Loksins "fyrirbyggjandi" kjarnorkustríð? Pappírstígrisdýr?

Donald Trump hafði mikið til síns máls þegar hann gagnrýndi fyrrverandi forseta, Obama og George W. Bush fyrir beinan og óbeinan stríðsrekstur í Miðausturlöndum. 

Ætlunin var hjá báðum að velta úr sessi spilltum einvöldum, sem kúguðu þjóðir sínar, Íraka, Líbíumenn og Sýrlendinga og koma á vestrænu lýðræðisþjóðfélagi í staðin. 

Að vísu tókst að velta Saddam Hussein 2003, en uppskera í staðinn óöld í landinu, sem kostaði milljónir lífið þegar upp var staðið, fóstraði Íslamska ríkið og stóraukna hryðjuverkastarfsemi. 

Bein og óbein hernaðarafskipti Bandaríkjanna og NATO af "Arabíska vorinu" veltu að vísu Gaddafi, og Hillary Clinton var hlátur í hug við að horfa á myndir af því hvernig honum misþyrmt og hann drepinn , en síðan hefur verið óöld og ringulreið í landinu. 

Enn verr tókst til í Sýrlandi, þar sem Assad situr enn sem fastast, en þjóðin hefur sundrast í skelfilegum hörmungum og flóttamannastarumurinn þaðan valdið uppnámi norður um alla Evrópu. 

En nú sýnist Trump standa frammi fyrir svipuðu fyrirbæri í Norður-Kóreu og tala digurbarkalega um að "gereyða" þar landi og lýð. 

Svo virðist sem haukarnir, sem Trump fær sér helst til ráðgjafar, gæli helst við algera valdbeitingu með fyrirbæri, sem að vísu var oft nefnt í Kalda stríðinu, "fyrirbyggjandi kjarnorkustríði." 

Það þýðir fyrirvaralausa og takmarkalausa kjarnorkuárás til að koma í veg fyrir að andstæðingurinn geti beitt sínum kjarnorkuvopnum. 

Í Kalda stríðinu varð svona árás aldrei að veruleika, því að engin trygging var fyrir því að Rússar gætu ekki svarað fyrir sig, og þar með MAD (Mutual Assured Destructin) eða GAGA (Gagnger Altryggð Gereyðing Allra) orðin að veruleika. 

Kúbudeilan var leyst með samningum, þar sem Kennedy lofaði Krustjoff því að beita ekki aftur hervaldi gegn Castro. (Innrásin i Svínaflóa 1961 hafði misheppnast gersamlega). 

En núna eru ekki menn á borð við Kennedybræður og varkára ráðgjafa þeirra við völd í Hvíta húsinu.  Haukarnir vildu vildu beita hervaldi strax, en í staðinn fannst lausn, sem gaf Krustjoff kost á útgönguleið án algerrar uppgjafar fyrir flotaveli Bandaríkjamanna. 

Nú eru aðstæður aðrar. Trump virðist trúa á þann möguleika að geta með sem allra harðastri fyrirbyggjandi árás komið í veg fyrir að Norður-Kóreumenn geti skotið kjarnorkusprengjum á bandarískt land. 

Og kjörorðið "Bandaríkin fyrst og fremst" rímar vel við "fyrirbyggjandi kjarnorkuárás" þótt það muni hugsanlega kosta milljónir mannslifa hið minnsta á Kóreuskaganum og jafnvel líka í Japan að ráðast af ítrasta alefli á Norður-Kóreu, svo að mannfall Bandaríkjamanna verði lítið sem ekkert. 

Ekkert virðist vera í gangi varðandi það að semja við Norður-Kóreumenn á þann veg að valdhafar þar geti haldið andlitinu og völdunum, líkt og gert var í Kúbudeilunni. 

Stríð á Kóreuskaga mun valda óheyrilegu tjóni og manndrápum, en Trump gælir geinilega við svipað og Obama og Bush, að trúa á beitingu hervalds, - einmitt það sem Trump gagnrýndi þá fyrir. 

Maó sagði á sínum tíma að kjarnorkuveldið Bandaríkin væru "pappírstígrisdýr" og varð að því leyti til sannspár, að í stað þess að beita kjarnorkuvopnum Bandaríkjanna gegn Kínverjum, fór Nixon forseti í fræga samningaför til Kína.  


mbl.is Auknar líkur á að Bandaríkin beiti hervaldi gegn N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís gæti orðið til taks.

Það hefur komið fyrir að umhverfisráðherra hafi vikið sæti þegar kveða þurfti upp úrskurð í erfiðu og umdeildu virkjanamáli. 

Það var þegar kveða þurfti upp úrskurð um svonefnda Norðlingaölduveitu, en sú virkjun hafði áhrif á Þjórsárve og hefði átt að heita Þjórsárfossavirkjun vegna þess að í raun átti að taka vatn af þremur stórfossum ofarlega í Þjórsá og veita Þjórsá austur í Þórisvatn. 

Siv Friðleifsdóttir taldi sig vanhæfa til að kveða upp úrskurðinn vegna ummæla um Þjórsárver, sem hún hefði látið falla, að manni skildist. 

Jón Kristjánsson tók lokameðferð málsins að sér og reyndi eins og hann gat að milda áætlanir Landsvirkjunar, sem var í raun ekki hægt. 

Nú heitir sams konar hugmynd Kjalölduveita og er jafn misvísandi og Norðlingaölduveita var. 

Ef virkjanasinnar reyna að bregða fæti fyrir Guðmund Inga Guðbrandsson á þeim forsendum að vegna mikillar þekkingar sinnar á málum, sem koma á borð hans, kunni hann að vera vanhæfur í einhverju tilteknu máli, þarf ekki að fara langt til að finna annan ráðherra til að fara í það mál, sem var umhverfisráðherra á árunum 2009 til 2013. 

Það er Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 


mbl.is Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einokun er ávallt varasöm.

Í fyrirsjáanlegri framtíð verða Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð með algerlega ráðandi aðstöðu varðandi flugflutninga til og frá landinu, á þriðju milljón farþega árlega. 

Þessi staða er og verður svo yfirþyrmandi, að hún verður ígildi einokunar. 

Einokun er ávallt varasöm, því að í slíku ástandi felst tilhneiging til geðþóttaákvarðana. 

Dæmi um langvarandi einokun á einu sviði þjónustu voru árin 1930-1986, þegar RÚV hafði algera einokun á markaði ljósvakamiðla. 

Ein rökin fyrir því að stórhækka stæðisgjöld við Leifsstöð eru þau, að vegna stóraukinnar umferðar og fjölgunar bílastæða þurfi að hækka gjöldin. 

Þetta eru fáránleg rök, því að stórfjölgun bíla ein og sér veldur veldur jafnharðan stórauknum leigutekjum.  Og hagkvæmni stærðarinnar ætti að greiða fyrir lækkun gjalda en ekki hækkun. 

Frægt var í hitteðfyrra þegar eytt var 30 milljónum króna í myndband til að sýna á árshátíð Isavia. Ef fleira er í þeim dúr í rekstrinum er ekki furða þótt það verði að hafa allar klær úti til að herja á pyngjur viðskiptavinanna. 

Þegar ég fór síðast til útlanda, á ráðstefnu í Hollandi, í október, var leigan fyrir stæði bíls okkar hjóna við Leifsstöð sem nam meira en helmingi af leigunni á hótelinu sem við gistum á í Hollandi. 


mbl.is 440 þúsund á dag fyrir bílastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband