Teknir við keflinu af Pírötum.

Miðað við það hve stutt er liðið síðan kosið var og ný ríkisstjórn tók við, er merkilegt hve stór sveifla hefur orðið í fylgi stjórnamálaflokkanna í skoðanakönnunum. 

Vinstri græn hafa nú heldur betur tekið við því hlutverki af Pírötum að vera með langmest fylgi stjórnarandstöðuflokkanna og fylgi ríkisstjórnarflokkanna er langt frá því að vera viðunandi fyrir þá sem aðila að meirihlutastjórn.

Aðeins um þriðjungur þeirra, sem gefa upp afstöðu sína, fylgja þessum þremur flokkum, en tvöfalt fleiri fylgja stjórnarandstöðuflokkunum. 

Er það athyglisvert, því að enn sem komið er, hefur nýja stjórnin ekki haft mikinn tíma til að gera eitthvað sérstakt sem hægt er að nefna sem orsök þessara miklu umskipta.  

Nema að feluleikurinn með skýrslurnar tvær um aflandsfélögin og niðurfellingu vegna skulda, sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, sé ástæðan. 


mbl.is Vinstri græn mælast stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var bent á hugsanleg mistök hér á síðunni.

Þegar Icelandair ákvað að kaupa 16 Boeing 737 vélar í stað Boeing 757 á sínum tíma, var bent á það hér á síðunni að þar kynni að vera um mistök að ræða, en jafnframt það að úr vöndu væri að ráða.

Þá var sagt í umsögn félagsins sjálfs að um val hefði verið að ræða milli Boeing og Airbus véla.  

Íslenskar aðstæður, eins og rakið er í bloggfærslu á undan þessari, eru nokkuð sérstæðar vegna fjarlægðar eyjunnar okkar frá öðrum löndum og vegna þess að þoturnar eru notaðar til flutninga á fiskafurðum og fragt auk farþegaflutninga. 

Ef varaflugvöllur er erlendis þarf mikið eldsneyti til að sinna því skilyrði og stóri vængurinn 757 hjálpaði til að viðhalda burðarmagni, því að Boeing 757 er með um 40% stærri vængflöt en Boeing 737 og óhjákvæmilegar afleiðingar eru þær, að 757 missir minni brautargetu við mikla hleðslu en 737 vélarnar, sem þurfa lengri flugbrautir og auka eldsneyti vegna langrar vegalengdar til varaflugvalla.

Oft á tíðum bitnar þessi munur því meira á burðargetu og afkastagetu þeirra en á 757 vélunum, sem hafa reynst einkar hentugar við hinar íslensku aðstæður. 

737 hefur hins vegar reynst góð söluvara alla tíð af því að með aflmeiri hreyflum hefur verið hægt að lengja þá gerð til hins ítrasta og hlaða fleiri farþegum á hina litlu vængi. 

Galli við 757 er hins vegar sá fyrir erlend flugfélög, að stærri vængur þýðir yfirleitt meiri loftmótstöðu og þar af leiðandi meiri eldsneytiseyðslu en minni vængur. 

Fyrir erlend flugfélög þar sem hörð samkeppni krefst ítrustu sparneytni og engar sérstakar aðstæður á borð við þær íslensku hafa áhrif, er því freistast til að kaupa hinar vængminni vélar, og 757 reyndist ekki seljast jafn vel fyrir Boeing og vonast hafði verið eftir. 

Var framleiðslu 757 því hætt. 

Bæði 757 og 737 eru með jafn mjóa skrokka og formóðirin, 707, var með þegar hún var hönnuð fyrir næstum 70 árum.  En síðan þá hafa flugfarþegar stækkað á alla kanta. 

Icelandair átti möguleika á að leysa endurnýjun flugflota síns með vélum með breiðari skrokka, til dæmis Airbus gerðum, sem voru hannaðar 30 árum síðar en skrokkmjóu Boeing vélarnar og tekið var tillit til stækkunar farþega og flugvélarskrokkurinn hafður breiðai. 

Munurinn sýnist ekki mikill en hefur samt sálfræðilega þýðingu fyrir vellíðan í flugi. 

Annað atriði, sem gerir ákvörðun flugfélaga um kaup á nýjum vélum erfiða, er úr gagnstæðri átt; æ fleiri flugfarþegar gera höfuðkröfu til lágs fargjalds en minni kröfur til þess hvað er innifalið varðandi þægindi. 

Vinsældir stærri Áirbus og Boeing véla, svo sem 777, byggist á því að mæta báðum kröfunum, að bjóða upp á víðan skrokk og sálræn þægindi rýmisins annars vegar, - og einstaka hagkvæmni hins vegar, takist að fylla vélarnar. 

Þær vélar henta því afar vel á lengri leiðum, eins og til dæmis fyrir flug vestur um haf og milli flugvalla í Suður-Evrópu og Íslands. 

Mjög stór kaup á einhæfum nýjum flugflota getur sýnst hagkvæmur, en dregur úr hæfni flugfélags til að bjóða upp á sveigjanlegan flugflota í samræmi við mismunandi og síbreytilegar aðstæður. 

Sá á kvölina, sem á völina. 


mbl.is Flugvélakaup sögð mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíll í glervörubúð.

Donald Trump hefur tekist það á þremur vikum, sem engum öðrum forseta Bandaríkjanna hefur tekist á heilu kjörtímabili, að kveikja elda ósættis, úlfúðar og óróa í bandarísku þjóðlífi. 

Hann veður um með stóryrðum, upphrópunum, fúyrðum og tilskipunum og egnir sem allra flesta til æsinga á báða bóga, svo að minnir einna helst á fíl í glervörubúð. 

Annað eins orðbragð hefur ekki heyrst síðan á óróaárunum á sjöunda áratugnum. 

Í bandarískum sjónvarpsþætti á skjánum í kvöld var varpað fram þeirri tilgátu, að meðal annars væri þetta gert til þess að leyna því að Trump hefur, án þess að eftir því hafi verið tekið, gefið sínum líkum, svo sem iðnjöfrum og framleiðendum jarðefnaeldsneytis, lausan tauminn í að minnsta kosti tíu aðskildum tilfellum, meðal annars með því að aflétta bönnum til þess að verja almannahagsmuni svo sem banni við að menga ár með eitruðum úrgangi. 

Hann setti sem forstjóra EPA, Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, mann, sem hefur verið helsti andstæðingur þeirrar stofnunar, augsýnilega til þess að lama hana sem allra mest.

Meðal þess sem EPA gerði, þegar borgir landsins voru að drukkna í útblástursmengun á þeim tíma þegar "Ameríka var stórkostleg", var að setja reglur sem gerðu bílaframleiðendum skylt að minnka þessa mengun.  

Fróðleg var lesningin sem lesin var um öll þau atriði þar sem líkum Trumps er gefið skotleyfi á almannahagsmuni. 


mbl.is Dómaraefnið gagnrýnir tíst Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband