Afdrifarík afsökunarbeiðni Gorbatjofs.

Eystrasaltslöndin þrjú, sem hlutu sjálfstæði eftir að Fyrri heimsstyrjöldinni lauk, urðu að gjalda það dýru verði þegar Stalín og Hitler gerðu griðasamning 23. ágúst 1939.

Með samningnum fylgdi leynilegt samkomulag um skiptingu Austur-Evrópu milli Þýskalands og Sovétríkjanna, þar sem Eystrasaltslöndin og Finnland yrðu á áhrifasvæði Sovétríkjanna.

Stalín notaði tækifærið til að gera Eystrasaltslöndunum úrslita kosti og hernema þau í kjölfarið, þegar Þjóðverjar voru uppteknir við það að taka Noreg, Niðurlöndin og Frakkland í júní 1940. 

Veturinn áður höfðu Finnar hafnað hörðum úrslitakostum Rússa og orðið að heyja grimmilegt stríð sem endaði með ósigri og dýrkeyptum friðarsamningum. 

Í persónulegu leynilegu samkomulagi Stalíns og Churchills í stríðslok 1945 lentu Eystrasaltslöndin á áhrifasvæði Sovétríkjanna og voru áfram innlimuð í þau.

Eftir að Sovétríkin höfðu borið hitann og þungann af Evrópustríðinu með gríðarlegum mannfórnum, var einfaldlega ekki hægt að minnka Sovétríkin, hvað þá að neita þeim um áhrifasvæði sem þau litu á sem lykil að öryggi sínu eftir allt, sem á undan var gengið. 

Finnar urðu að sæta erfiðum kostum til þess að komast hjá því að lenda undir beinu sovésku valdi og geta haldið takmörkuðu sjálfstæði sem hlutlaus þjóð við ástand, sem fékk nafnið "Finnlandisering" það er, að þurfa að fá samþykki í Moskvu fyrir því hve langt þeir mætti ganga í því að vera í samstarfi Norðurlandaþjóðanna. 

Hlutleysi Svíþjóðar réði úrslitum um þessi málalok. 

Sovétmenn tryggðu sér lykilaðstöðu við Eystrasalts með því að Austur-Prússland var að mestu hreinsað af Þjóðverjum og Rússar fluttu þar inn sitt fólk í staðinn, og þetta fyrrum hjarta hins prússneska og þýska veldis var gert að rússnesku landi með aðgangi að Eystrasalti á hernaðarlega mikilvægum stað.

Þegar umrót var í hinum fyrrum leppríkjum Sovétríkjanna í kjölfarið af falli Berlínarmúrsins 1989 viðurkenndi Michael Gorbatsjof opinberlega að hernám Eystrasaltsríkjanna 1940 í skjóli griðasamnings Stalíns og Hitlers hefði falið í sér ofbeldi sem biðjast þyrfti afsökunar á.

Gorbatsjof fékk skömm í hattinn hjá harðlínumönnum heima fyrir fyrir að gefa höggstað á sér, en hann hafði greinilega talið að þessi afsökunarbeiðni myndi duga til þess að verða grundvöllur að því að ríkin þrjú gætu unað við það að vera áfram innan sovéskra vébanda en fá kannski meiri stjórn sinna mála en verið hafði.

Gorbatsjof vanmat gróflega sjálfstæðisvitund Eystrasaltsríkjanna, sem stórefldist við þetta, en ákvað að láta á það reyna að senda herinn á vettvang til að hræða þau til hlýðni.

Þegar á hólminn kom, óaði honum hins vegar við því óhjákvæmilega blóðbaði sem frekari valdbeiting myndi valda.

Erfitt er að segja, hve miklu máli það skipti á ögurstundu, að utanríkisráðherra Íslands var staddur á staðnum, en það var að minnsta kosti óþægileg tilhugsun að þurfa að handtaka hann eða drepa ásamt sjálfstæðishetjunum.

Hvað, sem um það má segja, kom fyrrnefnd afsökunarbeiðni Gorbatsjofs honum í koll eins og harðlínumenn höfðu óttast, og missir Eystrasaltslandanna úr Sovétríkjunum hefur vafalaust hert andstæðinga Gorbatsjofs í þeirri ætlan að steypa honum af stóli.     


mbl.is Fann fæðingarskírteini Litháens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennt barn forðast eldinn.

Þegar brennt barn forðast eldinn þar það ekki að þýða að það muni aldrei á ævinni kveikja eld. 

Brunasárin munu hins vegar hafa í för með sér meiri varkárni og hvata fyrir það til að gæta fyllsta öryggis framvegis, eftir að hafa brennt sig illilega.

Það lýsir einstökum barnaskap hvernig íslenskar eftirlitsstofnanir, stjórnmálamenn, fjölmiðlar og almenningur létu bláeyga hrifningu á sem eftirlitslausustu og frjálsustu fjármálakerfi.

Í framhaldi af sölu ríkisbankanna fór í hönd mesti dans einnar þjóðar í kringum gullkálf, sem um getur, þar sem sem takmarkalausast frelsi var lofað og prísað og hreinir fjármálaglæfrar og blekkingar kallað "tær snilld" og "andlegir yfirburðir útrásarvíkinga" í stíl landafundanna miklu fyrir þúsund árum.

Varla var blekið þornað af falspappírunum en Framsóknarflokkurinn gerði 95% lán bæði hjá ríki og hinum nýju bönkum að loforði, sem færði þeim svo mikinn sigur í kosningunum 2003, að Davíð Oddsson gat ekki myndað stjóron nema gefa forsætisráðherraembættið eftir til formanns Framsóknarflokksins rúmu ári síðar. 

Árið 2008 hlaut síðan þorri þjóðarinnar brunasár sem hlutust af blöndu af græðgi og barnaskap, Þess vegna verða hin brenndu börn að forðast að lenda aftur í því sama, þótt núverandi forsætisráðherra geti alls ekki skilið það og fallist á það vafningalaust. 

Það lát í loftinu og var í umræðunni að sala bankanna 2002-2003 færi eftir gamalkunnum farvegum helmingaskiptastjórnanna, sem blómstruðu fyrst um miðja síðustu öld og fengu síðan endurnýjun í hverri nýrri helmingaskiptastjórn, 1974-78, 1983-87, og loks til hins ítrasta frá árinu 1995 fram í Hrun.

Skilyrðin fyrir kaupunum á Landsbankanum virtust beinlínis löguð að því að Björgólfsfeðgarnir yrðu fyrir valinu. 

Þetta var augljóslega einkavinavæðing þar sem Sjallar fengu Landsbankann og Framarar Búnaðarbankann.  

Og stefndu rakleiðis í kollsiglingu. 

P. S. En í fréttum í kvöld segir þáverandi viðskiptaráðherra að Ólafur Ólafsson sé ekki og hafi ekki verið félagi í Framsóknarflokknum og að skýrsla dagsins sýni einmitt að Framsóknarflokkurinn og ráðamenn hans hafi hvergi komið nálægt þessu máli! 

Gerði þessi ráðherra þó í því að lítilsvirða Vilhjálm Bjarnason sem mest þegar hann færði opinberlega fram óþægilega sýn á málið, og Steingrímur Ari Arason sagði sig úr starfi í nefnd um söluna með þeim orðum að hann hefði aldrei á ævinni orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum. 


mbl.is Of neikvæð gagnvart einkaframtaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efst á lístanum í átta ár.

Ekki hef ég tölu á því hve oft bæði útlendingar og landar hafa spurt mig að því, hvaða eldfjall sé líklegast til að gjósa næst. Hekla

Þessar spurningar dundu yfir mörgum sinnum á dag bæði 2010 og 2011 þegar Eyjafjallajökull og Grímsvötn gusu. 

Og svarið var alltaf það sama: "Hekla."

"Af hverju?" var spurt.

"Af því að hún er eins og hlaupari sem hefur fljótasta viðbragðstímann, aðeins klukkustund. Hún getur hvenær sem er gosið eftir klukkustund frá því að minnst er á hana."

Ég man ennþá eftir Heklugosinu 1947 þótt ég væri aðeins sex ára gamall og lægi rúmfastur í alvarlegum veikindum í tvær vikur og færi ekki að fullu á fætur og á stjá úti við fyrr en eftir mánuð.

Ég hafði skyndilega orðið mjög veikur í heimsókn hjá ömmu minni Ólöfu og varð að liggja alveg fyrir. Til þess að stytta mér stundir færði amma mér útvarpstækið sitt inn að rúmi og þessa veikindadaga drakk ég í mig allt sem þáverandi dagskrá gat fært mér.

Amma reyndi hvað hún gat að svara ótal spurningum mínum, meðal annars um eldgos á borð við Kötlugosið 1918, sem hún upplifði sterkt á æskustöðvum sínum austur í Skaftafellssýslu.

Hún sýndi mér myndir Þjóðviljans, en öll blöðin voru uppfull af þeim.

Af því að Hekla hefur verið svona líkleg til að gjósa síðan 2010 var ekki amalegt að dvelja og gista á túninu í Neðri-Garðsauka sumrin 2010, 2011 og 2012 með bæði bíl og flugvél tilbúin tafarlaust og með sjónlínu til fjallsins.  


mbl.is Aukinn þrýstingur í Heklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er 160 metra hæð "hálendi"?

Þegar fjallað er um umdeild og viðkvæm mál, er mikilvægt að vanda til birtingar á þeim gögnum, sem varða málið. 

Dæmi um það eru tvö vegarstæði þar sem tekist er á um mismunandi hagsmuni og sjónarmið, annars vegar um Mýrdal og hins vegar um Gufudalssveit. 

Vegagerðin færir þar þung rök fyrir því að velja í báðum tilfellum þær leiðir, sem valda mestum umhverfisáhrifum, og er ekkert við það að athuga ef þessi stofnun, sem á að þjóna hagsmunum allra landsmanna, birtir vönduð gögn í hvívetna og gefur upp mismunandi niðurstöður. 

En á því eru misbrestir í þessum tveimur tilfellum. 

Annar þeirra vegarkafla sem Vegagerðin vill leggja af er af hennar hálfu og þar af leiðandi allra fjölmiðlanna ævinlega er kallaður "Reynisfjall".

Hinn kaflinn liggur um Ódrjúgsháls, og sagt að hann liggi ekki um láglendi, og þar af leiðandi um hálendi og er ávallt er skilgreindur sem hálendisvegur á þann lúmska hátt að skilgreina hann sem "fjallveg." 

Samkvæmt mínum barnaskólalærdómi telst land, sem liggur neðan 200 metra hæðar frá sjó láglendi. 

Vegagerðin telur hins vegar "Reynisfjall", Ódrjúgsháls og Selvogsheiði vera "fjallvegi." 

Heitið "Reynisfjall" er hér sett inn í gæsalappir, því að leiðin sem Vegagerðin velur þetta nafn, liggur um Skeifnadal meðfram hluta Reynisfjalls en alls ekki um fjallið sjálft. 

Þessi "fjallvegur" með fjallsnafninu liggur upp í 116 metra hæð, en í Reykjavík eru hverfi sem ná upp í meiri hæð án þess að talað sé um að þessi hverfi sé hálendisbyggð.

En að kalla þennan vegarkafla "fjallveg" og meira að segja setja á hann fjallsnafn geta ekki kallast vönduð vinnubrögð og óhlutdrægni. 

Selvogsheiði er skráð sem 160 metra hár fjallvegur, þótt fæstir vegfarendur um þann veg verði varir við að vegurinn sé neitt í líkingu við það að fá þessa skilgreiningu, hafa ekki hugmynd um það að þeir séu að aka yfir heiði og því síður að vegurinn sé fjallvegur.

Í allri umfjöllun í fjölmiðlum um Ódrjúgsháls er byggt á því mati Vegagerðarinnar að hálsinn sé fjallvegur, þótt hann liggi aðeins 170 metra yfir sjávarmáli þar sem hann er hæstur, og alltaf eru birtar myndir í fjölmiðlum af hinum löngu úrelta vegarkafla með 16 gráðu brattri brekku og tveimur kröppum beygjum.

Þó hefur Vegagerðin sjálf gert athugun á nýju nútímalegu vegarstæði yfir hálsinn þar sem ekki finnst meira fyrir beygjum, brattan og hæðarmun en í Hvalfjarðgargöngum, þar sem hæðarmunurinn er 180 metrar.

Til samanburðar má nefna að leiðin um Svínadal fyrir norðan Búðardal liggur upp í 220 metra hæð og í fréttum heyrist aldrei neitt misjafnt um þennan "fjallveg" miðað við til dæmis Klettsháls sem er alvöru fjallvegur, nær 336 metra hæð og verður áfram helsti farartálmi á leiðinni við norðanverðan Breiðafjörð.

Og af því að hér er verið er að fjalla um hluta máls með tengingu í frétt mbl.is þar sem birt er mynd, sem á að sýna Teigsskóg og ætti að vera sem best heimild um hann, hefði verið skárra að birta enga mynd en þá fráleitu mynd, sem birt er. 

 

   


mbl.is Vill áfram fara um Teigsskóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband