Örlög margra sem "ögra" Pútín: Dauðadómur.

"Enginn frýr honum vits, en meira er hann grunaður um græsku" eru fleyg orð úr Íslandssögunni. 

Aðferð Vladimirs Pútíns til að halda völdum hefur verið listilega fléttuð blanda af persónutöfrum, yfirvegun, festu, snjallri framkomu og tilsvörum, þrótti vel þjálfaðs manns, skjalli og hótunum.

Rússar hafa ætíð verið veikir fyrir "sterkum" leiðtogum og nöfnin Katrín mikla, Pétur mikli, Lenin og Stalín fengu á sig sérstakan ljóma.

Saga landsins er vafin styrjöldum við aðrar þjóðir og átökum innanlands, og valdaþyrstir leiðtogar Rússa hafa haft lag á því að finna möguleika til að glíma við óvini, sem því miður voru oft á tíðum jafnvel skæðari en af var látið, svo sem Adolf Hitler. 

Eftir stríðið við hann bjuggu Rússar einir þjóða við þá ógn, sem fólst í vaxandi kjarnorkuvopnaógn Bandaríkjamanna, sem höfðu einir þjóða yfir gerðeyðingarvopnum að ráða og yfirburði á því sviði í áratug.

Sjálfir sáu Bandaríkjamenn ógn í því að Rauði herinn var með yfirburðastöðu á meginlandi Evrópu á þessum árum og sýndust líklegir til að nota hana. 

Fyrir vesturveldin var hagkvæmara að nota kjarnorkuhótunina til að verjast en að fara út í stórfelldan hefðbundinn vígbúnað.  

Síðan unnu Rússar þennan mun upp og það var athyglisvert var að sjá í myndinni Bridge of Spies (Brú njósnaranna) í sjónvarpinu í gærkvöldi hvernig bandarískir valdamenn nýttu sér kjarnorkuógnina, sem þá stóð orðið af Rússum, til að réttlæta sniðgöngu á mannréttindaákvæðum bandarísku stjórnarskrárinnar. 

Pútín er slægur og gætir þess að hótanir hans verði ekki meiri en hann telur brýnustu þörf á. 

Með launmorðum á "ögrandi" einstaklingum á borð við Önnu Politskovkaja stillir hann upp ákveðnum óttalegum aðvörunum, eða eins og Danir orða það: "til skræk og advarsel" sem eiga að nægja til að valda ótta í röðum þeirra hugsanlegu andstæðinga, sem helst gætu náð árangri. 

Þar með dregur hann línu: Hingað og ekki lengra. Það gerði hann með því að innlima Krímskaga með lítt dulbúinni hótun um að beita öllum herstyrk Rússa, þar með töldum kjarnorkuvopnum, til að tryggja yfirráð Rússa yfir skaganum, sem tugþúsundum rússneskra hermanna í Krímstríðinu fyrir 163 árum og milljónum manna í Seinni heimsstyrjöldinni var fórnað fyrir. 

Nú hefur Donald Trump ákveðið að spila ögn djarfar en áður í sambandi við átök Úkraínumanna og Rússa á Donetssvæðinu austast í Úkraínu, þar sem hefur lengi verið iðnaðarsvæði, sem hefur þjónað Rússum og áður Sovétríkjunum. 

Gallinn við stuðning Vesturveldanna við stjórnvöld í Úkraínu er sá, að spillingin í því landi er einhver hinn mesta á byggðu bóli og hefur síst minnkað síðustu misserin. 

Vonandi sýnir Pútín yfirvegun i þessu viðkvæma óróahorni Evrópu.  

Það er dapurlegt að blogg á helstu friðarhátíð kristinna manna þurfi að litast af ískyggilegum atburðum í Kóreu, Miðausturlöndum og í Austur-Úkraínu, en þetta eru nú atburðir sem gerast jafn þessa hátíðisdaga okkar sem aðra daga. 


mbl.is Sá sem ögrar Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lauf" fyrir lauflétt?

Fyrir tveimur rakst ég fyrir tilviljun á pínulítið hjólaverkstæði við Ingólfsstræti, þar sem smíðuð voru svo lauflétt reiðhjól, að undravert var. Reiðhjólið Tru Grit

Þyngd reiðhjóla, jafnvel þótt rafknúin séu, skiptir miklu máli fyrir það hve létt það veitist áð hjóla á þeim. 

Allar uppfinningar sem snerta þetta, geta orðið mikil tekjulind, því að vaxandi markaður er á þessu sviði samgangna víða um lönd.

Hjólið á Ingólfsstrætinu var aðeins örfá kíló með notkun á koltrefjum. 

Nafnið True Grit tengir svona hjól við John Wayne (Jón væna), sem lék í frægri kvikmynd með þessu nafni. Reiðhjól á Vatnajökli

Og hér set ég inn mynd af reiðhjólum á breiðum dekkjum, sem notuð voru til að hjóla yfir sjálfan Vatnajökul og eru stödd langt uppi á jöklinum á myndinni. 

Létting hjólanna hefur líka mikið að segja varðandi rafknúin reiðhjól.  

Til þess að nota megi rafknúin reiðhjól á hjóla- og gangstígum má rafmótorinn aðeins vera 250 wött, eða sem svarar 0,35 hestöflum. 

Þá munar um hver fimm kílóin, að ekki sé talað um tíu kíló, þótt það sé aðeins 5-10 prósent af samanlagðri þyngt manns og hjóls. 

Mig minnir að þarna á þessu litla verkstæði hafi ég séð frábæran framgaffal, svo miklu léttari og einfaldari en ég hafði áður séð. 

Því einfaldari sem reiðhjól eru, því léttari geta þau orðið. 

Og ég hef undrast að samanbrjótanleg hjól skuli ekki vera fleiri hér á landi. 

Ég nefni sem dæmi, að eins og er, verð ég að hlaða litla Tazzari rafbílinn, sem ég er á, úti í bæ af því að enn er ekki komin aðstaða til þess þar sem ég á heima, þótt búið sé að samþykkja lausn á því. Náttfari við Engimýri

Maður sem á bara meðalstóran rafbíl getur haft samanbrjótanlegt rafhjól með sér til að fara með bílinn til að skilja hann einhvers staðar eftir, og farið síðan leiðar sinnar á hjólinu. 

Og síðan sækja bílinn á hjólinu og skutla því um borð. 

En smekkur fólks og tegund notanna af þeim er mjög misjafn og persónubundinn. 

Ég hef verið mjög ánægður með mitt hjól vegna þess að það er með góða möguleika fyrir bögglabera og töskur og fyrir þriðju töskuna á stýrinu. elmoto_te2_tiefeinsteiger-812x580

Auk þess hægt að bæta við tveimur viðbótar rafhlöðum, svo að í boði geta verið 0,93 kwst í stað 3,13 kwst. 

Gallinn er hins vegar sá að þessi viðbót vegur um sex kíló, og hjólið strípað vegur 28 kíló. 

En það kom sér vel í umferðarslysi í hitteðfyrra þar sem hjólið þoldi harkalega ákeyrslu bíls undra vel, nógu vel til þess að það væri hægt að gera við það. Sörli. Bakkasel.

þegar hjólað var á rafknúnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur í hitteðfyrra kom í ljós að þetta hjól mitt, sem ég kallaði Náttfara, var heldur þungt, og mótorinn í gjörðinni var aðeins með einn gír, svo að reynsluferðin frá Akureyri endaði ofarlega í Bakkaselsbrekkunni.   

Það varð því að reyna önnur ráð og spara þyngdina, finna sem léttast og nettast venjulegt reiðhjól og með möguleika fyrir sérstaklega ásettan gíraðan mótor til að komast upp bröttustu brekkurnar, því að forsendan fyrir því að sanna hve lítil orkueyðslan væri, var að fótaaflið yrði ekkert notað og 250 wöttin dygðu ein. 

Einnig að koma sjö rafhlöðum sem vógu 21 kíló og skiluðu hjólinu 159 kílómetra á einni hleðslu. 

Útkoman varð nett og létt 21 kílóa venjulegt "gamaldags reiðhjól, "Sörli" sem leysti dæmið, og neðsta myndinr er af, efst í Bakkaselsbrekkunni. 

Ég hef áður minnst á það að breyta ætti reglunum um þessi hjól lítillega og leyfa 350 watta mótor á þeim eins og er á tvöfalt þyngri vespurafhjólum, sem nota má án trygginga og skoðana á hjólastígum og gangstígum/stéttum. 

Sem dæmi um vel heppnað rafhjól með reiðhjólalagi nefni ég Elmoto t-2 "Tief einsteiger", sem þýðir, að það þarf ekki að klofa yfir stellið til að komast á bak, heldur lýsir þýska nafnið því, að hægt er að "stíga neðarlega inn í það eins og á vespulaga hjólum.

Næstneðsta myndin er af slíku hjóli. Það er að vísu einu þrepi ofar en Náttfari og Söli, nær 45 km/klst hraða, er með átta sinnum aflmeiri mótor og þarf skráningu og tryggingu.  

Þrátt fyrir allar framfarir er gamla reiðhjólastellið (grindin) þar form sem er léttast, ekki síst þegar kostir vespulagsins er notað. 

Kostirnir við vespulögunina sést, ef vel er að gætt, á myndinni af Elmoto hjólinu: Hlíf til að bægja vatnsaustri og vindi frá fótunum og möguleikinn til að setja farangurstöskur á bögglaberann og jafnvel á stýrið sjálft.  

 


mbl.is Íslensk hjól í bandarískar búðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband