"Það er öðruvísi lykt af þeim."

"Þú veist ekki hvað þú ert að tala um. Við sem búum hérna vitum það. Það er öðruvísi lykt af þeim. Þetta eru ónytjungar og skítapakk upp til hópa." 

Það kom mér í opna skjöldu að heyra svona orðræðu þegar ég fór í fyrstu ferðir mínar til Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum og hitti hundruð Íslendinga, sem bjuggu vestra, í tengslum við þær samkomur sem ég skemmti á. 

Það kom mér á óvart hve margir Íslendinganna voru heitir fylgjendur aðskilnaðarsinnanna í Suðurríkjunum og fyrirlitu blökkumenn innilega. 

Kynþáttur Martins Luther King, Louis Armstrong, Sidney Poiter, Ray Charles, Jesse Owens, Ninu Simone, Muhammad Ali og Barack Obama var fyrirlitlegur hópur undirmálsfólks sem var varla komið niður úr trjám Afríku og ekki í húsum hæft í veitingahúsum og hótelum. 

Svipuð ummæli viðhafði Donald Trump um Mexíkóa í kosningabaráttu sinni í haust og svipuð ummæli um ákveðna hópa í íslensku þjóðlífi má meira að segja sjá í einstökum bloggpistlum hér heima í dag í upphafi páskahátíðarinnar. 

Þannig lýsir einn helsti pistlahöfundur landsins fylgjendum Pírata og fleiri vinstri flokka sem ónytjungum, "misheppnaða fólkið, sem er of bjagað til að stunda hversdagslega vinnu eða eiga um það bil normalt fjölskyldulíf".

Lokaorðin og síðustu orðin í lýsingunni á þessu fólki:  "Heift án hugsunar, öfgar án mannasiða." 

Mikael Torfason er kallaður "sjálfskipaður fulltrúi fátæks fólks" en orðið "sjálfskipaður" á að sýna hve lítilmótlegur Mikael sé.  

Tryggvi Emilsson skrifaði einu sinni bókina "Fátækt fólk" og gerðist með því "sjálfskipaður". 

Auðvitað eru aðeins menn, útvaldir af stjórnvöldum, sem á að leyfast að nýta sér málfrelsið. 

Fólkið sem kýs ekki stjórnarflokkana og Framsókn,  heldur óæskilegt pakk, er meira en 40 prósent þjóðarinnar og það eina sem vantar í lýsinguna svo að æðra fólk geti varað sig á þessu hyski og undirmálsfólki er, að hægt sé að þekkja það á húðlitnum og að "það sé öðruvísi lykt af þeim."

 


mbl.is „Leggstu á jörðina núna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hentistefna, stundum frá degi til dags.

Það er mannlegt að skjátlast í skoðunum og virðingarvert ef fólk er ófeimið við að skipta um skoðun þegar aðstæður eða upplýsingar breytast. 

En hinar öru og stundum allt að því daglegu sinnaskipti Bandaríkjaforseta geta varla átt sér aðrar skýringar en þær, að maðurinn sé alveg einstaklega duttlungafullur tækifærissinni og skrumari, - kom sér upp stefnu í kosningabaráttunni síðastliðið haust með loforðum um sparnað vegna hernaðarumsvifa, sem byggðust á kolrangri utanríkisstefnu.  

En nú leggur hann af hverja grundvallar fullyrðingu sína af annarri frá því í kosningabaráttunni síðastliðið haust eins auðveldlega eins og að skipta um sokka. 

Ein fullyrðingin varðandi rangar skoðanakannanir var sú, að úrslitin í forsetakosningunum hafi verið gerólík því sem komið hefði fram í könnnunum. 

En meginatriði skoðanakannananna var þó rétt, sem sé það að Trump myndi ekki fá meirihluta greiddra atkvæða. Þar munaði ríflega tveimur milljónum. 

Trump gætti þess hins vegar að spila á óánægju fólks í ríkjunum í "Ryðbeltinu" svonefnda, þar sem bylting í framleiðslutækni og viðskiptaumhverfi bæði innan lands og utan hefur gert fjölda fólks atvinnulaust. 

Í stað þess að setja fram stefnu sem miðar að því að örva og styðja fólk til endurmenntunar í samræmi við breytta þjóðfélagshætti og nýta nýja tækni til framfara, hamraði Trump á nauðsyn þess að snúa hjóli tímans við og gera allt sem líkast því þegar hann var ungur og "America was great" með margfalt meiri mengun og rányrkju en nú er. 

Slíkt viðhorf felur í sér stórfellda afneitun en getur virkað vel þegar verið er að virkja óánægju fjölda fólks með ríkjandi ástand.

Trump safnaði saman óánægjuatriðum sem beindust að Obamastjórninni og Hillary Clinton.

Hann gagnrýndi harðlega stefnuna gagnvart NATO, Rússum, Pútín og Assad Sýrlandsforseta og boðaði fráhvarf frá því að eyða fé í það að halda úti her eða hernaðaraðgerðum í þeim mæli sem gert hefði verið.

Nú er hann búinn að éta þetta jafn auðveldlega ofan í sig og að drekka vatn.  


mbl.is Telur NATO ekki lengur úrelt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Apríl er kaldur mánuður.

Meðalhiti í apríl í Reykjavík er 2,9 stig og 1,6 á Akureyri. Meðalhitinn í Reykjavík í apríl er álíka hár og í byrjun nóvember. 

Samt er sólargangur svipaður í miðjum april og hann er síðusut vikuna í ágúst. 

Á leið frá Þingvöllum til Reykjavíkur í gærkvöldi var ekið um snævi þaktan veg alveg niður í Mosfellsdal. 

Apríl er kaldur mánuður en yndislegur til iðkunar íþrótta, einkum vetraríþrótta, vegna birtu sinnar. 

Hann er mánuður sumardagsins fyrsta og er, eins og páskahátíðin, tákn bjartsýni, vaknandi lífs og vonar. 

Hann er kaldur en hann er góður. 


mbl.is Snjóar norðanlands og kalt í norðanáttinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband