Eitt glæsilegasta og magnaðasta spendýr jarðar.

Hvítabjörninn er eitt aðdáunarverðasta spendýr jarðarinnar fyrir sakir atgervis á láði og legi og hæfileikann til að lifa við erfiðustu skilyrði sem hægt er að hugsa sér. 

Fróðlegt er að sjá á netinu mimunandi viðbrögð við myndum af dauðastríð hvítabjarnar á Baffinslandi. 

Myndin er táknræn fyrir þær sakir, að hvítabjörnum fer fækkandi vegna loftslagsbreytinga og honum ógna líka þrávirk eiturefni, sem fylgja manninum og eyðast margfalt hægar í köldum skilyrðum en sunnar á hnettinum.DSC00178

Sem fyrr eru viðbrögð sumra þau að fordæma myndbirtinguna á þeim forsendum að "hræsnarar" hafi tekið hana vegna þess að þeir hafi brennt jarðefnaeldsneyti til þess að ferðast á þessum slóðum. 

Þetta eru aum rök, því að varðandi samgöngur er það útblástur mörg hundruð milljóna bíla að mestu í akstri hversdagsins, sem munar langmest um en ekki akstur, flug eða siglingar í afmörkuðum ferðum, þar sem ekki hefur enn verið fundin aðferð til að taka upp notkun rafafls eða annarra ráða til að losna við notkun jarðefnaeldsneytis. DSC00092

Sjálfur kannast ég vel við ásakanir mér á hendur fyrir að vera hræsnari í samgöngumáta mínum. 

Fyrir fólk með lélegan lífeyri eða fastatekjur er erfitt fjárhagslega að kaupa rafbíl en hælbítarnir taka ekkert slíkt til greina. Hræsnari skal ég vera.  

En á síðustu tveimur árum hef ég komist yfir rafreiðhjól og 450 þúsund króna Honda PCX 125 cc vespuhjól, sem nær þjóðvegahraða en eyðir aðeins broti af því bensíni sem sparneytnustu bílar eyða. Náttfari við Engimýri

Honduna nota ég þegar rafreiðhjólið er ekki nógu langdrægt eða hraðskreitt innanborgar og hef á fyrsta árinu í því farið 6000 kílómetra um allt land við kvikmyndagerðarverkefni mín og annað. 

Þessi tvö hjól gerðu kleyft að minnka kolefnisspor mitt við eigin persónulegu not um 70 prósent. 

Og fyrir nokkrum dögum tók ég á leigu minnsta rafbíl á Íslandi, ítalskan Tazzari sem ég set inn mynd af hér á síðunni. 

Þar með hefur fótspor mitt minnkað um 85 prósent, en út af stendur ca ein ferð á ári þar sem nota þarf jöklabíl, helst minnsta jöklabíl á Íslandi.  

Þá er upphafinn söngurinn um stórfellda mengun í flugi mínu í smáflugvélum, sem er reyndar ómögulegt að fara á rafknúinni flugvél. DSC00164

Ef við RAX ættum að lyppast niður fyrir þessu "hræsnara"tali hefðum við að átt að sleppa því að fara yfir Öræfajökul á dögunum og taka myndir sem gagnast hafa vísindamönnum, og raunar að leggja ævistarf okkar til hliðar. 

Þetta flug hefur síðustu tvö miðmiðunarár mín numið samtals um 15 klukkustundum á ári, sem samsvarar um 2000 kílómetrum á ári, en meðalakstur einkabíla á Íslandi er um 15000 kílómetrar á ári. 

Þá grípa hælbítarnir til hinnar gríðarlegu mengunar, sem sé af farþegaflugi í heiminum, en gæta ekki að þvi að þar er aðeins um að ræða eitthvað á bilinu 10-15% af útblæstri samgöngutækja á landi, - það er engin tæknileg leið fær til að rafvæða þetta flug og að sjálfsögðu engin leið til að leggja allt flug niður. 

En það sést strax á viðbrögðum við hvítabjarnarmyndinni að þrautaráðið er "að taka Trump á" málið með því að fullyrða að vísindalegar mælingar á loftslagi, ís og jöklum á jörðinni séu falsaðar. Og Trump hefur lýst yfir vilja sínum til þess að reka alla þessa vísindamenn og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn, sem komist að "réttum" niðurstöðum um að loftslag fari jafnvel kólnandi. 

 


mbl.is Hræðilegt dauðastríð ísbjarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hólsselskíll, Hvalfjörður, Miklabraut, flughált malbik ofl. ofl.

Svo lengi  sem ég man hefur viðkvæðið sem ævinlega er haft varðandi slys vegna lélegra aðstæðna í vegakerfinu, að í umferðarlögunum standi að ökumenn eigi ávallt að haga akstinum eftir aðstæðum. 

Ef öryggisatriðum í vegakerfinu hefur verið ábótavant er lang oftast skautað framhjá því þegar dæmt er um slys og óhöpp. 

Slysið í Biskupstungum minnir mig á slys sem olli mér nákomnum í fjölskyldunni meiðslum, sem kvöldu hann og hrjáðu í áratug. 

Hann var á vélhjóli á Reykjanesbraut í þéttri umferð og sá því ekki fyrr en of seint, að hann var kominn út á alveg nýlagt malbik, sem var blautt og fljúgandi hált, næstum eins og ísilagt. 

Hjólið skrikaði og féll og í byltunni mölbraut annar pedalinn á hjólinu ökkla svo gersamlega, að margar aðgerðir tók næstu árin að koma því í lag. 

Ég minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi verið sett upp skilti til að vara vegfarendur við eins gerbreyttum aðstæðum eins og verða þegar glænýtt malbik verður blautt. 

Slysið minnir mig líka á það hvernig Hvalfjarðarvegurinn var vegriðalaus lengi vel vegna þess að því var borið við að það yrði svo ægilega dýrt að setja þar vegrið, - þau yrðu að vera minnst tíu kílómetra löng. 

Á þessum tíma voru engir drónar, svo að ég stökk upp í litla 3ja manna flugvél sem ég átti þá og flaug eftir öllum veginum og sýndi fram á, að það þurfti ekki nema samtals 1,3 kílómetra vegrið til að koma í veg fyrir bílar gætu steypst í sjóinn ef þeir lentu útaf. 

Nú var ekki lengur hægt að þræta í þessu máli. 

En áður en til framkvæmda kom fórust hjón, sem voru í bíl, sem steyptist fram af hömrum í sjó niður á einum þeirra stuttu kafla sem ég hafði bent á og sýnt á loftmynd. 

Ég tók líka myndir af aðkeyrslunni að brúnni á Hólsselskíl þar sem alvarlegt rútuslys, banaslys ef ég man rétt, varð skömmu fyrir síðustu aldamót og fjöldi fólks slasaðist. 

Á myndunum sást, að þegar komið var í átt að brúnni voru brúarstólparnir, sem hölluðust út,  með svo gamalli hvítri málningu, að hún hafði máðst af og huglst moldu einmitt á þeim stað sem verst var, neðst við veginn. 

Tilsýndar virtust brúarstöplarnir lóðréttir og brúin vera heilum metra breiðari en hún var. 

Bílstjórinn var sakfelldur grimmilega fyrir að vera einn valdur að þessu slysi og sjonhverfingarnar vegna fyrrnefndar vanrækslu í engu teknar til greina. 

Á Dynjandisheiði síðastliðið sumar voru svo djúpar holur við endann á nokkrum stuttum brúm, að ef fólksbílar lentu á allt að 15 sentimetra hárri brúnum á brúarendanum, gat það valdið slysum og tjóni. 

Hvergi var að sjá neinar merkingar sem vöruðu við þessu. 

Það nýjasta er kantur á bryggju á Árskógssandi og veggir og girðingar við Miklubrautina. 

Það er ekki fyrr en fréttakona á RÚV stikar á einfaldan hátt vegalengdina frá Miklubrautinni að steinagarðinum norðan megin, sem það sést ljóslega hvernig í pottinn er búið svo að ekki verður um deilt. 

 


mbl.is „Hverju er verið að bíða eftir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband