Hressandi hreyfing og útivera fyrir flesta. Sópurinn er bestur.

Eftir nokkurra áratuga reynslu af snjómokstri til að komast að bílum, opna þá og aka í burtu, hefur venjulegur heimiissópur eða kústur reynst best fyrir bakveikan mann eins og mig. 

Í morgun var svo mikill púðursnjór (lausamjöll, sjá athugasemdir) að það auðveldaði stórlega að nota kústinn. 

Snjórinn var það djúpur, að hann náði upp fyrir háa vélhjólaskó, og þá var nóg að sópa efri hluta snævarins burtu og láta fæturna um afganginn. 

Enn betri er sópurinn við að sópa snjó ofan af bílunum og af gluggum hans, áður en farið er með rúðusköfur til að fullkomna verkið. 

Í dag bættust góð áhrif sólarljóssins við hressandi hreyfingu og útiveru. 


mbl.is Fleiri fá fyrir hjartað í snjómokstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki alltaf beint samasemmerki á milli mikilla snjóa og mikilla kulda.

Mesta snjódýpt, sem mælst hefur í Reykjavík, var 55 sm árið 1937. Ég man eftir 48 sentimetra snjónum 1952. Þá féll snjórinn í samfelldri logndrífu eins og nú.

Í bæði skiptin, einkum 1937, féll snjórinn á því tímabili á síðustu öld, þegar loftslag á Íslandi var hlýjast og jöklar minnkuðu hratt. 

1951 voru eindæma snjóalög á útmánuðum á Norðausturlandi. 

Fyrir tveimur árum féll metsnjór í austasta hluta Kanada og norðausturhluta Bandaríkjanna. 

Bæði vestra og hér á landi ruku menn upp fyrir tveimur árum og sögðu, að þetta sýndi að hlýnandi loftslag á jörðinni væri "ein risastór falsfrétt" og hinn mikli snjór sýndi þvert á móti að loftslag á jörðinni væri að kólna og færi jafnvel "hratt kólnandi." 

Ef þessir sömu menn hefðu verið á ferli 1937 og 1952 hefðu þeir hugsanlega haldið hinu sama fram þótt jöklar landsins væru lungann úr síðustu öld, og einna mest á árunum 1920-1965 á hröðu undanhaldi.

Ástæða hins mikla snævar, sem féll í nótt, var ekki fimbulkuldi, þótt snjór sem fyrirbæri sé venjulega tákn um kalt loftslag.

Snjórinn varð fyrst og fremst svona mikill, að því til landsins kom einstaklega magnaður hlýr og rakamikill loftmassi, sem þéttist í snjókomu þegar hann mætti svalara lofti.

Snjórinn mikli í Kanada og norðausturhluta Bandaríkjanna fyrir tveimur árum féll af svipuðum sökum, og í öllum nefndum tilfellum, 1937 og 1952 hér á landi, og fyrir tveiur árum vestra, féll snjórinn í hita við frostmark en ekki í frosthörkum.  

Fyrstu merki um breytt loftslag í Noregi voru þau, að á Harðangursheiði, liggur í um 1000 metra hæð, féll meiri snjór en veturna á undan. 

Ástæðan var mun meira af hlýju og röku lofti, sem barst úr suðvestri að ströndinni og þéttist í snjó þegar það skall á hinni 1000 metra háu hásléttu. 

En samt minnkuðu hinir litlu jöklar þar ár frá ári, af því að sumrin voru það mikið hlýrri og lengri en fyrr, að yfir heildina bráðnaði meiri snjór á sumrin en féll á veturna. 

Ég hef um áratuga skeið fylgst með hálendinu fyrir norðan Vatnajökul, einkum síðustu 20 ár. 

Á síðustu árum hefur blasað við breytt veðurlag að því leyti, að á svæðinu austan við ána Kreppu, sem verið hefur innan þess svæðis þar eem minnst úrkoma er á landinu, hefur verið meiri úrkoma og meiri snjór á veturna en áður var, en vestan árinnar hefur hið þurra loftslag hins vegar haldist, og jöklarnir, hugsanlega að undanskildum varanlegum sköflum í Snæfelli, halda áfram að minnka.

Bestu setninguna um loftslagsbreytingar á þó leiðtogi vestrænna þjóða, Donald Trump, sem sagði í einni af ræðum sínum, að það væri skítakuldi í New York sem sýndi fánýti kenninganna um hlýnun loftlags á jörðinni.  


mbl.is Snjódýptin aldrei meiri í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband