Svona varð íslenska orðið "heimskur" til.

Íslenska orðið "heimskur" er forn norræn líking við það fyrirbæri, þegar persóna dæmir alla hluti, jafnvel alla veröldina eftir því einu, sem hann sér heiman frá sér. Loftslagskort, jörðin

Sjaldan hefur jafn valdamikill maður og Donald Trump afhjúpað eins rækilega þetta fyrirbæri, nú síðast með tveimur fréttum á sama kvöldinu. 

Hann lýsir því yfir að loftslag fari kólnandi á allri jörðinni af því að það er kalt í New York. 

Með korti sem Árni Finnsson hefur sett á vefinn, má sjá hvernig mál standa á allri jörðinni, og er hinn rauði litur margfalt víðáttumeiri en hinn bandaríski í Norður-Ameríku. 

Svo þröngsýnn er Trump að kjörorðið "make America great again!" á aðeins við Bandaríkin, ekki Kanada og því síður Mexíkó. Ameríka nær í hans huga og orðfæri ekki út fyrir landamæri Guðs eigin lands. 

Nú hefur hann í raun bannað innflutning á kanadisku þotunum Bombardier CS100 og CS300 til Bandaríkjanna, af því að kanadísku verksmiðjur fundi snilldarlega einfalda lausn á því viðfangsefni að auka rými og þægindi fyrir hvern farþega í þessum þotum, sem flytja á bilinu 100-160 farþega, með því að hafa aðeins tvö sæti hlið við hlið vinstra megin við ganginn í þotunum, en þrjú sæti hlið við hlið hægra megin. 

Þar að auki hafa kanadísku verksmiðjurnar Pratt and Whitney verið í fararbroddi í smíði amerískra flugvélahreyfla.  

Útkoman varð stórt tæknilegt framfaraskref í flugvélasmíði á afmörkuðu sviði. 

En nú hefur 292 prósenta refsitollur Trumps á þessar þotur jafngilt því að Bandaríkin muni í sókn sinni til "yfirburða á efnahags-, tækni-, og hernaðarsviðinu" banna hverjar þær erlendar flugvélar og raunar líka bíla, sem standa framar en bandarísk framleiðsla. 

Hinn heimski forseti telur sig vera að gera "America great again" með því að úthúða því sem næsta nágrannaþjóð hans í Ameríku er að gera og berjast gegn framförum, nema þær eigi uppruna sinn í Bandaríkjunum. 

Og í leiðinni fær hann "kærkomið" tækifæri, eins og hann hefur kosið að orða það um nýlega hliðstæðu, til þess að refsa Kanadamönnum fyrir það að sitja hjá í átkvæðagreiðslunni hjá Sþ um Jerúsalem. 

Bombardier þoturnar þýða ákveðna samkeppni við smæstu þotur Airbus, en Airbus hefur eignast 51 prósent í Bombardier, hugsanlega með hugarfarinu "if you can´t beat them, join them". 

En líklega sér Trump rautt yfir því að hinn evrópski flugvélaframleiðandi Airbus skuli vera með í spili, sem ógni því að hægt sé að gera Ameríku, - les Bandaríkin, - voldug og dýrleg á ný. 

 

 


mbl.is Trump: Þurfum hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langdregin umræða og óánægja um tryggingargjaldið.

Umræða og óánægja um tryggingargjaldið eru margra áratuga gamalt fyrirbrigði, því að það er ekki nóg með að gjaldið hafi alla tíð verið gagnrýnt fyrir að vera oft á tíðum óréttlátt, heldur einnig fyrir það hve það hefur verið hátt. 

En einhvern veginn hefur þetta gjald ævinlega siglt sinn sjó í gegnum umræður og loforð um að það verði endurskoðað, og virðist lítið lát ætla að verða á því. 

Og þrátt fyrir hástemmdu orðin um lækkun virðisaukaskatts á bókum, frestast það líka, sem og úrbætur fyrir þá, sem eru verst settir í þjóðfélaginu, en verða nú, einu sinni enn, að bíða eftir þeirri gömlu og margþvældu frestunar "úrlausn" að ekkert verði gert fyrr en eftir "ítarlega rannsókn á vandamálinu." 

Það er til dæmis erfitt að sjá, hvað þurfi að rannsaka svona mikið varðandi fötlun einstaklings sem hefur verið hin sama frá fæðingu fyrir hálfri öld, svo dæmi sé tekið.

Um langflesta aldraðra og öryrkja gildir svipað, og munu rannsóknir á rannsóknir ofan engu breyta um það.  


mbl.is Leggja til lækkun tryggingagjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um gildi framtaks öflugra og virtra einstaklinga.

Störf Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar eftir að þau létu af embætti sem forsetar Íslands eru dæmi um það hverju áhrifamiklir og hæfileikaríkir einstaklingar geta áorkað með atorku sinni og áhrifum, bæði á alþjóðavettvangi og hér heima til heilla fyrir land og þjóð og heimsbyggðina. 

Glæsileg framganga þeirra og hugsjónarík störf eru til mikils sóma og þótt aðeins sé litið til gjaldeyrisskapandi umsvifa í kringum árangur þeirra, eins og hin árlega ráðstefna Arctic Circle er dæmi um, skilar framtak þeirra margföldum ágóða miðað við fjárhagslegan stuðning, sem til þarf.  


mbl.is Ólafur Ragnar fái 7 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óðagot á ekki við um ákvörðun, sem hefur áhrif langt fram í tímann.

Greinilegt var á íbúafundi í Árnesi í sumar, hvað umræðan um nýtingu auðlindanna í Árneshreppi var þá skammt á veg komin og er raunar enn í dag skammt á veg komin, ekki bara þar, heldur víða um land. 

Munurinn á virkjun og vernd er til dæmis þessi:hjarta-vestfjarda

Ákvörðun um vernd, - sem gerir ósnortin víðerni að náttúruverðmætum í nokkurs konar Drangajökulsþjóðgarði, "hjarta Vestfjarða", sem skapa fjölmörg störf fyrir fólk sem svona svæði þarfnast, konur á barneignaraldri, - slík ákvörðun heldur opnum þeim möguleika að virkja síðar. Slík ákvörðun er afturkræf. Hjartað á kortinu hér er táknræn túlkun á blaði. Vesturverk, Vestfirðir

Ákvörðun um að virkja með jafn stórfelldum mannvirkjum og umhverfisspjöllum og ætlunin er, - og skapar ekki eitt einasta starf í hreppnum til frambúðar kemur hins vegar í raun í veg fyrir að hægt verði að endurheimta hin ómetanleg náttúruverðmæti sem ósnortin víðernig og fossafjöld fela í sér. Það yrði bæði svo erfitt og dýrt að rífa öll mannvirkin og stíflurnar á þann hátt að engin ummerki sæust, að út í slíka framkvæmd yrði varla ráðist.

Á kortinu hér við hliðina er hins vegar sýnt hið raunverulega virkjunarsvæði 

Á íbúafundinum í sumar var því blákalt haldið fram af stjórnanda mats á umhverfisáhrifum, að víða um heim tíðkaðist það að að virkja inni í þjóðgörðum. 

Aðspurður gat stjórnandinn ekki nefnt eitt einasta dæmi, enda er það næstum 100 ára gamalt fyrirbæri að virkjanir séu gerðar við alveg uppi við þjóðgarða, og slíkt hvergi tíðkað. 

Ég bauð upp á að nefna og lýsa 30 þjóðgörðum í sjö löndum, sem ég hef skoðað,máli mínu til stuðnings, ef með þyrfti, en þögnin ein var svarið hjá stjórnanda umhverfismatsins.  


mbl.is Bíða með ákvörðun um kostamat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband