Las hæstiréttur Bandaríkjanna eitthvert annað trúarrit?

Undirréttur í Bandaríkjunum dæmdi Muhammad Ali í fangelsi fyrir að óhlýðnast skipun um að gegna herþjónustu og vera sendur til Víetnam. 

Ali byggði vörn sína á því að hann neitaði herþjónustu af trúarástæðum sem múslimi og vitnaði í meginatriði boðskapar Kóransins,sem væri friður og bann við manndrápum. 

Hæstaréttardómararnir tóku þessa vörn Alis gilda og sýknuðu hann. 

Nú er spurningin hvernig það má vera, að Kóraninn sé túlkaður á þennan veg, en á sama tíma á allt annan veg í Hollandi og víðar hjá þeim sem vilja banna sölu á þessu riti og banna múslimum að flytjast til landsins.

Og þegar athugaður er ótrúlega mikill munur túlkunar mismunandi kristinna trúarfélaga á Biblíunni, vaknar svipuð spurning. 

Svarið er líklegast það, að þetta séu nógu stór og víðfeðm trúarrit til þess að hægt er að finna hér og þar alls konar trúarsetningar og mismunandi boðskap, sem nægi til þess að heyja trúarbragðastyrjaldir, jafnvel innbyrðis milli kristinna trúfélaga og milli múslimskra trúfélaga og nota tilvitnanir í ritin ef svo ber undir. 


mbl.is Vill banna Kóraninn og allar moskur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gömlu dagana gefðu mér..."?

Hér í gamla daga var það einfalt viðfangsefni að hreinsa snjó af götum og gangstéttum. Gert með handafli. Skóflum.  Handafli margra, sem komust að með skóflur sínar hvar sem var.

Bílstjórar settu snjókeðjur á drifhjólin, margfalt öflugri spólvörn en bestu nagladekk nútímans.

Núna féll snjórinn aðfararnótt sunnudags og náði að verða til vandræða klukkan fjögur.

Í gamla daga voru böll þá búin og flestir komnir heim eða langleiðina þangað.

Nú er þetta dregið fram undir morgun.

Það liggur í augum uppi að jafnvel þótt það kosti næturvinnukaup að ræsa strax út allan tiltækan mannskap, bætir það sig upp síðar í mokstrinum, sem er því auðveldari sem byrjað er fyrr á honum.

Að ekki sé nú talað um að spara þann mikla tíma og kostnað sem fylgir ófærð.

Í miðbænum í gærkvöldi, næstum þremur sólarhringum eftir snjókomuna miklu, þurfti enn að klofa yfir háa ruðninga á ómokuðum gangstéttum og bílastæðum við þær, þar sem fætur fólksins og hjól bílanna voru búin að þjappa hann saman og gera enn erfiðara en ella að fjarlægja hann.

Ekki er í þetta skipti hægt að afsaka sig með því að kostnaður við snjómokstur hafi verið svo mikill í vetur.  Í raun kom veturinn fyrst í fyrradag, fjórum mánuðum síðar en venjulega.  


mbl.is „Ömurlegt“ ástand í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ, hvaða óheppni að hafa ekki skotið Írani.

Nýr blær er að færast yfir viðburði og frásagnir af þeim síðustu misserin eins og sést á tengdri frétt á mbl.is.

Æ, hvaða óheppni að hafa skotið óvart tvo Indverja í stað tvo Írana eins greinir frá í þessari frétt af byssumorði í Bandaríkjunum fyrir um viku, sem annars hefði líklega farið hljótt.  

Því að ef Íranir hefðu verið skotnir og hrópað upp: Ég vil ekki hafa þessa menn í landinu mínu!" hefði þetta aldrei orðið neitt mál og ummmæli morðingjans eftir á: "Ég skaut einhverja Írana" hefði bara orðið í ágætu samræmi við það að "losa sig við hættulegt fólk, sem ógnar öryggi Bandaríkjamanna."

Því að það er ógn við öryggi fólksins að hættulegir Íranir sitji vopnlausir við bar. Það sjá allir.  

Eitt hafðist þó upp úr á skjóta Indverjana, því að í ljós kom að þeir störfuðu fyrir GPS-fyrirtæki og tóku þar með störf frá sönnum Bandaríkjamönnum. 

Orðið "óvart" í fyrirsögn fréttarinnar rímar ágætlega við hugsunarháttinn að baki þessu einu af tugþúsundum árlegra skotvopnamorða í Bandaríkjunum, sem framin eru í samræmi við þá hugsjón hve þarft það er að 250 milljónir skotvopna og helst fleiri séu í landinu til þess að vernda stjórnarskrárbundinn rétt til "sjálfsvarnar" gegn fólki, sem ógnar örygginu almennings.

En árans óheppni að hafa ekki skotið Írana í stað Indverja. 

Fyrir 80 árum voru rúður brotnar í búðum Gyðinga í einu af löndum Evrópu og þeim misþyrmt eða þeir jafnvel drepnir, án þess að hvert atvik um sig teldist frétt. 

Þá var talsvert lagt upp úr því að Gyðingar og eigur þeirra væru merktar, svo að síður kæmi fyrir að þeir, sem urðu fyrir þessum árásum, væru ekki Gyðingar.

En í þeim tilfellum, sem samt hefðu verið gerð "mistök" með því að drepa óvart til dæmis Araba hefði það gilt, að það hafi verið óheppni að þetta voru ekki Gyðingar. En stærra orð en "óvart" hefði ekki verið talin þörf á að viðhafa um þessi "mistök."

Í hryðjuverkum öfga múslima í Evrópu hin síðari ár hefur vafalítið múslimatrúar fólk verið meðal þeirra, sem lágu í valnum. Og hryðjuverkamenn hafa þá bara yppt öxlum og sagt. "Æ, hvaða óheppni var það að drepa óvart múslima í staðinn fyrir kristna." Ef þeir hafa þá haft fyrir því að harma nokkurn hlut. 

Já, svona er heimurinn í dag myndi Jón Ársæll líklega orða þetta. Og sumir virðast bara nokkkuð ánægðir með hina breyttu tíma.  

 


mbl.is Ætlaði að drepa Írana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefðbundið orðalag úr smiðju Orwells.

Þegar George Orwell skrifaði bókina 1984 þótt mörgum forspá hans um þjóðfélagið tæpri hálfri öld eftir útkomu bókarinnar býsna fjarstæðukennt. 

En annað hefur komið á daginn, og nú lifum við á tímum, þar sem forspá Orwells um orðanotkun og gerbreytta merkingu heita og hugtaka, hefur fengið margfalda dýpt. 

"Öryggi" og "öryggishagsmunir" eru jákvæð orð en þýða í raun stóraukna smíði sífellt öflugri vopna og vopnaskak til þess að "tryggja öryggi" þeirra þjóða og þeirra leiðtoga sem helst beita hernaðarlegum hótunum og aðgerðum. 

"Öryggi borgaranna" þýðir í raun margeflda leyniþjónustu og persónunjósnir lögregluríkja í svipuðu atferli og tíðkaðist hjá STASI, KGB, Gestapo og Securitatis. 

George W. Bush sendi heri inn í Írak og Afganistan til að "tryggja frið" og friðarverðlaunahafinn Barack Obama beitti hernaðaríhlutun í Líbíu og sendi vopn þangað og til Sýrlands til þess að efla friðinn í þessum löndum. 

"Öryggi" er tryggt með því að leita uppi "óvini þjóðarnnar" og berjast gegn þeim.

Erdogan og Trump hafa fundið hættulega óvini þjóða sinna í fjölmiðlum, sem ógna öryggi fólksins og þarf því að berjast gegn af alefli. Sömuleiðis hættulega óvini í nágrannalöndum sínum, sem þurfi að gera óvirka. 

Þegar dómsvaldið dansar ekki með, verður það líka að "óvinum" og Erdogan hefur verið duglegur við að reka dómara og Trump telur dómara, sem ekki telja einstaka tilskipanir standast bandarísku stjórnarskrána "svokallaða" dómara og óhæfa til starfans. 

Til að fylgja eftir baráttunni gegn óvinunum þarf auðvitað að stórefla herinn og setja þá reglu, að dregið skuli úr útgjöldum til alls þess, sem "ekki þjónar öryggishagsmunum landsins" það er, her, lögreglu og byggingu múra á landamærum. 

Hervæðing og vígbúnaðarkapphlaup er sett í algeran forgang. 


mbl.is Trump heitir „sögulegu“ fjármagni til varnarmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband