Maraþonleikir taka kraft úr mönnum og valda spennufalli.

Útsending frá maraþonleik Fram og Hauka stóð í 2 og hálfa klukkstund. Úrslit fengust eftir tvær framlengingar og vítakeppni. 

Kornungt lið, sem skrapað var saman síðasliðið haust eftir missi ellefu leikmanna og þjálfarans í fyrra, gaf allt sem það mögulega gat kreist úr sér til að fella sjálfa Íslandsneistarana og afleiðingarnar og eftirköstin gátu verið fyrirsjáanleg.

Spurningin er hve lengi þetta Öskubuskulið verður að jafna sig og komast aftur á þann stall sem það var í í sigurleiknum sæta.  

Ofþjálfun og ofþreyta eru þekkt fyrirbrigði í íþróttum og einnig það að "toppa" of snemma. 

Það góða við leikinn við Hauka var þó að minnsta kosti það, að þar kom í ljós hvað í þessu liði býr þegar það nær sér á strik. 


mbl.is Enn þá fjórar lotur eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horft framhjá breyttri samsetningu þjóðarinnar.

Nokkur atriði virðast fara framhjá ráðamönnum þjóðarinnar, sem hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahaginn. 

1. Lægsta frjósemi allra tíma. Hefur ekki bein áhrif alveg strax en þýðir, að við siglum inn í ástand þar sem fæðingartíðni innan lands nægir ekki til að viðhalda fólksfjöldanum og því síður til að viðhalda þeim aldurshópum sem er á besta vinnualdri og skila mestu í þjóðarbúið. 

2. Samtímis þessu fjölgar gamla fólkinu jafnt og þétt þannig að allar tölur um framlög í heilbrigðis- og velferðarkerfið, sem eiga að sýna að haldið sé í horfinu, eru gersamlega óraunhæfar. 

3. Breyttir atvinnuhættir vegna tækniframfara og sjálfvirkni kalla á að fólk á miðjum aldri geti endurmenntað sig. En einmitt í því efni hafa seglin verið dregin saman. 

4. Á sama tíma er vaxandi andstaða við að leyfa erlendu fólki landvist, en það eykur enn á fólksfjöldahallann, þegar þeim innfæddu, sem eiga að halda uppi hagkerfinu, fækkar.  

Brandari er að sjá nokkra af þeim nafnlausu, sem vafra um á netinu og bera fram þrjár mótsagnir: 

1. Telja óhjákvæmilegt að viðhalda stanslausum hagvexti.

2. Vilja draga stórlega úr barneignum og aðstoð við barnafólk, og jafnvel refsa fjárhagslega fyrir barneignir.

3. Krefjast þess að stöðvaður verði innflutningur erlends fólks til landsins. 

 


mbl.is Alvarleg aðför að velferðarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Leiðtoginn mikli" friðmæltist við Bandaríkin.

Í öllu uppnáminu, sem stigvaxandi spenna á Kóreuskaga hefur vakið, en virðist nú vonandi vera að hjaðna, hafa Norður-Kóreumenn aldrei minnst á það, að "leiðtoginn mikli", Kim Il-sung, lét á sínum tíma undan kröfum alþjóðasamfélagsins um að hætta við þá áætlun að smíða kjarnorkusprengjur í lok valdatíma síns.

Eftir fund með Jimmy Carter var þetta eitt síðasta verk leiðtogans árið sem hann dó.  

Að vísu var efnahagsástand í Norður-Kóreu eitthvað skárra þá en síðar varð, en engu að síður ákvað hinn mikli leiðtogi að fresta frekara framhaldi uppbyggingar á kjarnorkuherafla. 

Þegar firrtir afkomendur hans tóku við völdum, versnaði efnahagsleg staða landsins sífellt og leiddi af sér hungursneyð. 

Ef til vill var það ótti við að missa völd, sem varð til þess að hinir nýju valdsherrar ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi, finna ytri óvin til að þjappa þjóðinni gegn, og skapa yfirráð yfir fælingarmætti gegn umheiminum. 

Hvað, sem því líður, virðist mesta stríðshættan vera liðin hjá, þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar leiðtoga Norður-Kóreu. 


mbl.is Bandaríkjafloti fer ekki að Kóreuskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af tíu merkilegustu viðburðum í 82 ára sögu Þristsins er íslenskur.

Á þessu ári eru liðin 82 ár síðan Douglas DC-3, "þrísturinn" flaug fyrst. Þessi flugvél hefur svipaðan sess og Ford T, hvað varðar það að gera flugið að almenningseign á svipaðan hátt og "Tin Lizzy" gerði bílinn að almenningseign. 

Um þristinn gildir svipað og um vinsælustu einkaflugvél allra tíma, Cessna Skyhawk, að ef safnað er saman helstu atriðum hvað varðar getu þessara flugvéla, þá skara þær ekki fram úr í neinu einu atriði, fljúga ekki hraðast, klifra ekki hraðast, bera ekki mest, eru ekki sparneytnastar, ekki langfleygastar o. f. frv., en þegar á heildina er litið eru vinsældirnar engin tilviljun. 

Eisenhower nefndi þristinn, jeppann, kjarnorkusprengjuna og T-34 skriðdreka Rússa meðal lykilvopnanna að sigri Bandamanna í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Þristurinn og jeppinnn ollu byltingu í samgöngum á landi og í lofti hér á landi eftir stríðið. 

Þegar Þristurinn var að víkja fyrir nýrri og fullkomnari vélum um 1960, tók tímaritið Readers Digest til tíu merkilegustu viðburðina í sögu Þristsins. 

Nefna má það þegar 72 flóttamenn í Kyrrahafsstríðinu tróður sér inn í Þrist og hann flaug með þá alla. 

Annar Þristur stöðvaðist vegna skorts á olíu, og í neyð sinni tók flugmennirnir kókoshnetur og settu kókosolíuna á hann og flugu honum. 

Annar vængurinn á einum Þristi skemmdist svo mikið, að vélin varð óflughæf. 

En það fannst vængur af Douglas DC-2 og var settur á, og vélin flaug svona á sig komin, og hlaut heitið Douglas DC-2 og hálfur. 

Af þessum tíu atriðum var eitt alíslenskt. Þristur á skíðum frá Keflavíkurflugvelli lenti við flakið af Geysi á Vatnajökli í september 1950, en flugmennirnir gerðu sennilega þau mistök að stöðva vélina strax í stað þess að keyra hana í marga hringi og troða nógu langa og þétta braut.

Í meira en sex þúsund feta hæð var afl hreyflanna mun minna í þunna loftinu en við sjávarmál, svo að skakkaði allt að fimmtungi, auk þess sem hún þurfti meiri flugtakshraða sem þessu nam.  

Vélin komst ekki á loft og var skilin eftir. 

Árið eftir fóru Loftleiðamenn í frækinn leiðangur á jökulinn, fundu vélina, grófu hana upp úr tíu metra djúpu nýsnævi, drógu hana ofan af jöklinum og fundu sandflæmi þar sem hægt var að hefja hana til flugs.

Þeir fengu hana nánast gefins, - einhvern tíma heyrði ég að þeir hefðu borgað einn dollar fyrir hana, - og með því að selja hana björguðu þeir félaginu úr fjárhagslegum hremmingum. 


mbl.is Þristur sækir landið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband