Enn á að teygja löngu, löngu tímabært verk.

Alþingi gaf í nafni þjóðarinnar svonefnda þjóðargjöf til landgræðslu á 1100 ára afmæli landnámsins. 

Óstjórn í efnahagsmálum og óðaverðbólga eyddu þjóðargjöfinn á aðeins einum áratug og alla tíð síðan hefur ríkt sama ófremdarástandsins í þessum málum, þar sem af ot til hefur komið fram, að stór hluti sauðfjárbeitar fer fram á afréttum, sem eru ekki beitarhæfir að mati Landgræðslu Íslands. 

Skömmu fyrir síðustu aldamót fékk Ólafur Arnalds fyrstur og einn Íslendinga umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir einstaklega yfirgripsmikla og vandaða kortlagningu á ástandi jarðvegs á Íslandi. 

En þetta afrek hans hefur ekki fengið að njóta sín í því að hætta verstu meðferð á jarðvegi, sem nokkur þjóð hefur látið land sitt sæta. 

Að sjálfsögðu er það hið besta mál út af fyrir sig að gert sé samkomulag milli bændasamtaka, Landgræðslunnar og ríkisvaldsins um að gera mat á gróðurauðlindum og hefur það alla tíð verið löngu, löngu tímabært verk. En þrátt fyrir að sjálfsagt sé að fagna þessu og alls ekki að draga úr mikilvægi þess, er ekki hægt að horfa fram hjá því að möguleikarnir framundan eru í grófum dráttum tveir: 

1. Eftir 10 ár liggur niðurstaða hins nýja mats fyrir og loksins geta menn ekki vikið sér undan því að bregðast við því. 

2. Í stað þess að þegar sé eitthvað gert sem augljóslega má sjá af rannsoknum Ólafs Arnalds og Landgræðunnar, er því frestað í tíu ár og hugsanlega haldið áram að draga lappirnar í þessu slæma máli. 

Því miður sýnist í ljósi reynslunnar síðustu öld að síðari möguleikinn sé líklegri. En staðan er einfaldlega þannig, að það virðist ekki hægt að gera neitt nema að bíða og vona.  


mbl.is Meta gróðurauðlindir Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn bandaríski "útskýrari." "Enginn er betri..."

Jóhannes Þór Skúlason fjölmiðlafulltrúi Sigmundar Davíðs á sínum tíma hafði oft nóg að gera við að útskýra ýmislegt sem forsætisráðherrann var að gera eða gera ekki. 

Kölluðu sumir hann Jóhannes útskýrara fyrir bragðið. 

Eitt af þessu var að útskýra af hverju SDG var í ósamstæðum skóm á ljósmynd, sem tekin var af honum á fundi forsætisráðherra Norðurlanda með Barack Obama forseta Bandaríkjanna. 

Nú er svipað fyrirbæri komið upp í Bandaríkjunum þar sem Sean Spicer er útskýrarinn en Trump þjóðarleiðtoginn.  

En nú bregður svo við að hlutverkunum virðist víxlað, því að það er útskýrarinn sjálfur sem er á ósamstæðum skóm og það miklu ósamstæðari en SDG var nokkurn tíma, og skór Sigmundar voru báðir svartir, en skór hins bandaríska útskýrara í tveimur litum, svörtum og brúnum. 

Það er ekki laust við að maður sakni svolítið þess tíma þegar nóg var að gera hjá hinum íslenska útskýrara, því að það gaf oft tilefni til skemmtilegrar umræðu. 

Sem dæmi má nefna þegar SDG ákvað að fara ekki til Parísar á vit þjóðarleiðtoga fjölda þjóða til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar í þeirri borg. 

Þá kom nefnilega í hugann hugsanlegt kjörorð fyrir SDG í stjórnmálabaráttu hans, sem fengið gat tvöfalda merkingu í þessari vísu í lokahendingu hennar: 

 

Forystu Íslands féllust hendur. 

Til Frakklands var þess vegna enginn sendur. 

Héðan fór enginn yfir hafið, 

því enginn er betri en Sigmunduru Davíð. 


mbl.is Spicer fetar í fótspor Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa aldrei verið til sjós á Halamiðum eða Nýfundnalandsmiðum.

Útlendingar sem neita að trúa myndum, sem ljósmyndarinn John Kucko tók af ísuðu húsi, hafa aldrei verið til sjós á Halamiðum eða Nýfundnalandsmiðum og séð hinn óhemju mikla ís, sem særok getur hlaðið á skipin. 

Og þeir lifa heldur ekki í þjóðfélagi, þar sem stórslys af völdum ísingar á sjó hafa verið stóráföll og minnt á eðli og veldi tveggja konunga, Vetrar og Ægis, þegar þeir leggja saman í púkk. 

Ég átti kæran mág, Sigfús Jóhannsson, sem var á sjónum í marga áratugi og var heiðraður á Sjómannadeginum í Reykjavík, og sagði mér þannig frá baráttu sinni og skipsfélaga hans upp á líf og dauða við ísinguna að það er ógleymanlegt. 

Orðið "ísilagt" í fréttinni er bæði misvísandi og óþarft, því að þetta orð er notað um ís, sem liggur á láréttum fleti.  Vötn eru ísilögð og hægt að tala um ísilagða slóð. 

Segja má að sumarbústaðurinn sé ísaður eða ísi hlaðinn. 

Á þeim tímum þegar veðurspár voru ófullkomnar misstu Íslendingar tugi manna í hafið í einstökum aftakaveðrum á borð við Halaveðrið 1925 og veðrið á Nýfundnalandsmiðum 1959 vegna þess að særokið hlóð ísi utan á möstur, reiða og yfirbyggingu þannig að þungamiðja skipanna varð svo há, að þau ultu að lokum í öldurótinu. 

Þegar togarinn Júlí fórst með 30 mönnum 1959, var það síðasta sjóslysið af þeirri stærð hjá íslenskum sjómönnum. 

Nú fer þeim fækkandi hér á landi sem muna eftir sorgardögunum, þegar þjóðin beið milli vonar og ótta eftir fregnum af sjónum. 


mbl.is „Íshús“ í New York vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband