Misjafnar skoðanakannanir. Lýðræði getur falist í fasisma.

Í skoðanakönnun sem Telegraph greinir frá, eru fleiri, þó ekki meirihluti Bandaríkjamanna, fylgjandi aðgerðum Donalds Trumps en eru andvígir þeim.

Þegar öðruvísi er spurt af öðrum fjölmiðlum eru hins vegar færri sem telja sig öruggari heldur en hinir sem telja sig óöruggari eftir að tilskipunin tók gildi.

Nú má heyra raddir um að ef meirihluti sé fylgjandi því sem gert er, hljóti það að vera rétt.

En svo gallalaust og fullkomið er lýðræðið því miður ekki og hægt að benda á sláandi dæmi um slíkt.

Þannig hlaut nasistaflokkur Adolfs Hitler aldrei fleiri en um 40% atkvæða í lýðræðislegum kosningum í Þýskalandi á árunum 1932 til 1933.

Til þess að komast til valda í meirihlutastjórn þurfti Hitler því að gera ýmist bandalag við aðra flokka eða að bjóða fram í samvinnu við þá. 

19. ágúst hafði hann verið við völd sem kanslari í eitt og hálft ár, og lagði þá fram tillögu til þjóðaratkvæðis um það að kanslaraembættið og forsetaembættið yrðu gerð að einu embætti "Foringjans", "Der Fuhrer" eftir lát Hindenburgs forseta. 

90% kjósenda studdu þá tillögu og samþykktu með því að afnema lýðræðið og fallast á fasíska stefnu hins einráða "Foringja." 

 


mbl.is Þriðjungur telur sig öruggari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur tafist heldur lengi.

Möguleikar á að fimmfalda orku jarðhitasvæða eða jafnvel meira voru reifaðar í fréttum um síðustu aldamót.

Í áttblöðungnum sem borinn var í Jöklugöngunni 2006 var lagt til, að beðið yrði árangurs af djúpborunum og Kárahnjúkavirkjun frestað á meðan, en í staðinn séð hvernig ferðaþjónusta og önnur nýting svæðisins geti eflst líkt og kom fram í sjónvarpsfréttum í viðtali við Louis Crossley nokkru áður.

Henni, ásamt fleirum, hafði tekist að fresta virkjun Franklin-árinnar á Tasmaníu og setja svæðið frekar á heimsminjaskrá UNESCO.

Þetta var gert og virkjunin í Franklin-ánni þar með tekin af dagskrá.

Ég var kominn í svo harða sjálfsritskoðun á þessum tíma, að ef ég birti svona viðtal, yrði að ég að vera með aðra frétt á móti, jákvæða fyrir virkjunina. Helst tvær jákvæðar. 

Ég gat "skúbbað" með viðtalinu en ákvað að bíða þar til Morgunblaðið yrði fyrst með hana, til þess að ekki væri hægt að "hanka" mig á því að hafa frumkvæði.

Helgina sem viðtalið var birt,  var ég með líka álíka langa jákvæða frétt um framkvæmdirnar eystra.

En þetta var unnið fyrir gýg. Á næsta fundi útvarpsráðs kvartaði fulltrúi Framsóknarflokksins sárlega yfir hinum "hlutdræga fréttaflutningi" mínum. 

Það hefur dregist of lengi að bora djúpa holu á réttu svæði. 

Landsvirkjun vildi endilega bora fyrstu holuna við Kröflu og valdi versta staðinn, við hliðina á mislukkaðri holu frá 1975, sem gereyðilagðist og hlaut heitið "Sjálfskaparvíti!"

Að sjálfsögði var nýja holan enn mislukkaðri, því að borinn komst fljótlega niður á kviku, sem þarna var síðan í Kröflueldum.

Að vísu var reynt að breiða yfir mistökin með því að tiltaka hve mikil orka væri samt í þessari holu, en á núvirði var, miðað við að hún hefur verið ónothæf, hent hátt í tveimur milljörðum í ruslafötuna.  

 

  


mbl.is Gæti leitt til byltingar á heimsvísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki reist á krepputímum heldur á uppgangstímum.

Í heimsókn í Kirkjuhúsið í kvöldfréttum á Stöð 2 var sagt að húsið væri furðulega íburðarmikið, af því að það hefði verið byggt á krepputímum, árin 1925-27. 

Þetta er alrangt. Kreppan skall ekki á á Íslandi fyrr en seint á árinu 1930 eftir að mestu uppgangstímar í sögu þjóðarinnar fram að því höfðu verið árin á undan. 

Evrópuþjóðirnar voru að rétta út kútnum eftir heimsstyrjöldina og í Bandaríkjunum ríkti langmesti uppgangur í sögu þjóðarinnar, svo mikill, að áratugurinn fékk heitið "The roaring twenties." 

Fyrst stórstirni kvikmynda og íþrótta komu fram, svo sem Babe Ruth og Jack Dempsey, og framleiddir voru lúxusbílar með allt að 16 strokka vélum á borð við Bugatti Royale, Duesenberg og Packard. 

Farþegaflug var að ryðja sér til rúms og Lindberg flaug í einum áfanga yfir Atlantshafið til Parísar. 

Hæstu skýjakljúfar heims ruku upp í New York sem og stórbrýr og hraðbrautir. 

Íslendingar fóru ekki varhluta að þessu. Svo mikill var uppgangurinn að gengi krónunnar var hækkað, svipað fyrirbæri sást ekki aftur fyrr en á árunum 2005-2007 og eftir 2014. 

Það er ekki tilviljun að mörg glæsileg stórhýsi voru reist, svo sem Landspítalinn og Landssímahúsið og sömuleiðis brýr á borð við Hvítárbrú í Borgarfirðí. 

Í lok tímabilsins var haldin langstærsta og glæsilegasta útihátíð á Íslandi fram að því, Alþingishátíðin á Þingvöllum, Ríkisútvarp sett á laggirnar,, skipaflotinn tók stækkaði ört og útgerðarfyrirtækin þar með, og steinhúsabyltingin breiddist um landið, jafnt til sjávar og sveita.

Hús Marteins Einarssonar við Laugaveg var eitt af þeim glæsihúsum, sem síðan eru tákn um uppgangstíma fyrr á tíð.  


mbl.is Full alvara að selja Kirkjuhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband