Þróunin: Hindranir, höft, múrar, togstreita, ýfingar.

Alþjóðavæðingin svonefnda hefur smám saman lyft hundruðum milljóna manna, sem áður voru bláfátækir öreigar í þróunarlöndunum, upp fyrir fátækramörk.  Hún hefur líka lækkað verð á margvíslegum varningi, sem framleiddur hefur verið í þessum löndum og seldur um allan heim. 

En hún hefur líka valdið breyttum atvinnuháttum hjá því verksmiðjufólki á Vesturlöndum, sem áður vann við framleiðsluna og hefur valdið atvinnuleysi, af því að ekki fundust úrræði til að bregðast við hinni breyttu stöðu og skapa þessu fólki aðstæður til að hasla sér völl í nýju umhverfi. 

Alþjóðavæðingin hefur líka gert moldríkasta fólk veraldar auðugra og valdameira en nokkru sinni fyrr.

Nú hafa mislukkuð hernaðarleg inngrip vestrænna þjóða inn í líf þjóða í Arabalöndunum og ókostir alþjóðavæðingarinnar magnað upp ástand, sem líkist að sumu leyti upphafi svipaðra hindrana, hafta og togstreitu í byrjun kreppunnar miklu um 1930.  

En það eina sem virðist ævinlega halda áfram er auðræðið, sívaxandi völd örlítils hluta mannkyns. 

Sumir virðast mjög upprifnir yfir þessu og skrifa allt að því fjálglega um það, á hve merkilegum tímum við lifum á, tímum vaxandi ýfinga á milli trúarbragða og þjóða með vaxandi hindrunum, höftum, múrum og togstreitu. 

Svipað gerðist í kringum 1930 en vonandi verður framvindan ekki svipuð næsta áratuginn núna, og hún varð þá.  


mbl.is Bandaríkjamenn þurfi vegabréfsáritanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að miklu leyti sama atvinnusvæðið.

Ferðatíminn á milli ráðhúsa Akureyrar og Reykjavíkur er um 40 mínútur. Stundum tekur álíka langan tíma á álagstímum að ferðast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. 

Meðan þetta er svona hefur þetta gríðarlega mikla þýðingu fyrir Akureyri, því að Akureyri og Reykjavík eru að þessu leyti á sama atvinnusvæðinu. 

Til dæmis er það ekki lítils virði fyrir fyrirtæki og stofnanir að geta ráðið til sín sem hæfasta stjórnendur. Þrátt fyrir samskipta- og fjarskiptabyltingjuna hafa mannleg samskipti, fundir, ráðstefnur og erindrekstur mikið að segja. Forstjóri á Akureyri getur þess vegna, ef svo ber undir, hafið vinnu sína að morgni dags, hoppað upp í flugvél fyrir hádegi, rekið erindi í Reykjavík og komið norður aftur áður en vinnutími er búinn. 

Það er líka mikilvægt fyrir Reykjavík að atvinnusvæði höfuðborgarinnar sé sem fjölmennast. 

"Höfuðborgarsvæðið" sem atvinnusvæðik, nær þá upp í Borgarnes, austur að Þjórsá og suður um Suðurnes. 


mbl.is Þakkar Akureyringum góða veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sama og í Watergate og Lewinskygate: Logið eða ekki logið.

Watergate málið snerist ekki aðeins um það hvort Nixon forseti hefði vitað um innbrot á sínum eigin vegum í stöðvar Demókrata, heldur ekki síður um það hvort hann hefði logið blákalt þess efnis, að hann hefði ekkert um þetta innbrot vitað.

Þegar sótt var að Bill Clinton vegna Lewinskymálsins, snerist það einnig um það hvort Clinton hefði logið um eðli þess máls þegar það komst upp.

Clinton slapp naumlega út á einskæran og langsóttan orðhengilshátt varðandi merkingu orðanna, sem hann sagði, og var það afar hæpin undankoma.

Nýjasta málið hjá Jeff Session er merkilega líkt máli Clintons hvað það snertir að hann ber fyrir sig svipaðri vörn og Clinton varðandi það hvernig túlka beri orð hans í yfirheyrslu þingnefndarinnar varðandi eðli samskipta hans við rússneska embættismenn.

Rétt eins og hjá Clinton eru útskýringar hans langsóttar og hæpnar.

En málið er líka líkt Watergate-málinu hvað varðar afskipti af kosningabaráttu andstæðinganna og varðandi vitneskju forsetans.

Það skín í gegn að Trump gerir sér fulla grein fyrir þessu og þrætir því blákalt fyrir það að hafa vitað nokkuð um mál Sessions né annarra af mönnum Trumps, sem voru í makki með Rússum.

Hann gæti líka snúið sig út úr því ef hann yrði spurður, hvað hann hefði meint í kosningabaráttunni þegar hann sagði að það væri bara ágætt ef Rússar hökkuðu sig inn í léleg tölvusamskipti Demókrata.

Hann gæti bara sagt, að þetta hefði hann sagt í hálfkæringi.  


mbl.is Ber fullt traust til Sessions
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri Bandaríkjaforseta - takk.

Það er umdeilanlegt og erfitt val að útnefna mann, sem er verður þess að fá Friðarverðlaun Nóbels. Barack Obama var að vísu ólíkt hæfileikaríkari og merkari sem forseti Bandaríkjanna en George W. Bush, sem á undan honum var. 

En þrátt fyrir góðan vilja, heillandi framkomu og vilja til góðra verka, náði Obama ekki þeim árangri, sem hafði verið vænst, nema kannski þeim undir lok valdatíðar sinnar að geta loksins máð af Bandaríkjunum, ríkasta þjóðfélagi heims, þá smán að 20 milljónir landsmanna væru án trygginga og að upp undir fjórðungur þjóðarinnar lifði við fátæktarmörk. 

Obama varð að glíma við harðskeytta andstöðu og styrka stöðu Republikana í þinginu. 

Í utanríkismálum erfði hann mistök forvera síns varðandi innrásina í Írak, en misreiknaðí síðan herfilega stöðuna í Líbíu og Sýrlandi, þegar "arabiska vorið" leit dagsins ljós. 

Það var ein ömurlegasta sjón í sjónvarpi hin síðari ár að sjá utanríkisráðherra Bandaríkjanna horfa á og gleðjast og hlæja yfir hryllilegu morði á Gaddafi og meðferð á líki hans. 

Túnis varð eina landið, þar sem Arabiska vorið kom að einhverju leyti, en afleiðingarnar af óförunum í Líbíu og Sýrlandi skekja alla Evrópu á áður óþekktan hátt. 

Það var því afar misráðið eða að minnsta kosti hæpið, að veita Obama Friðarverðlaun Nóbels. 

Að sjá nöfn núverandi forseta Bandaríkjanna og Rússlands nefnd sem tilnefnda menn til þessara verðlauna er ekki einu sinni brandari, það er klikkun. 

Obama lét sér vel líka að NATO og ESB sæktu af ákafa að því að sækja að vesturlandamærum Hvíta-Rússlands og Rússlands, og Pútín lýsti því yfir að ef hann fengi ekki að taka Krím og austasta hluta Úkraínu, væri hann tilbúinn að beita kjarnorkuvopnum. 

Forustumenn þjóða, sem reka enn þá utanríkisstefnu að vera tilbúnar til þess að eyða öllu lífi á jörðinni með hinu fáránlega kjarnorkuvopnabúri sínu, eru ógn við framtíð mannkyns. 

Ekki fleiri Bandaríkjaforseta sem handhafa Friðarverðluna Nóbels - takk, allra síst þennan, sem nú situr og lætur sér vel líka að undirmenn sínir segist vera að undirbúa tvær stórstyrjaldir, aðra við Kínverja og hina í Miðausturlöndum.  


mbl.is Samtals 318 tilnefningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband