföxlunum að aftan á bílnum. 

Það kom hik á hann, en síðan brosti hann breitt og sagði: "Það skiptir engu máli fyrir mig hvort hann er með fjórhjóladrifi eða ekki,, því það eru allir svo hrifnir af honum af því að hann er svo jeppalegur, og þeir halda að hann sé með fjórhjóladrifi. Það nægir mér." 

 


mbl.is Askja fagnar ákvörðun Neytendastofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liður í því að tryggja "yfirburði" Bandaríkjanna.

Síðustu daga eru hin nýju Bandaríki Donalds Trump að birtast æ betur. Nýja öryggisstefnan byggist á því að Bandaríkin valti yfir skilgreinda óvini sína á hernaðar- og efnahagssviðinu, Kínverja og Rússa í krafti "yfirburða Bandaríkjanna." 

Liður í því er að hóta öllum þjóðum heims, hverri og einni bréflega, refsingu "yfirburðaþjóðarinnar" ef þær bukka sig ekki og beygja fyrir hinni "stórfenglegu Ameríku" í smáu og stóru, fyrst í skilyrðislausri undirgefni við beitingu aflsmunar risaveldisins við að uppfylla óskir Ísraelsmanna, en síðar mun fleira fylgja á eftir. 

Mannkynið hefur áður upplifað svipaða mikilmennskutakta, svo sem á árunum 1933-1945 þegar ítrasta valdi stórveldis var síðast beitt á svo grímulausan hátt og þess krafist að allar þjóðir heims og þó einkum þjóðir Evrópu, þjónuðu "yfirburðakynþættinum Aríum". 

Refsingin fyrir óhlýðnina varð mesta blóðbað hernaðarsögu mannkynsins. 

Napóleon stundaði hernað allt frá Spáni austur á sléttur Rússlands til þess að fá Evrópu til þess að beygja sig undir "yfirburði" stórhers Frakka. 

Rómverskir keisarar herjuðu í nafni "Pax Romana", hins "rómverska friðar" allt frá Bretlandseyjum austur í Miðausturlönd til þess að þenja út "yfirburði" Rómaveldis. 

Bretar notuðu hervald til að tryggja "yfirburði" breska heimsveldisins í nýlenduveldi, þar sem sólin hneig aldrei til viðar. 

Hitler dáðist að breska heimsveldinu og bauð Bretum frið í júlí með tilboði sem ekki væri hægt að hafna, "höfðað til skynseminnar", að Bretar héldu heimsveldi sínu óskertu, og að á móti myndi Hitler tryggja það að nota aríska yfirburði herja sinna til að tortíma hverjum þeim sem ógnaði breska heimsveldinu." 

Nýting "yfirburða" valds er þungamiðja þeirra skefjalausu karlrembustjórnmála sem "sterkir leiðtogar" beita miskunnarlaust. 


mbl.is Trump beitir hótunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera hægt að breyta þessu og hefði átt að vera búið að því.

Úrskurðir kjararáðs koma alltaf eins og að hent sé handsprengjum inn í íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. 

Í stað þess að þær stéttir, sem ekki fá að semja um kjör sín, heldur falla undir kjararáð, fái hækkanir jafnóðum í samræmi við launavísitölu, er eins og kjararáð safni saman í svo stórfelldar hækkanir eftir óhemju flóknum forsendum, oft langt til baka aftur í tímann, að allt verður vitlaust þegar þessara launatölur birtast. 

Þetta þarf ekkert að vera svona og það verður að breyta þessu. 

Það blasir við að þetta kjaradómsklúður hefur reynst versta fyrirkomulagið í þessum efnum. 

Af hverju er ekki búið að breyta þessu? 

Eins og svo oft er afsökunin sú að svona séu nú lögin og að það verði að fara eftir þeim. 

En hverjir settu þessi lög? Jú, þeir hinir sömu og láta eins og þetta ómögulega fyrirkomulag sé eins og eitthvert náttúrulögmál, sem hafi líkt og dottið af himnum. 


mbl.is Slæm ákvörðun að frysta launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óupplýst íslensk sýruárás.

Íslendingar fylltust hneykslan og andúð þegar fréttir bárust af sýruárásum erlendis. Sérlega þungur dómur yfir sýruárásarmanni í London, sem þó drap engan, sýnir hvaða augum svona glæpir eru litnir erlendis. 

Hér heima mátti eira, að sýruárásin á Rannveigu Rist og heimili hennar hefði kannski ekki verið eins ofsafengin og hinar erlendu, helfur hefði hún verið "lágstemmd".

Engu að síður var þetta ekkert annað en sýruárás. 

Að hún skuli vera óupplýst og væg viðbrögð við þessari einstæðu árás voru, eru og verða okkur til skammar. Sú afsökun, að hér hafi ríkt "óvenjulegt ástand" Búsáhaldabyltingarinnar er ekki boðleg. 

Nafn þessara útifunda vísaði beint til þess, að þetta væru friðsamlegar aðgerðir og eðli pottanna og pannanna, sem barðar voru, var táknrænt. 

Aldrei var þess krafist úr ræðustóli á Austurvelli, að saklaus börn yrðu hrelld með umsátri um heimili þeirra vikum saman, hvað þá að gerðar yrðu allt upp í sýruárásir á heimili úti í bæ.  


mbl.is 20 ára fangelsi fyrir sýruárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að laga þessi lög að aðstæðum.

Allt frá fyrstu setningu laga um fjárreiður stjórnmálaflokka og ýmislegt sem tengist þeim, svo sem nafnlausar pólitískar auglýsingar eða pólitísk skilaboð og fjármögnun þeirra, hafa verið skiptar skoðanir um ýmislegt sem varðar þau. 

Helstu rökin fyrir opinberum fjárstuðningi til flokka, sem bjóða fram til kosninga, voru þau, að það kostaði fjármuni fyrir framboð að koma boðskap sínum og rökum á framfæri og að það væri forsenda lýðræðis að styðja umræðu og skoðanaskipti um stjórnmál.

Einnig að það væri skárra að fjárstuðningur kæmi eftir skynsamlegum reglum frá sjóði samfélagsins heldur en að það væri algerlega háð aðgangi framboðanna að fjársterkum fyrirtækjum og einstaklingum, hver aðstaða flokkanna væri. 

Það virðist stundum vefjast fyrir fólki hvað stjórnmálaflokkur sé, og sumir vilja kalla slíkar hreyfingar öðru nafni af því að heitið pólitík hafi svo slæman blæ á sér og tengist spillingu.

En orðið stjórnmál og alþjóðlega orðið pólitík lýsir viðfangsefni stjórnmálamanna og pólitíkusa eins vel og hægt er að ætlast til. 

En lögin eru nú einfaldlega þau, að þau samtök ein, sem bjóða fram til pólitískra kosninga í samræmi við lög og skilyrði sem sett eru í lögum þar um, skuli talin og skilgreind sem stjórnmálaflokkar. 

Lögin voru sett á því tímabili frá 1979-2007 sem hafði það yfirbragð, að Alþingiskosningar voru ævinlega á fjögurra ára fresti, 1979, 1983, 1987, 1991, 1995, 1999, 2003 og 2007. 

Fyrir hverjar kosningar miðuðu stjórnmálaflokkarnir eftir að lögin tóku gildi fjárútlát sín til kosningabaráttunnar við það að ríkisframlag í hlutfalli við fylgi myndi borgað út í fjórum útborgununum árlega. 

En 2009, 2016 og 2017 hefur bil á milli kosninga verið eitt til tvö ár, og hafi flokkur ákveðið að bjóða ekki fram næst, hefur hann því orðið af helmingi eða allt að þremur fjórðu stuðningsins og því átt á hættu að sitja uppi með erfiðar skuldir. 

Þessi ágalli hefur augljóslega skapað aðstöðumun á milli stóru og hefðbundnu flokkanna og hinna nýrri og smærri. Enda var það fjórflokkurinn sem að lagasetningunni stóð. 

Skoða þarf hvernig hægt væri að laga úthlutunarreglurnar að aðstæðum hvað þetta varðar til að vinna gegn ójöfnuði á milli framboða. 

Sömuleiðis hefur orðið gerbylting í útbreiðslu áróðurs og auglýsinga með samfélagsmiðlabyltingu og netsamskiptum, sem þarf að laga lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna að. 


mbl.is Fari yfir lög um fjárreiður flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband