Auglýsingin "Kápþinking" ætti að fá skylduáhorf.

Þegar Kaupþing fékk einn þekktasta leikara Breta til þess að leika í rándýrri auglýsingu um nýja yfirburðasnilli íslenskra bankamanna var ekki verið að skafa neitt utan af hlutunum. 

Því var blákalt haldið fram að innan veggja bankans hefði verið fundin upp algerlega ný aðferð við fjármálastarfsemi, sem væri allt öðruvísi en hinar úreltu aðferðir fram að því, og verðskuldaði því að hljóta alþjóðlegt heiti: "Kaupthinking!", borið fram "Kápþinking!" 

Þessi yfirburða snilldaraðferð gerði bankanum kleyft að verða í forystu í fjármálalífi heimsins og við það að horfa á auglýsinguna sást greinilega að hinn íslenski ofurbanki myndi á methraða verða ein af grunnstoðunum í því að gera Ísland að miðstöðu fjármálaheimsins þegar fram liðu stundir.

Margir eru vafalaust búnir að gleyma þessari einstæðu auglýsingu, en hún var einfaldlega þess eðlis, að hún má ekki gleymast þegar aftur eru farnar af stað gamalkunnar fléttur og vafningar.

Ætti að verða skylduáhorf næst á undan Áramótaskaupinu á hverju gamlárskvöldi.  


mbl.is Kaupþing banki óstarfhæfur frá 2003?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikult minni.

Þegar ýmis atriði varðandi vafstrið, flétturnar og vafningana í kringum Hrunið og fjármálagerninga eftir Hrun, dynur mikið minnisleysi yfir þá, sem tengjast þessari "tæru snilld" eins og það var svo skemmtilega orðað varðandi Icesave.

Núna fellur þessi óminnishegri yfir aðalmanninn í kaupum á Búnaðarbankanum 2003, enn er í minnum haft þegar annar gat ómögulega munað eftir Tortólu í sjónvarpsviðtali, og nær altækt minnisleysi féll á þjóðarleiðtoga okkar í heimsfrægu viðtali við hann.

Þannig mætti halda áfram að telja, en með minnisleysi fylgir á rökréttan hátt, að viðkomandi vita ekkert og höfðu þar af leiðandi ekki gert neitt athugavert.

Til er sjúkdómurinn áunnin sykursýki. Kannski er líka til fyrirbrigðið áunnið minnisleysi og hið skylda fyrirbrigði áunnin fáfræði og þar með áunnið sakleysi.

Þessi fyrirbrigði eru miklu algengari en menn halda. Þannig bregðst jafnvel meirihluti þjóðarinnar við þeim tíðindum, sem stundum leka út, að orkan hjá gufuaflsvirkjunum landsins sé svo takmörkuð hvað endingu snertir, að um hreina rányrkju geti verið að ræða.

Algengustu viðbrögðin við slíkum fréttum eru að þeir sem heyra þær hafi aldrei heyrt þetta áður.

Fyrir hálfum mánuði var ég til dæmis beðinn um að koma á spjallfund fyrir austan fjall til þess að upplýsa um þessar splunkunýju fréttir sem höfðu komist á ljósvakann, meðal annars vegna ályktunar stjórnar Íslandshreyfingarinnar í sambandi við nýja frétt um hæðarmælingar á helstu svæðum gufuaflsvirkjana á Reykjanesskaga.

Ástæðan var sú að þeir, sem báðu um að þetta yrði útskýrt nánar, höfðu aldrei heyrt þetta fyrr,

Enda ekki furða, því að í hvert skipti sem eitthvað fréttist um þetta og minnst er á það tíu sinnum, glymur síbyljan þúsund sinnum um hreina og endurnýjanlega orku, allt frá forsetanum og niður úr í metorðaskalanum.  


mbl.is Kaup þýska bankans til „málamynda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera Bandaríkin aftur mest og verst?

Með afnámi aðhalds í umhverfismálum eða stórminnkun þess hyggst nýr forseti Bandaríkjanna snúa við á þeirri braut, sem þó hefur verið farin vestra síðan í hálfa öld í átt frá rányrkju og sóun auðlinda með mestu loftmengun í heimi.

Þótt þessi viðleitni hafi verið allt of hægfara hefur þó djarfað fyrir viðleitni. 

Nú þegar hefur Trump dregið úr eða aflétt margs konar hömlum á framferði fyrirtækja, sem hafa stundað rányrkju, eitrað umhverfi sitt og valdið stórfelldum náttúruspjöllum. 

Á morgun hyggst hann bæta í og hefja sókn til baka í átt til þess ástands, sem ríkti fyrir hálfri öld þegar "Bandaríkin voru stærst og mest."

Hollt er að rifja upp hvernig ástandið var þar 1967.  

Bandaríkin voru langstærsta iðnaðarveldi heims, og til dæmis mest allra í bílaframleiðslu, framleiddu meira en helminginn af heimsframleiðslunni.

Ameríski kagginn og pallbíllinn voru þjóðartákn, bílarnir þar voru langstærstir, aflmestir og eyðslufrekastir. Bandarískar borgir voru að drukkna í útblástursmengun, sem byrgði fyrir sólu og olli sviða í augum, en hún var tákn um mikilleik neyslusamfélagsins, sem var afrekstur ameríska draumsins um frelsi, fé og frama. 

Bandaríkin héldu áfram út öldina að viðhalda þeim mikilleika að 5% jarðarbúa sköpuðu minnst 25% af loftmenguninni. 

Á meðan frumbyggjar Ameríku voru einir í álfunni, sáu þeir til þess að viðhalda sjálfbærri þróun á sinn hátt, með því að gera kröfur að landinu væri skilað til komandi kynslóða í betra ásigkomulagi en þegar tekið var við því, - að auðlindum væri viðhaldið þannig að ekki væri gengið á þær.

Gott dæmi um annan hugsunarhátt hvíta mannsins var, að hann fór langt með að útrýma amerísku vísundunum á nokkrum áratugum á 19. öld.

Alls voru drepnir 50 milljónir vísunda, mest sem sport en einnig til að rýra afkomumöguleika frumbyggjanna.   

Þótt Trump telji að til þess að gera "America great again" sé hægt að komast hjá því að fást við lang stærsta og óhjákvæmilegasta viðfangsefni jarðarbúa á þessari öld, að koma skikki á mál málanna, umhverfismálin, og í nafni þess að efla veldi bandarískra fyrirtækja verði að snúa hjólinu til baka til að endurheimta mikilleik þeirra, verður eini árangurinn af þessu brölti, þegar fram í sækir, að gera enn erfiðara fyrir þjóðir heims að ráða fram úr þeim risavanda sem rányrkja á auðlindum jarðar skapar. 

Í stað þess að Bandaríkin verði mikilfengleg, eins og þau gætu orðið með því að vera í forystu um umgengni mannkyns við jörðina og auðlindir hennar, ætlar Trump að setja þau í forystu við að rífa niður viðleitni annarra þjóða til að fást við mesta vanda komandi kynslóða. 

Mun honum takast að gera Bandaríkin aftur mest og verst í stað þess að stefna að því að þau verði mest og best?


mbl.is Afnemur reglugerðir Obama í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott væri lengja brautina um 150 metra, jafnvel í báða enda.

Flug um Ísafjarðarflugvöll hefur alla tíð verið vandasamt eins og blasir við þegar horft er á flugvallarstæðið. Þótt brautin þar sé 1400 metra löng eru það aðallega þrjú atriði, sem skerða öryggi hennar og notagildi, nálægðin við fjallshlíðina sem hún liggur meðfram,- í öðru lagi fjallið Kubbi, sem er í brautarstefnu innan við brautina og þriðja lagi hinn þröngi fjörður sem þarf að fljúga inni í, hindranir. 

Þar að auki getur verið misvindasamt í flugi að og frá vellinum og ofan á allt þetta bætist, að völlurinn er lokaður fyrir almannaflug í myrkri. 

Það getur verið afar bagalegt á veturna, þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkstundir um hádaginn, og þá oft einmitt þann hluta sólarhringsins þegar veðrið er ekki sem best. 

Hugsanlega hefur áður verið minnst hér á síðunni á litla úrbót, sem getur þó reynst drjúg við vissar aðstæður, en það er að lengja brautina um 150 metra í ytri endann. 

Kostir þess eru eftirfarandi. 

1. Þegar lent er út eftir, getur komið sér vel að hafa 150 metra auka hemlunarvegalengd brautar til að stöðva flugvélina, ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í lendingunnni, til dæmis vegna misvindis, sem kemur ofan úr svonefndri Naustahvilft í fjallinu upp af flugstöðinni og getur valdið því að vélin lyftist þegar hún er í þann veginn að snerta brautina og snertir ekki brautina fyrr nokkuð seinna en flugmenn höfðu áætlað . 

2. Í flugtaki inn eftir, kemst viðkomandi flugvél 150 metrum fyrr í loftið en ella, en það getur reynst dýrmætt ef eitthvað fer úrskeiðis í flugtakinu og eftir það, svo sem ef annar tveggja hreyfla gefur sig og klifra verður á afli aðeins annars þeirra í þröngri hægri beygju þar sem fjallið Kubbi getur verið erfið hindrun og þar á eftir neðri hluti hlíðarinnar fyrir neðan Seljalandsdal.

Einkum er slíkt klifur erfitt, ef það er vinstri hreyfillinn sem stöðvast, því að nothæfi hreyfillinn vinnur með afli sínu gegn beygjunni og leitast við að ýta flugvélinni út úr henni. 

3. Ef hætta þarf við flugtak í flugtaksbruni í hvora áttina sem er, er ævinlega gott að hafa lengri braut framundan til að hemla ef hætta þarf við flugtak í flugtaksbruninu, bæði fyrir hemlunina sjálfa en einnig til að flugmenn fái lengri tíma til að taka sem réttasta ákvörðun.

Fyrrnefnd lenging brautarinnar breytir að vísu engu við lendingu inn eftir né við klifur út eftir, en ofangreindir kostir eru þess virði að endurbæta flugbrautina og lengja hana jafnvel líka í hina áttina. Það er tiltölulega ódýr framkvæmd miðað við þá kosti, sem hún hefur. 

Og ef spurt er, af hverju endilega Ísafjarðarflugvöllur frekar en margir aðrir, þá blasir svarið við þegar horft er völlinn og umhverfi hans: Hann er vægast sagt sérstakur, þessi mikilvægi flugvöllur. 

Þar að auki eru Vestfirðir enn eini landshlutinn sem hefur engan flugvöll, sem nota má í myrkri og er þannig á svipuðu stigi og fyrir hálfri öld. 

Það ætti ekki að vera ofrausn að setja smá brautarviðbót á helsta flugvelli fjórðungsins.

Fyrr eða síðar myndi slík viðbót koma sér vel. 

Og það er alla jafna alltaf kostur að flugbrautir séu sem lengstar. 

Stundum virðist þetta atriði gleymast, eins og þegar eitt sinn var sagt í sambandi við Reykjavíkurflugvöll í einni skýrslunni um hann hér um árið, að stytting brauta yki öryggi vallarins. 

Hafi það verið svo, hefur það verið í fyrsta skipti í flugsögunni, sem slíkt hefði gerst.


mbl.is Flogið til Ísafjarðar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband