"Séríslenskar aðstæður"?

Eitt af því, sem vekur athygli í umferðinni hér á landi eftir að hafa kynnst umferðinni í nágrannalöndunum, er hið mikla kæruleysi og oft tillitsleysi og frekja, sem hér virðist miklu algengara en erlendis.Lagt í stæði

Í gegnum árin hafa verið birtar margar myndir hér á síðunni til að sýna dæmi um þetta, og hér kemur ein.

Jeppanum, lengst til hægri á þessari mynd, er lagt þannig, að það sé öruggt að hann taki rými sem tveir bílar kæmust annars auðveldlega í. Stæðið fyrir framan hann er of lítið fyrir meðalstóran bíl, og stæðið fyrir aftan hann líka, nema að þeim bíl sé lagt þannig að hann standi á hluta til á stæðinu fyrir hreyfihamlaða, sem er blámálað. 

Afstaða bílsins til næsta stæðis fyrir aftan hann sýnir, að hann getur ekki afsakað sig eftir á með því að áður en ljósmyndin var tekin hafi staðið þar annar bíll, sem hafi neytt hann til að leggja eins og hann gerði.

Ekki nema þeim bíl hafi verið lagt þannig að hann næði inn á stæðið bláa, sem er sérmerkt fyrir fatlaða.  

Tengd frétt á mbl.is er táknræn fyrir það rugl, öllum til vandaræða, sem íslenskir bílstjórar hafa vanið sig á.  

Sumir reyna að afsaka þetta með því að aðstæður knýi þá til þess arna, og er þá stutt í hina klassísku afsökun, sem felst í orðunum "séríslenskar aðstæður."  

Og það má kannski segja að hér ríki séríslenskar aðstæður, en ekki beint vegna aðstæðnanna sjálfra, heldur er það hegðun "séríslenskra ökumanna" sem skapa þessar aðstæður. 


mbl.is Bílum illa lagt og tillitsleysi algengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama þurfti tvö ár. Nægja Trump tvær vikur?

Endurbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna til þess að 20 milljónir þeirra væru ekki lengur án nokkurra sjúkratrygginga, tóku alls sex ár, og ferlið var mikil þrautaganga fyrir forsetann. 

Hann hafði boðað endurbæturnar strax þegar hann tók við völdum 2008 en það þurfti langt og strangt samningaferli við þingið til þess að koma þessu máli í gegn til þess að nálgast kerfi sem Norðurlandabúum hefur þótt sjálfsagt í meira en sjötíu ár. 

Hér á Íslandi voru fyrstu lögin um almannatryggingar í svipuðum anda og hjá Norðurlandaþjóðunum loks sett í stjórnarsáttmála og framkvæmd 1944. 

Með því að setja þingmönnum afarkosti vonast Trump til þess að sýna fram á, að hann sé "sterkur leiðtogi", sem nær árangri á aðeins broti af þeim tíma sem fyrirrennari hans þurfti. 

Þessi aðferð, að taka mikla áhættu til þess að ná miklum árangri, komast upp með það og halda áfram á sömu braut á leið til mikilla valda og áhrifa á heimsvísu, er þekkt úr stjórnmálasögunni.

Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Trump muni farnast.  


mbl.is Trump setur þingmönnum afarkosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kynja- og jafnréttisvæl"?

Orðið "kynjavæl" og þar með orðið "jafnréttisvæl" er svar sumra við því að miðaldra hvítir karlar skipi mestu valdastöður heims á sviði fjármála og stjórnmála. 

Þeim, sem láta sér þetta vel líka, tala um að þetta sé orðin "þreytt" umræða og vilja greinilega að ekki sé minnst á ójöfnuðinn sem birtist til dæmis í því að innan við eitt prósent mannkyns eigi helming auðs heimsins á móti hinum 99 prósentunum.

Og að svipað fyrirbæri birtist hjá mestu herveldum heims og meira að segja hjá okkar þjóð. 

Að minnast á slíkt sé "þreytt" umræða.

Sömu menn hreykja sér af því að vera kristnir og formæla öðrum trúarbrögðum. Predikaði Kristur þó þann boðskap að allir menn væru Guðs börn og tók svari ofsóttra og niðurlægðra.

Hlýtur þá sú 2000 ára gamla umræða þá ekki að vera "orðin þreytt" og kominn tími á að hætta henni, hætta þessu "væli"?

Nýjustu rökin gegn hinu "þreytta kynjavæli" eru þau að konur skipi nú 80% allra kennarastarfa í landinu og hafi hertekið þá stétt.

Bíðum nú aðeins, - er kennarastarfið, hvert og eitt, orðin svona mikil valdastaða sem færir kennurunum ofurlaun?  

Er hjúkrunarfræðingsstarfið orðið að valdastöðu, sem færir þeirri stétt ofurlaun í formi 370 þúsund króna byrjunarlauna á mánuði?

 


mbl.is Ekki í lagi að vera eina konan á fundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki starf sem vert væri að sækja um?

Mikið er kvakað víða í sveitum landsins um bagalega fólksfækkun. Eitt ráð við slíku liggur eðli málsins beint við, en það er að auka frjósemi bænda og því eðlilegt að slíkt skilyrði sé sett hjá stefnuvottum, sem ferðast víða um Suðurlandsundirlendið, - að þeir miðla af þekkingu sinni, ef þeir eru hoknir af reynslu á þessu sviði í bókstaflegri merkingu, og geta nefnt óyggjandi tölur í því efni.

Eru áreiðanlega fáir betur til þess fallnir en slíkir menn til að veita bændum góðar frjósemisleiðbeiningar og aðstoða þá eftir megni. .

Það liggur beinast við að álykta sem svo, að því lengri reynsla og árangur sem býr að baki hjá umsækjendum um svona starf, því meiri von sé á árangri af leiðbeiningum, bæði skriflegum og verklegum.

Þótt ég verði 77 ára á þessu ári er ég enn ágætlega heilsuhraustur, stunda líkamsrækt og hleyp til dæmis með mælingu skeiðklukku í hverri viku upp stiga í blokkinni, sem ég bý í, frá kjallara upp á fjórðu hæð í einum rykk á undir 30 sekúndum til þess að fylgjast sem best með snerpu og þreki.

Þessi árangur í því að fara uppá þá fjórðu og ágæt önnur hreysti, auk þess að vera faðir sjö barna, 21 barnabarns og eins barnabarnabarns, hlýtur að vera akkur í svona starfi.

Kannski er bara hið besta mál að sækja um og skella sér í þetta, ef maður er ráðinn.

Og það yrði viðeiganndi, bæði þjóðlegt og dreifbýlislegt, að texti erindisbréfsins yrði í bundnu máli: 

 

Með líkömum stinnum og sterklegum

má stirðlega elskhuga gera´að sér hænda

á fullu í fjörugum, verklegum

frjósemisleiðbeiningum til bænda.  


mbl.is Óvenjulegar kröfur hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband