Trump lærir af Íslendingum: "Svokallað hrun", "svokallaður dómari."

Við endurskrift atburðarásar Hrunsins var fundið upp hugtakið "svokallað hrun." Í rökréttu framhaldi af því hafa þeir, sem svona hafa tekið til orða, lýst því hvernig ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði átt alla sök á þeirri efnahagskreppu, sem ríkti hér á landi frá haustinu 2008 til 2012. 

Engu er líkara en að Donald Trump leiti nú í smiðju Íslendinga þegar hann kallar alríkisdómarann, sem setti lögbann á ferðabann Trumps gagnvart íbúum sjö múslimalanda "svokallaðan dómara." 

Sjá má hér á blogginu að Andri Snær Magnason er ekki kallaður rithöfundur, hvað þá verðlaunarithöfundur, heldur "listamannalaunþegi". 

Aldrei fyrr hef ég heyrt það orð notað um listamann, en ætlunin er augljóslega að halda áfram því níði á hendur honum með stórfelldum rangfærslum varðandi verðskulduð listamannalaun hans, sem haft var í frammi fyrir rúmu ári. 

Stanslaus orðræða um hugtakið "góða fólkið" er notuð til að sverta viðkomandi sem allra mest og gera þessi tvö orð að skammaryrðum. 

 


mbl.is „Svokallaður“ dómari með fáránlega skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiður að stjórnarskránni, - djók?

Varla var liðinn sólarhringur frá því að Donald Trump sór eið þess efnis að standa vörð um og virða stjórnarskrá Bandaríkjanna þar til hann undirritað tilskipun sem augljóslega brýtur í bága við þessa stjórnarskrá. 

Undanfarin ár hafa átök og þóf í átökum þriggja stoða bandarísks lýðræðis farið vaxandi. Á endanum greip Barack Obama til meiri beitingar tilskipanavalds forsetans en þekkst hefur áður. 

Það var ekki góð þróun en ekki er við Obama einn að sakast að hann taldi sig á endanum tilneyddan til að beita valdi, sem dómstólar gerðu ekki athugasemd við. 

En á innan við viku hefur tilskipunargleði hins óbilgjarna Donalds Trumps gert beitingu Obama á því valdi að smámunum. 

Nú í hádeginu mátti heyra það hjá fjölmiðlafulltrúa forsetans, að forsetinn myndi hafa úrskurð dómara í málinu að engu´á þeim forsendum að sjálfur teldi forsetinn sig hafa haft lögin sín megin. 

Með slíkum yfirlýsingum er farið út á hættulega braut sjálfdæmis forsetans, sem sé æðra dómsvaldinu. 

Framundan virðist þref milli valdstoðanna þriggja sem fari fram úr því sem hingað til hefur þekkst í þeim efnum og stór spurning er, hvort bandarískt lýðræði og stjórnkerfi muni standast þá raun. 

Ein af athugasemdum Feneyjarnefndarinnar svonefndu 2013 við frumvarp stjórnlagaráðs var sú, að í nýrri stjórnarskrá væri fólgin hætta á auknum óróa og átökum á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds.

Fjölmiðlungar, sem stukku á þetta álit, gleymdu því að gagnrýni Feneyjarnefndarinnar beindist fyrst og fremst að grein í stjórnarskrárfrumvarpinu um málskotsrétt forseta Íslands, sem var af sama toga og 26. greinin er núna, en í ljósi reynslunnar frá 2004, þegar deilur risu um það að engin atkvæðagreiðsla fór fram, skerpt á nauðsynlegum reglum varðandi framkvæmdina.

Ákvæði um aðgreiningu, valdmörk og skörun valds í stjórnarskrám vestrænna lýðræðisríkja, "checks and balance",  eru grunndvallaratriði lýðræðisfyrirkomulagsins. 

Þrátt fyrir ákveðna annmarka 26. greinarinnar varðandi framkvæmd hennar, sem kippt er í lag í frumvarpi stjórnlagaráðs, verður ekki annað sagt en að Íslendingar hafi komist sæmilega frá beitingu málskotsákvæðisins og að þjóðarvilji sé fyrir því að slíkur öryggisventill sé til. 

Hvort Bandaríkjamenn komi vel eða illa út úr komandi átökum forseta, þings og dómstóla í valdatíð afar einstrengingslegs forseta, er önnur saga. 


mbl.is Lögbann á ferðabann Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakt andrúmsloft á metttíma. Sumir "trömpast" alveg.

Donald Trump hefur aðeins setið í tvær vikur í embætti, en vafasamt er að nokkru sinni fyrr í sögu Bandaríkjanna síðan 1933 hafi jafnmikið gengið á í kringum Hvíta húsið við forsetaskipti og nú. 

Það er ekki aðeins allt umrótið sem fylgt hefur orðum og gjörðum forsetans, sem er óvenjulegt, heldur ýmis fyrirbæri tengd þessu ástandi, sem varla hefur sést fyrr.

Eitt af því eru stuttir sjónvarpspistlar með sama ívafi, sem farið hafa um facebook og netmiðla um mörg lönd og eiga það margir sameiginlegt að í þeim leita fulltrúar viðkomandi þjóða eftir því að fá að komast á vinsældalista þjóðanna hjá Trump með því að fá að verma annað sætið, næst á eftir hinum nýju Bandaríkjum hans.

Ég datt fyrir tilviljun niður á deilingu á nokkrum af slíkum þáttum og sýndist ótækt að ekkert yrði gert hér á landi í þessa veru, einkum vegna þess að Danir voru búnir að gera sína útgáfu og að frá fornu fari hafa ríkt ákveðnir "Dana-komplexar" í sambúð frænd- og vinaþjóðanna Dana og Íslendinga.

Pistilinn, sem er i bréfsformi á ensku, má sjá á "status" á facebook-síðu minni og ef hann er að einhverju hafandi, væri gaman að myndskreyta hann og láta einhvern lesa hann, sem gæti náð að herma að einhverju leyti eftir Trump.

Eitt það sterkasta af mörgum trompum ( trömpum) sem við eigum til þess að komast í annað sæti lista Trumps er sú staðreynd að við Íslendingar fundum upp slagorðið "Ameríka fyrst" meira en þúsund árum á undan Trump. 

Við fundum nefnilega upp "Ameríka fyrst!" með því að finna Ameríku fyrst. 

Og ekki bara það. Til að tryggja það að hið nýja meginland yrði kristið frá upphafi skiptum við yfir í kristna trú á sama árinu og við fundum Ameríku fyrst!  Og sýndum þá fádæma framsýni að að gera harðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að múslimar, sem þá seildust til valda á leið allt vestur til Spánar, yrðu innflytjendur í Guðs eigin landi.

Þar að auki stilltu íslensku víkingarnir sig um að sigla suður til Mexíkó þótt þeir gætu það vel, af því að öllu skipti að það land yrði ekki byggt glæpalýð og eiturlyfjasölum.

 

En landkönnuðir frá ESB-löndum eins og Kólumbus eyðilögðu þetta fyrir okkar mönnum og síðar Trump. 

Í einu múslimsku innrásinni í land okkar fyrr á öldum, Tyrkjaráninu 1627, sýndu Danir algeran aumingjaskap, og afhjúpuðu getuleysi sitt til að byggja múra með því að byggja Skansinn á allt of seint, á röngum tíma, röngum stað og allt of lítinn. Algert "distaster". 

Við Íslendingar toppuðum hins vegar Dani með því að stöðva hraunrennsli frá heilu eldfjalli á Heimaey með tvöföldum múr úr vatni og ösku.

En þetta er aðeins upphaf bréfsins til Trump á facebook, því að við höfum af svo mörgum góðum rökum að taka að hann er margfalt lengri.  

 

Og nú er best að fara að halla sér eins og Gísli Halldórsson sagði á sínum tíma.  


mbl.is Munu svara í sömu mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband