Er að styttast í sjálfvirka heimsækjandann?

"Vélar unnu störfin og enginn gerði neitt." Textinn með þessari forspá um framtíðina var gerður fyrir nærri hálfri öld og hófst á orðunum:  "Mig dreymdi´að ég væri uppi árið 2012."

Þessi framtíðarsýn virðist stundum vera að nálgast þegar fréttist af nýjum og nýjum sjálfvirkum tækjum og tólum eins og sjálfkeyrandi bílum. 

Eitt fyndnasta og beittasta atriðið í þáttunum Heilsubælinu á upphafsárum Stöðvar 2 var þegar Laddi brá sér í gerfi róbóta, sjálfvirks vélmennis, sem tók að sér að heimsækja sjúklinga á spítalanum. 

Það var ekki aðeins snilldarleikur Ladda sem gerði þetta atriði að heimsklassaatriði, heldur ekki síður ádeilan á það þjóðfélag, þar sem hinir kristnu í orði eru búnir að gleyma orðum Krists: "Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín." 

Frétt af vélmenni sem afgreiðir mat vekur upp spurningu um það hvort það fari að styttast í sjálfvirka heimsækjandann. 

Nú sýna tölur að minni frjósemi hefur ekki verið hjá Íslendingum í nær 170 ár. 

Eitt af þeim ráðum, sem hugsanlega mætti grípa til, myndi verða óborganlegt hjá Ladda: Sjálfvirki elskhuginn. 


mbl.is Vélmenni afhendir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjugarðar eru mikilvæg græn svæði. Margnota kistur?

Kirkjugarðar taka að sönnu mikið rými og á þessari bloggsíðu hafa áður verið reifaðar hugmyndir um breytta tilhögun við greftrun, sem fæli að vísu ekki í sér brennslu, heldur umhverfisvænni notkun á líkkistum og minni grafir. 

Í stuttu máli felst hugmyndin í því að vefja líkið inn í vistvænan poka og nota margnota kistur, sem væru með opnanlegum botni á hjörum, þannig að eftir að allir væru farnir frá gröfunni, kæmu starfsmenn kirkjugarðsins, losuðu botninn, sem sérstök taug lægi í, hífðu kistuna upp og mokuðu mold ofan á likpokann. 

Með þessu væri komist sem næst moldunartextanum "af jörðu/moldu ertu kominn..." og sparaður trjáviður. 

Nýtt kirkjugarðsstæði í hlíð Úlfarsfells er ágæt hugmynd hvað varðar það, að ekki er heppilegt við íslenskar aðstæður að hafa íbúðabyggðir í miklum bratta að vetrarlagi. 

Kirkjugarðar geta verið ágæt svæði til útivistar, svo framarlega sem gengið er um þá af hljóðlátri virðingu. Og frá komandi kirkjugarði í hlíð Úlfarsfells yrði prýðis útsýni. 

Á legsteinunum má stundum ráða í ákveðna sögu, svo sem í áletrununum  "Hér hvíla hjónin...." eða þegar lítið barn hefur fengið legstað hjá fullorðnum. 

 


mbl.is Nýr kirkjugarður mótaður í Úlfarsfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóta frænka reykti eins og skorsteinn og varð 89 ára.

Aldur getur verið afstæður og er oft í genunum, þannig að það er eins og að eins konar lífsklukka sé í gangi. Sú hlýtur að vera raunin með elstu konu heims. 

Þegar ég var krakki hélt ég mikið upp á afasystur mína, Þórunni Guðbrandsdóttur. Á þeim tímum var fólk yfirleitt duglegara að heimsækja ættingja sína en síðar varð.

Tóta frænka varð mér minnisstæð fyrir það hve mér fannst hún flott kona.

Kannski er það bara aldur þessarar minningar sem gerir mynd hennar í huga mér skylda máltækinu um að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla.

Í minni mínu var Tóta eitthvað svo sjálfstæð, enda var hún einhleyp og barnlaus og réði sér sjálf.

Í minningunni sat hún uppábúin í stól þessa sunnudaga sem við heimsóttum hana í Laugarnesinu, virðuleg eins og bresk aðalskona og reykti stóra vindla.

Mér skildist að hún reykti mikið, bæði vindla og sígarettur, en á þessum tíma voru reykingar frekar sjaldgæfar hjá konum. Hún reykti víst einhverja pakka á dag. Samt varð hún rétt tæplega 89 ára gömul og hélt vel reisn sinni og virðuleika.

"Þarna sjáið þið", segja kannski einhverjir, reykingarnar hafa ekkert að segja,

En svarið við því er einfalt:

"Ragnhildur systir hennar reykti ekki og varð 102ja ára!   


mbl.is 117 ára og á 97 ára gamlan son
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband