Náttúran hefur ekki notið vafans öldum saman.

Íslendingar undirrituðu Ríó sáttmálann 1992 og þar með þá meginreglu að þegar vafi leiki á um einstök umhverfismál varðandi framkvæmdir og áhrif þeirra á umhverfið, skyldi náttúran njóta vafans og sjálfbær þróun, andstæða rányrkju, vera í hávegum höfð.  

Íslendingar hafa síðan safnað sér efni í langan og ljótan lista í þessum efnum.

Þeir sem stjórna framkvæmdunum fara sínu fram, bæði í smáu og stóru, og treysta á það að eftirá verði ekkert gert.

Af þeim toga er stórbreyting United Silicon á verksmiðjuhúsum sínum í trássi við Skipulagsstofnun og alger þöggun um mögulega skítafýlu af verksmiðjunni.  

Á meðan Kárahnjúkamálið stóð sem hæst voru byggðar tvær smávirkjanir, sem áttu að sæta stærðartakmörkunum, Múlavirkjun á Snæfellsnesi og Fjarðarrárvirkjun við Seyðisfjörð.

Báðar voru hafðar stærri en leyfilegt var, einkum Múlavirkjun, en ekkert var aðhafst.

Að ferðamönnum, sem komu á virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar, meðan á framkvæmdum þar stóð, var staðfastlega haldið fram af þeim sem svöruðu spurningum um hana, að Töfrafoss / Kringilsárfoss, stærsti fossinn á norðurhálendinu, myndi ekki fara á kaf í lónið í hæstu stöðu þess.

Ekkert þýddi að reyna að leiðrétta þetta með því að vitna um mat á umhverfisáhrifum þar sem sagði beinlínis að fossinum myndi drekkt.

Síðan kom auðvitað í ljós að fossinn fer ekki einasta á kaf miðsumars, heldur nær lónið talsvert inn fyrir hann.

Sagt var í matinu á umhverfisáhrifum, að Stuðlagáttin, fossagljúfrið fyrir neðan Töfrafoss, myndi fyllast upp af sandi á einni öld.

Það var strax búið að fyllast upp á tveimur árum.

Verkfræðistofa var fengið til að fullyrða, að flugvélar yrðu notaðar til að dreifa rykbindiefnum til að hefta stórfellt leirfok úr þurru lónstæðinu fyrri hluta sumars, en ekki aðeins leikmönnum er ljóst, að þetta er gersamlega út í hött, heldur staðfesti landgræðslustjóri það í myndinni "Á meðan land byggist" og fékk bágt fyrir.

Nú nýlega kom fram í fréttum hvernig menn stunda það við Mývatn að túlka ekki aðeins allan vafa lífríki vatnsins í óhag, heldur svíkjast beinlínis um lögboðnar aðgerðir og leyna aðgerðarleysinu. 

 

Já, listinn er ekki aðeins langur, heldur orðinn bráðum 300 ára gamall hér á landi, allt frá því að fyrsta fjárpestin af nokkrum var flutt til landsins með hrikalegum afleiðingum, enda allur vafi í þeim efnum hafi þá og allt tíð síðan, líka með minknum og eldislaxinum, hafi alltaf verið og sé enn túlkaður náttúrunni í óhag.     


mbl.is Mat á umhverfisáhrifum hugsanlega endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið líka haldið græðgi?

"Loforðið svikið á örfáum mánuðum" segir einn af þeim landsbyggðarmönnum, sem segja Sjálfstæðisflokkinn hafa lofað því fyrir kosningar, nánast einn flokka, að hrófla ekki við sköttum ferðaþjónustunnar. 

Einn af helstu ferðaþjónustufrömuðum eystra og einnig farmarlega í Sjálfstæðisflokknum, hefur nú sagt sig úr flokknum vegna mikillar óánægju með hækkun virðisaukaskatts. 

Það hefur stundum verið talað um gullgrafaraæði og græðgi í kringum ævintýrarlegan vöxt ferðaþjónustunnar, en síðan má spyrja, hvort ekki sé ákveðin græðgi fólgin í því af hálfu handhafa ríkisvaldsins að ætla sér að ná það miklu fé af ferðaþjónustunni að hægt sé að lækka virðisaukaskattinn yfir línuna.

Hækkun skatta á ferðaþjónustuna væri síður umdeilanleg ef það myndi bitna jafnt á hana alla.

En auðséð er að hún bitnar einstaklega illyrmislega úti á landi og gengur þvert gegn þeirri stefnu, sem talað hefur verið um að fylgja, þ. e. að dreifa ferðafólkinu betur til þess að auðveldara verði að verja náttúruperlurnar, sem verða fyrir mestum átroðningi.  


mbl.is Loforðið svikið á örfáum mánuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðslur gera frekar gagn en málþóf.

Málþóf á Alþingi mætti stytta með því að beita sérstakri grein um hana í þingskaparlögum. En engin ríkisstjórn í mörg ár hefur árætt að beita greininni, greinilega vegna þess að stjórnarflokkarnir hverju sinni hafa óttast, að slíkt myndi síðar veita fordæmi gegn þeim sjálfum, ef þeir lenda síðar í stjórnarandstöðu. 

Í heimildamynd um Jóhönnu Sigurðardóttur kom þetta greinilega í ljós. 

Ákvæði um þjóðaratkvæði hafa það fram yfir málþóf, að með þeim er hægt að finna lögbundinn og vel ígrundaðan farveg fyrir aðhald sjálfrar þjóðarinnar, sem allt vald í lýðræðisríki á að spretta frá.

Hins vegar stefnir það málum oft í ógöngur, ef tilviljanakennt og ítrekað málþóf er notað. 

Sérkennilegt er að sjá þá skoðun að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu illa, ekki síst hjá mönnum, sem sjálfir voru svo hrifnir af þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave. 


mbl.is Níu í fullri vinnu við málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlegur ávinningur, oft mælanlegur í peningum.

Á yfirborðinu sýnist líkamleg þjálfun snúast fyrst og fremst um einhvers konar dýrkun á þeim efnislegu gæðum, sem felast í stæltum líkama. 

Tilsýndar sýnist það jafnvel afar fábreytileg iðja og tímasóun. 

En þetta er ekki svona. 

Langflestir, ef ekki allir, sem iðka hreyfingu og stælingu líkamans kannast við það, hve mikið sá tími gefur það andlega sem eytt er í þetta.

Sjálfur hef ég reynt það á eigin skinni alla tíð, hve margar góðar hugmyndir spretta fram á þeim mínútum og klukkstundum, sem á yfirborðinu sýnast vera eingöngu notaðar til að sprorna gegn hrörnun og viðhalda þreki.

Jafnvel þótt hreyfingin sé af þeim toga, að maður sé tiltölulega léttklæddur, geta þessar hugmyndir, til dæmis um gefandi viðfangsefni og atriði í hugmyndarlega sköpun orðið svo margar, að það sé ágætt að hafa meðferðis lítinn penna og pappírssnifsi til að krota þær niður á, ef þær eru mjög margar.

Eða að þjálfa hugann með því að læra þær utanað jafnóðum.

Og meira að segja má mæla gildi slíkra atriða í beinum peningum. 

Þegar upp í hendurnar á mér barst rafreiðhjól fyrir þremur árum hélt ég fyrst, að vegna þess hve ég átti þá orðið heima langt frá vinnu- og viðskiptatöðum mínum í 7-10 kílómetra fjarlægð myndi tíma"eyðslan" verða of mikil við það að nota hjól í stað bíls.

Útreikningur sýndi að meða"tap" á tíma var 10 mínútur hvora leið.

En síðan áttaði ég mig á því að ef þessar 20 mínútur samtals voru reiknaðar sem lágmarksþörf fyrir daglega líkamlega hreyfingu hvort eð er, var tíma"eyðslan" í raun engin.

Í fyrra fékk ég mér síðan létt vespuvélhjól, sem hefur minnkað ferðakostnað og kolefnisfótsporið um 70 prósent, miðað við bíl.

Og útreikningur sýnir, að þær auka fjórar mínútur sem það tekur að ferðbúast vinnast upp með tímasparnaði á ferðaleiðinni og við það að þurfa aldrei að tefjast við að leita að bílastæði.

Mestur er tímasparnaðurinn á álagstímum þegar umferðarteppur eða tafir myndast, og hjólið hefur nýst á ferðum um allt land, vegna þess að það getur verið á fullum þjóðvegahraða.

Útivistin er hressandi og hreyfingin meiri en þegar setið er undir stýri á bíl.  


mbl.is Ekki nóg að svitna, andinn þarf líka sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband