Dagurinn orðinn lengri en nóttin.

Þótt vorjafndægur verði ekki fyrr en 21. mars er dagurinn í raun þegar orðinn lengri en nóttin, ef alþjóðleg skilgreining á degi og nótt er notuð. Móskarðshnjúkar 5.3.17

Og í gær voru árleg tímamót í því efni, og af því tilefni eru settar hér inn þrjár myndir, teknar á hinum bjarta sunnudegi, sem nú er að kveldi komin. 

Á einni er horft til Móskarðshnjúka, annarri yfir Kollafjörð til Esjunnar, og sú þriðja af speglun góða veðursins í gluggum blokkarinnar, sem ég bý í. 

Sú skilgreining, sem notuð er til dæmis í flugi, miðar við það hvort sólin sé meira eða minna en 6 gráður undir sjóndeildarhringnum. Kollafjörður 5.3.17 (2)

Í fyrradag, 3ja mars, komst sólin upp fyrir 6 gráðurnar klukkan 7:43 að morgni, og var sigin niður fyrir 6 gráðurnar klukkan 19:41. Nóttin var sem sagt tveimur mínútum lengri en dagurinn. 

En í gær, 4. mars, komst sóls sólin klukkan 7:40 upp fyrir 6 gráðurnar, en seig niður fyrir 6 gráðurnar klukkan 19:44. 

Dagurinn var sem sagt orðinn 4 mínútum lengri en nóttin og í dag er dagurinn 9 mínútum lengri en nóttin. Fróðengi 5 5.3.17

Það hefur verið fallegt og bjart vetrarveður undanfarna daga, en í slíku veðri nýtur birta sólarinnar sín vel, þótt hún sé enn 6 gráður eða minna undir sjóndeildarhringnum. 

Það gerir neðstu myndina svolítið skemmtilega að fjallið, sem sést speglast í efrir gluggaröðinni, er dálítið torkennilegt. 

En það er engin furða, því að þetta speglast á gluggunum og Kerhólakamburinn snýr því öfugt, eða spegilvent, vinstri er hægri og hægri er vinstri.


mbl.is Hlýnandi veður í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær fólkið hland fyrir hjartað?

"Fréttabörnin", sem Eiður heitinn Guðnason kallaði svo, virðast ekki vita, að ákveðinn vökvi heitir og hefur lengi heitið hland á Íslandi. Einnig þvag. 

Orðið piss er enska og að sjálfsögðu miklu fínna orð yfir hlandið eða keytuna, og þetta pempíulega orð virðist vera að ryðja sér til rúms, og það svo mjög, að í nýrri íslensk-enskri orðabók er það nefnt sem íslenskt orð. 

En hvað er svona slæmt við orðið hland? Eða þvag?

Fær fólk virkilega hland fyrir hjartað ef það sést eða heyrist?

Er alveg vonlaust að hægt sé að bægja þessu enska orði frá og láta það fá hægt andlát? Eða þvaglát, ef ekki vill betur?


mbl.is Mikið magn af pissi í sundlaugum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegur vegarkafli og aðhlátursefni.

Hringvegurinn, Þjóðvegur númer eitt, í Berufirði er hreinn brandari, en afar súr brandari. 

Í fyrsta lagi liggur Þjóðvegur númer eitt ekki stystu leiðina, yfir Öxi, og heldur ekki þá leið, þar sem hann hefur verið malbikaður alla leið um sunnanverða Austfirði, heldur yfir Breiðdaldsheiði, þar sem talsverður spotti hefur ekki verið malbikaður. 

Ef ekin er svonefnd Fjarðaleið, 10 kílómetrum lengri, en mun auðeknari en Þjóðvegur númer eitt, er sú leið 1341 kílómetri. 

En af þessum kílómetrum, eru enn nokkrir kílómetrar í Berufirði, sem ekki hafa, þegar komið er vel fram á 21. öldina, verið malbikaðir, innst í Berufirði. 

Það er alveg sama um hverja af fyrrnefndum þremur leiðum er ekið, - Öxi, sem er 61 kílómetrum styttri en Þjóðvegur 1, Þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði, eða Fjarðaleið, - allir verða að skrönglast þessa ömurlegu kílómetra í Berufirði. 

Þjóðvegur númer eitt, malarvegur að hluta til, er náttúrulega grátbrosleg þjóðarskömm, og er búin að vera það lengi. Fyrir nú utan það rugl að vegurinn yfir Breiðdalsheiði skuli vera Þjóðvegur númer eitt. 


mbl.is Yfir 60 bílar lokuðu veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvergi óhultur.

Eftir að hafa fært ferðir sínar á bílum að mestu yfir á tvenn hjól áttar maður sig á því hve berskjaldaður gangandi eða hjólandi maður er í umferðinni og einnig því, að hann er hvergi óhultur fyrir óútreiknanlegri hegðun vegfaranda. 

Í pistli fyrir nokkrum dögum greindi ég frá líkamsárás svipaðri þeirri, sem nú er greint frá á mbl.is, þegar maður reif upp upp hurð á bíl, sem stóð við umferðarljós og hreinsaði tennurnar úr manni, sem þar sat, og beinbraut hann í andliti. 

Sömuleiðis frá atviki, sem ég varð fyrir fyrir um tíu árum, þegar gangandi maður kýldi með hnefanum í gegnum framrúðu á bíl mínum, öskrandi: "Ég skal drepa þig, helvítið þitt!" 

Óhuganlegt fyrirbrigði í okkar friðsælu borg.


mbl.is Réðst á konu í bifreið hennar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegar og alvarlegar ásakanir ári eftir meint brot sjónvarpsmanna.

Ári eftir að frægt viðtal var tekið við þáverandi forsætisráðherra Íslands í Ráðherrabústaðnum, setur hann fram þá fullyrðingu, sem nú er farið að vitna í í netmiðlum á þann hátt, að viðtalið hafi "verið falsað" með því að klippa það til þannig að svör hans við öðrum spurningum en um Wintris, hafi verið færð til. 

Þetta er aldeilis mögnuð ásökun og merkilegt að það skyldi taka heilt ár að uppgötva meinta fölsun. Nú er eins gott að skoða viðtalið aftur og sjá, hvernig í ósköpunum er hægt að finna þetta út.

Og þetta er hægt að finna á Youtube og eftir að hafa skoðað það er manni ómögulegt að skilja hvernig hægt er að finna það út að hljóðrás viðtalsins, sem er aðal heimild þess með tal í mynd í "synci" (mynd og hljóð fara saman), hafi verið klippt í búta og bútarnir færðir til.

Það að myndskeið frá mismunandi sjónarhornum fleiri myndavéla en einnar séu sett saman til þess að fá sem besta myndvinnslu í viðtal er algengt að gert sé.

En best væri ef hver og einn skoðaði viðtalið sjálfur eins og það birtist og athugaði vel hvernig orðræðan þróast á þann veg, sem er algerlega rökrétt, en hins vegar ómögulegt að sjá og heyra, hvernig önnur orðræða, sem raðað væri á annan hátt úr klipptum bútum, gæti gengið upp.

Einkum eru líkamleg viðbrögð SDG athyglisverð og í samræmi við þau vandræði, sem hann kom sér sjálfur í.  


mbl.is Hefði gert ýmislegt öðruvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband