Það var líka ótrúlegt hverju fólk henti 2007.

Á árunum 2006-2008 ríkti aldeilis einstakt ástand hér á landi, sem að miklu leyti hefur aftur hafið innreið sína. 

Af því að ég hef lengi haft áhuga í minnstu og umhverfisvænstu bílunum hverju sinni, urðu þetta árin þegar fólk henti slíkum bílum í stórum stíl eða gaf þá frá sér. 

Ég þekkti mann sem flutti nokkra nýja bíla inn á þessum árum eftir viðskipti á Ebay, þar sem svipað fyrirbæri erlendis gerði að verkum að hægt var í krafti þessa ástands og hás gengis krónunnar að kaupa örlitla bíla og flytja þá inn fyrir slikk. 

Hægt var að flytja þá inn tvo og tvo í gámum. 

Einn þessara bíla varð að minnsta brúðarbíl landsins, opinn Fiat 126. Af því að einkanúmer fást ókeypis fyrir aldraða svipaðist ég fyrir rælni eftir einkanúmerinu ÁST en bjóst auðvitað ekki við því að eigendur heppilegra brúðarbíla eða ástfangið fólk hefði látið slíkt númer framhjá sér fara. 

En viti menn: Árið 2007 var enginn að hugsa um slíkt, og númerið "ÁST" var á lausu. 

Á þessum árum voru það fyrst og fremst nöfn eigenda glæsibílanna sem þrykktu sín eigin nöfn á bílana. 


mbl.is „Ótrúlegt hverju fólk er að henda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt eru og verða ekki til peningar til að aflétta þjóðarskömm.

Ástandið á Geysissvæðinu hefur verið þjóðarskömm í marga áratugi en samt virðast vera til nógir peningar til að gera allt annað en að ganga almennilega frá hverasvæðinu. 

Ástand þess verður enn ljósara þeim, sem hafa komið á hliðstæð hverasvæði erlendis, svo sem Yellowstone. 

Allt tal um að deilur um eignarhald á hversvæðinu hafi búið til þessa stöðu er aumkunarvert og að þess vegna skorti fjárveitingar. Erlendi gesturinn sér bara svæðið eins og það er og veit að það eru Íslendingar sem eiga svæðið.   

Á sama tíma eru nógir peningar til þess að reisa þúsund manna ferðaþjónustuþorp "með útsýni yfir Langjökul í allar áttir" eins og ferðagreifarnir orða það. 

Ferðaþjónustuþorp er svosem ágæt hugmynd og þarft mál að treysta sem flesta innviði ferðaþjónustunnar. 

En dálítið er nú skrumkennt sumt sem látið er flakka, svo sem um útsýnið frá Geysi. 

Í fyrsta lagi er Langjökull aðeins í eina átt frá Geysi og í öðru lagi sést Langjökull ekki frá Geysissvæðinu. 

Ágætir menn bjuggu á sínum tíma til orðið "kvótagreifar" um þá sem eiga sjávarauðlindina í raun í gegnum kvótakerfið. 

Nú eru líka komnir "ferðagreifar", sem hafa átt eða eiga flestar landareignirnar sem dýrmætustu náttúruverðmæti landsins eru á.

Slíkt er ekki leyft í landi frelsisins, Bandaríkjunum, en á okkar landi er hugsunarhátturinn ekki ólíkur því sem hann var á tímum danska konungsins, sem var líka konungur Íslands og leyfði dönskum "greifum" og þó einkum íslenskum aðli þess tíma, embættismönnum, kaupmönnum og stórbændum þess tíma auk kirkjunnar og konungs sjálfs að eiga 90% af öllum landareignum á Íslandi. 

90% íslenskra bænda voru leiguliðar. 


mbl.is Ferðaþjónustuþorp við Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband