"Skóreimamarkið" var einstakt.

Svonefnt "skóreimamark" sem þeir FH-ingarnir Geir Hallsteinsson og Gunnar Einarsson skoruðu hér um árið er hugsanlega eina slíka handboltamarkið, sem skorað hefur verið. 

Markið var einstakt á að horfa og það ætlaði allt um koll að keyra í Laugardalshöllinni, þegar það var skorað, ekki aðeins vegna þess hve þetta var einstakur atburðu, heldur vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa varðandi það hvort það væri löglega skorað. 

Málavextir voru þeir að Gunnar var afar góður, léttur lipur og tekniskur handboltamaður, enda lærisveinn Geirs Hallsteinssonar og var talað um hann sem hugsanlegan arftaka hins mikla snillings. 

Án þess að það hefði frést út í frá höfðu Gunnar og Geir æft vandlega á æfingum ákveðna tegund af nokkurs konar sirkusmarki og framkvæmd bragðsins tókst fullkomlega þegar þeir létu til skarar skríða í alvöru handboltaleik. 

Bragðið byggðist á því að Geir var á skóm, þar sem önnur skóreimin virtist hafði losnað í miðjum leik. 

Hann fékk boltann og hljóp ógnandi nokkur skref með hann á ská í átt að marki andstæðinganna, líkt og hann ætlaði að stökkva upp, brjótast í gegn eða skjóta með lágskoti, en "fintur" af ýmsu tagi voru sérgrein Geirs.

En í þetta sinn stoppaði hann skyndilega með boltann fyrir utan vörnina, beygði sig eldsnöggt niður til að hnýta skóreimina en sendi boltann í sömu andrá aftur sig beint í hendur Gunnars sem kom hlaupandi utan af vellinum hinum megin í átt að Geir. 

Gunnar hljóp upp á afturhluta baks Geirs, nákvæmlega á því augnabliki þegar hann var búinn að beygja sig alla leið niður að lausreimaða skónum, og notaði Gunnnar bak Geirs eins og stökkbretti til þess að stökkva svo hátt með boltann, að hann gat skotið yfir vörnina sem var framundan og skorað glæsilegt mark án þess að nokkrum vörnum yrði við komið.

Ég vona að þetta sé rétt lýsing í meginatriðum en mig minnir dómararnir hafi dæmt markið löglegt.

Um þennan dóm var deilt eftirá en það er erfitt að sjá hvað var í raun ólöglegt við þetta.

Maðurinn, sem hleypur upp á bak hins, verður að vera mjög léttur og fimur, og varla á færi nema snillings eins og Geirs að framkvæma það jafn snilldarlega og hann gerði að hægja á sér með boltann, beygja sig niður og senda boltann til samherjans um leið og hann bar hina hendina að lausu skóreiminni.

Þar að auki er erfitt að endurtaka þetta eftir að búið er að gera það einu sinni, því að tiltölulega auðvelt er að trufla framkvæmdina ef mótherjarnir vita um að hugsanlega muni þetta verða reynt.  

 


mbl.is Markið sem allir eru að tala um (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkurs konar hryðjuverkatíska.

Sú var tíðin fyrr á öldum að eitur var oft notað til manndrápa. Síðar virtist slíkum tilfellum fækka og aðrar aðferðir taka við. 

Þegar flugrán fóru að tíðkast á síðari hluta liðinnar aldar urðu þau æ algengari þar til að búið var að þróa viðbrögð gegn þeim. 

Þessi viðbrögð voru þaulæfð og þegar hryðjuverkamenn rændu fjórum þotum í einu 11. september 2001 voru áhafnir allra vélanna viðbúnar samningaviðræðum við flugræningjana eftir að vélunum hefði verið lent á einhverjum flugvelli. 

Það hvarflaði ekki að neinum um borð í þotuhnum, nema kannski á síðustu stundu í þeirri vél sem brotlenti í Pensylvaníu, að þoturnar yrðu notaðar sem nokkur konar mönnuð flugskeyti á þann hátt sem raunin varð. 

Og í framhaldinu fjölgaði sjálfsmorðsárásum. 

Nú hafa flutningabílar komist inn í vopnabúr þeirra sem fremja sjálfsmorðsárásir og það mun líklega líða nokkur tími þar til fundin verða ráð til að verjast slíkum árásum. 

Á meðan verður notkun bíla nokkurs konar hryðjuverkatíska. 


mbl.is Bíll sem vopn: Hvers vegna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve mikil áhrif munu nýjustu atburðir hafa?

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu sölunnar á Arionbanka þessa dagana og þá næstu og áhrifum hennar á íslenska stjórnmálaástandið.

Fyrstu viðbrögð forsætisráðherra voru að fagna sölunni með þeim orðum að hún sýndi að nú hefðu góðir útlendingar mikið traust á Íslandi og fjárfestingum hér á landi. Þetta væri alveg nýtt fyrirbrigði og mikið fagnaðarefni.

En síðan hafa hrannast upp spurningar og auk þess hringja ýmsar bjöllur varðandi samanburð á þessari sölu og sölu ríkisbankanna upp úr síðustu aldamótum og samanburð á hinum "dásamlegu" fjárfestingum útlendinga í íslenska hagkerfinu í aðdraganda hrunsins.

Þá voru kaup erlendra vogunarsjóða og fleiri fjárfesta á íslenskum krónum lengi vel talið sérstakt fagnaðarefni, af því það sýndi "traust útlendinga á íslenska hagkerfinu."

Þeir sem vöruðu við þessu og bentu á hættu á fyrirbrigði, sem líkja mætti við "snjóhengju" sem hengi yfir okkar litla hagkerfi voru kallaðir úrtölumenn og nöldrarar lengi vel.

En síðan kom í ljós að aðvörunarorðin áttu svo sannarlega við rök að styðjast, þegar hin risavaxna sápukúla bankakerfisins og efnahagslífsins alls sprakk og við tók níu ára haftatímabil við að eyða snjóhengjunni í þeim mæli að óhætt væri afnema höftin.

Á árunum í byrjun aldarinnar var gumað af háu gengi krónunnar og þeirri dýrð, sem einka(vina)væðing bankanna hefði fært okkur.

Þegar ég minntist á tvennt í bloggpistli, annars vegar þá ætlun ráðamanna 2002 að eignarhald bankanna yrði dreift í anda Eyjólfs Konráðs Jónssonar, og hins vegar það að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, var skrifað heilt Reykjavíkurbréf um það hve þessi skrif mín væru mikið bull og hve mikill ómerkingur ég væri.

Rökin voru þau í Reykjavíkurbréfinu að það hefði verið kennitöluflakk sem hefði haft áhrif og að Þorsteinn Pálsson hefði sem forsætisráðherra 1988 látið skoða hvort leggja ætti Þjóðhagsstofnun niður! Niðurstaðan varð þá sú að ekkert varð úr því! 

Þetta tvennt sagði höfundur Reykjavíkurbréfsins að sýndi að ráðamenn um síðustu aldamót hefðu ekki borið neina ábyrgð á þvi sem þá gerðist. 

Nú stingur upp kollinum í sölu Arionbanka svipað fyrirbæri, "kennitöluflakk" og sérkennilegt eignarhald sem endar í þekktu skattaskjóli í Karabíska hafinu, 9,99% eignarhlutir og krosstengsl sem hringja bjöllum varðandi það að þarna séu eigendur bankans að selja sjálfum sér ráðandi hlut í bankanum með tuga milljarða gróða miðað við það skilyrði, sem upphaflega var sett um að selja á hámarks verði til óskyldra aðila.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og fleiri hafa lýst því hvernig hægt er að líta á þessa gerninga alla.

Og nú sér maður það sagt á prenti að ráðamenn þjóðarinnar um þessar mundir geti ekkert við þessu gert, ekki frekar en ráðamenn um síðustu aldamót réðu neinu um sölu bankanna eða afnám Þjóðhagsstofnunar. 

Dæmigerð viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna, þar sem ríkjandi lagaumhverfi, sem þeir hafa sjálfir búið til, sé eitthvað sem detti eins og af himnum ofan án þess að nokkur fái rönd við reist eða beri neina ábyrgð.

Fróðlegt er að vita hvort hrun fylgis tveggja litlu stjórnarflokkanna stafar af vandræðaganginum í þessu máli, af því að kjósendur þeirra hafi orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu þeirra.

Enn meira umhugsunarefni er það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli nú stórauka fylgi sitt.

En það er svo sem ekkert nýtt í sögu þess flokks. Hann sótti fram í kosningunum 2007 með slagorðinu "traust efnahagsstjórn" þótt árið áður hefði munað hársbreidd að bankakerfið hryndi og að aðeins rúmt ár liði frá kosningunum þar til hin "tausta efnahagsstjórn" færði með sér mesta efnahagshrun í sögu lýðveldisins.  


mbl.is Fylgi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband