"What goes up must come down, spinning wheel..."

Ofangreind orð eru upphafslína textans við lagið Spinning wheel,sem hljómsveitin Blood, sweat and tears söng árið 1969.

Það er eins konar stemning æðruleysis í laginu sem minnir svolítið á stemninguna eftir Hrunið 2008 og hægt að túlka og skilja textann á ýmsa vegu. 

Lagið má telja eitt af fyrstu "fusion"lögunum, sem urðu vinsæl, og í instrumental-millikaflanum í lengri gerðinni, 4:08, sem er spilaðar á trompet, eru spilaðar að minnsta kosti fimmtán sínkópunótur í röð.

En spunahjól tilverunnar er sígilt fyrirbæri, svo sem sagnirnar um sjö góðæri og sjö hallæri, sem skiptast á og koma við sögu í Biblíunni um Jósep og bræður hans.

 

Og ekki þarf annað en að líta á línuritin af hitanum í Stykkishólmi síðan 1845 á síðunni Hungurdiskar hjá Trausta Jónssyni til að sjá hvernig veðurfarið sveiflast sífelllt upp og niður, þannig það, sem fer upp, hlýtur að falla niður á ný.

Þannig getur erlendum ferðamönnum á Íslandi varla fjölgað samfellt endalaust. Og miðað við allar þær fréttir sem sífellt berast af fjárskorti hér og fjárskorti þar þrátt fyrir hið dæmalausa góðæri, verður það sannarlega ekkert tilhlökkunarefni þegar ákveðnu mögulegu hámarki verður náð og leiðin getur ekki annað en legið niður á við, einkum vegna þess að öll hegðun okkar hefur byggst að ekki minni skammtímagræðgi en ríkti á árunum 2002-2008.

Útlendingnum, sem fór um heiminn og taldi byggingarkrana í hverju landi og spáði óhjákvæmilegu hruni hér á landi 2008, myndi ekki lítast á blikuna nú, því að byggingarkranarnir eru orðnir mun fleiri nú en þá.

Og því meira óðagot og fyrirhyggjuleysi, sem ríkir í græðgisbólunni nú en þá, því fyrr og meira verður bakslagið við það að vanrækt hefur verið að styrkja innviði eins og þarf í þessu mikla ferðamannaflóði.  

Lítið dæmi um það mátti sjá á magnaðasta eldfjallasvæði heims norðan Vatnajökuls síðsumars í fyrra. Þrátt fyrir allt masið um að dreifa þyrfti ferðamönnunum og þrátt fyrir að ferðaþjónustan mokaði 534 milljörðum inn í þjóðarbúið í fyrra, var ekki peningur til þess að kosta svo sem einn til tvo landverði á þessu svæði, svo að því var bara lokað besta mánuðinn, sem fékkst til ferða á því í fyrra !  


mbl.is Sagðir undirbúa sig fyrir næstu kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangurinn, Trump ofar öllu, virðist helga öll meðöl.

Öll ævisaga Donalds Trumps ber þess merki, að leitun sé að manni í veraldarsögunni, sem hefur sett sig sjálfan í meiri forgang eða sem meiri miðpunkt alls, eins konar ofurmenni á öllum sviðum. 

Öll hegðun hans virðist hafa snúist í kringum það að hann sé mestur og bestur í hverju sem er, og að vegna þess helgi tilgangurinn meðalið, sem er að koma þessum snillingi efst á stall valda og auðæfa.

Þannig hefur hann haldið því fram að hafa verið besti hafnarboltamaðurinn í heimaborg sinni á unglingsárunum þótt engin gögn liggi fyrir um það.

Og hann hefur líka haldið því fram að hann hafi haft sigur í öllum sínum ótal málaferlum og gjaldþrotum, þótt flest ef ekki öll gögn bendi til annars.

Þessi saga er raunar ekki ný, því að í gegnum árþúsunda langa sögu mannkyns hafa slíkar persónur hvað eftir annað safnað að sér fylgismönnum, sem trúa á "hinn sterka leiðtoga" í tilbeiðslukenndri aðdáun og finnst öryggi sínu best borgið undir verndarvæng ofurmennisins. 

Enda ala þessi mikilmenni iðulega á umkomuleysi, ótta, óánægju og öryggisleysi sem flestra til þess að geta skapað sér aðstöðu til þess að gerast einhvers konar bjargvættur. 

Raunar virðist það ekki skipta neinu fyrir Trump að hafa nein gögn í höndum í málatilbúnaði, heldur hafa hann og hans menn búið til nýtt hugtak, "alternate truth" eða "alternate fact", sem þýða mætti með íslenska nýyrðinu "sannlíki."

Í gærkvöldi sást á sjónvarpsskjánum háðsádeila en jafnframt hrollvekjandi lýsing sjónvarpsmannsins John Olivers á dæmum um þetta, og rakið eitt afbrigðið, hvernig Trump leitar að verstu og ósvifnustu fréttaveitum í sjónvarpi vestra til að horfa á, og tekur síðan hin ótrúlegustu ummæli og býr til úr þeim hinn nýja sannleika, sem byggist ekki á neinum gögnum, heldur innantómum upphrópunum öfgafyllstu manna, sem hægt er að leita uppi í fjölmiðlum.

Oliver sýndi til dæmis feril þess sannlíkis, að tveir milljónir atkvæða í Kaliforníu hefðu verið kolólögleg í forsetakosningunum.

Engin tilviljun er að þetta eigi að hafa átt sér stað í Kaliforníu, því að þar hafði Hillary Clinton einna mest fylgi. 

Tilgangurinn er að draga úr trúverðugleika kosninga vestra á svo áberandi hátt, að þau úrslit, að Trump fékk hátt í þremur milljónum færri atkvæði á landsvísu en keppinauturinn, verði véfengd en hins vegar ekki véfengd úrslitin í kjörmannakosningunni. 

Í kappræðum við Clinton sagði Trump alveg blákalt, að ef hann tapaði, myndi hann kæra úrslit kosninganna og fá þeim hnekkt, en ef hann sigraði, myndi hann ekki gera það!  

Eftir að einn maður hafði talað opinberlega um tveggja milljóna atkvæða kosningasvindl í Kaliforníu, án þess að hafa neitt fyrir sér í því efni, fór hver kverúlantinn af að éta þetta upp eftir öðrum, og vegna þess að hinn mikli "raunveruleikasjónvarpsmaður" Trump virðist í sínu mikla og einhliða sjónvarpsglápi sjá þetta og heyra nógu oft á skjánum, fer hann að tala um það sem viðurkenndan sannleika. 

Að nefna ákveðna tölu, tvær milljónir, gerir sannlíkið sennilegra. 

Næsta skref er síðan að jábræður Trumps, sem hann hefur safnað í kringum sig, éta þetta upp eftir honum hver sem betur getur og láta að lokum nægja að vitna í Trump einan, því að hann sé boðberi sannleikans og orðinn forseti og ofar öllu. 

Í þessari furðulegu hirð Trumps étur síðan hver upp eftir öðrum þetta bull vikum saman í síbylju þangað til þetta hefur breyst í úr sannlíki í hreinan viðurkenndan sannleika. 

Þetta er hrollvekjandi fyrirbæri þegar búið er að búa til haug af slíkum sannlíkisfréttum sem hver um sig er eins og risavaxin Lúkasarfrétt á heimsvísu. 

Af því að sannlíkið, Lúkasarfréttaflutningurinn mikli, rímar ekki við það sem virtustu fréttaveiturnar hafa hingað til greint frá, er hafinn upp skefjalaus áróður gegn fjölmiðlum, sem beinist augljóslega að því að grafa undan tiltrú á fjölmiðlum almennt og stimpla þá sem varga í véum. 

Meðal þeirra sem Trump hefur þegar hyglað í breytingum á reglugerðum, eru vellríkir kolanámueigendur, sem hafa verið þekktir fyrir illa meðferð á námumönnum áratugum og jafnvel öldum saman.

Trump auðveldar þessum lagsbræðrum sínum með annarri hendinni til að græða á því að fá aukið frelsi til að eitra umhverfið og níðast á starfsmönnum sínum við hættulegar aðstæður, en býður síðan með hinni hendinni fulltrúum kolanámummanna í Hvíta húsið, fyrstur allra forseta Bandaríkjanna, til þess að þeir geti þar dáðst að Foringjanum, kysst á vöndinn og þakkað "Uber alles" fyrir að tryggja hag og vöxt kolanámufyrirtækja og þar með auðkýfinganna, sem eiga þær. 

Já, þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. 

Og á þessum aðferðum og þessu hugarfari eiga síðan stjórnmál Bandaríkjanna og gangur heimsstjórnmála að byggjast. 

Gangur stjórnmála í stórveldi og heimsstjórnmálin þar með, hefur áður byggst á sannlíki og tilbeiðslu á Foringja, sem átti að vera ofurmenni og það er athyglisvert eftir á, út í hvílíkar öfgar og ósköp þetta fyrirbæri getur leitt ef það fær að vaxa í skjóli andvaraleysis. Vonandi gerist slíkt aldrei aftur. 

Fyrir rúmum 80 árum varð til sannlíki mikils Foringja, snillings og ofurmennis, um tilvist ofurmennakynstofnsins Aría og voru þróuð mikil vísindi í kringum það og sannlíkið um "óæðri og óæskilega kynþætti" svo sem Slava og Gyðinga. Boðskapurinn var að einn kynþáttur og ein þjóð væri á nánast guðlegan hátt og jafnvel vísindalegan (þróunarkenning Darwins), útvalin til valda og að til þess þyrfti "lífsrými" og yfirráð Aríanna yfir óæðri kynþáttum og löndum þeirra og útrýming óæskilegs kynþáttar, Gyðinga.

Þess vegna þyrfti að hreinsa til og það dugði ekki minna en heil heimsstyrjöld til þess að fylgja þessari "háleitu" hugsjón eftir.

Fyrir löngu er búið að afhjúpa það bull sem kenningin um Aríana var, en síbyljukenning Göbbels um að ef lygin væri endurtekin nógu oft yrði hún að sannleika, réði ferðinni í ótrúlega langan tíma.  


mbl.is Ítrekuð samskipti við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband