Annars konar stórslys prédikað í Moggagreinum.

Af og til birtast blaðagreinar í Morgunblaðinu um það stórslys, sem falið sé í grænum aðgerðum í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Í grein með fyrirsögninni "Loftslagsblaðran sprungin" í dag er stórslysinuu lýst og bætt við:  "Það þurfti leiðtoga hins frjálsa heims til að stinga á henni". 

"Nú munu færustu vísindamenn Bandaríkjanna fá fé til að rannska loftslagþróun en áróðurmenn verða án" segir ennfremur

Í þessum orðum liggur að færustu vísindamönnum Bandaríkjamanna hafi hingað til verið meinað að rannska loftslagsþróun.

En einnig liggur það í síðasta hluta setningarinnar að þeir, sem fá aðrar niðurstöður en "leiðtoga hinna frjálsu þjóða" hugnast verði sviptir aðstöðu til rannsókna.

Er þar um að ræða flestar þær vísindastofnanir sem rannsakað hafa þessi mál hingað til.

Friðrik birtir í greininni sínar niðurstöður sem gera þær að verkum að hann á góða möguleika á að fá styrk frá "leiðtoganum" mikla til þess að bæta hag stóriðju, "sem hefur eitt trilljónum bandaríkjsdala til einskis."

Umhverfisaðgerðir vestra síðan 1968 hefur að dómi Friðriks leitt af sér "lélegt bensín." 

Þetta er merk niðurstaða og vert að verðlauna hana með styrkveitingu. 

Í orðunum liggur að færi muni gefast á að gera "America great again", með því að hækka octane-tölu bensíns úr 95 upp í 100-115 octane sem hún var á þeim tíma þegar mátti nota blý og önnur eiturefni til að auka hana. Þar með komið fram bensínið, sem hið "lélega bensín" var látið afnema í kringum 1970. 

Að vísu hafði "sterkasta og besta" verið notað með þeim afleiðingum að oft sást varla út úr súrnuðum augum fyrir útblásturstækju í bandarískum borgum.  En það var aukaatriði. Stóriðjan þurfti ekki "eyða trilljónum bandaríkjadala tið einskis" og "America was great." 

Friðriki tekur vísindastofnanir heimsins á hné sér sem "vankunnáttumenn sem vita ekki að koltvísýringur eflir lífið í sjónum." 

Þetta er stórfrétt, ekki aðeins á heimsvísu varðandi hrynjandi kóralrif og önnur áhrif súrnunar sjávar, heldur ekki síst fyrir okkur Íslendinga, þar sem súrnun sjávar hefur verið talið einna mest á heimsvísu, en hafa látið "vankunnáttumenn," nú síðast fyrir örfáum dögum á ársfundi Veðurstofu Íslands, komast upp með að ljúga því að súrnun sjávar geti verið áhyggjuefni vegna áhrifa hennar á lífríkið.

Hinn nýi spámaður, sem hefur nú bæst í hóp færustu vísindamanna með þessum nýju niðurstöðum sínum, boðar ekki aðeins kjörorð Íslendinga, "aukum útblástur koltvísýrings sem allra mest!", heldur að afnema "rafvæðingartilraunir á kostnað bíleigenda".

Sem sagt; að koma í veg fyrir að við notum eigin orkugjafa til samgangna, heldur notum bensínháka með sams konar bensíni og fyrir 1968 svo að stóriðjan þurfi ekki "að eyða trilljónum dala til einskis."  Kjörorðið verði "stóriðjunni allt!" 

Stundum er spurt af hverju verið sé að eyða púðri í að svara svona greinum. 

Svarið er einfalt:  Þetta er sami málflutningur og hjá "leiðtoga hins frjálsa heims", sem hann og hinir nýjustu og færustu vísindamenn hans flytja daglega í orði og verki.

Nú er ætlunin að ganga hreint til verks. Hreinsa út "vankunnáttumenn" og setja inn í staðinn og ausa fjárveitingum í "færustu vísindamenn" sem komast að þóknanlegum niðurstöðum.

Tónninn var gefinn þegar "leiðtogi hins frjálsa heims" kallaði fyrstu mennina í dómskerfinu, sem dirfðust að gera athugasemd til tilskipun leiðtogans mikla,  "svokallaðan dómara" og "óhæfa til starfa." 

Í grein Friðriks er þetta útfært aðeins nánar með því að kalla niðurstöður vísindastofnana: "Blekkingar, falsanir, umhverfistrúarofstæki, losunarkvótabrask og heimsvaldabrölt!"

Leiðtoginn mikli og nýjasti spámaður væntanlegs vísindasamfélags frjálsra þjóðar hafa talað. 

  


mbl.is Stórslys að verða í íslenskri náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarið um þolmörk liggur erlendis.

Ætlum við Íslendingar að finna upp hjólið í sambandi við ferðaþjónustuna á sama tíma sem í öðrum löndum hefur þetta hjól verið fundið upp og þróað á grundvelli allt að 140 ára gamallrar reynslu?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, er krafin um skýrslu til Alþingis um þolmörk í ferðaþjónustu. 

Sumir hafa í opinberum umræðum rætt um að ferðafólk á Íslandi sé orðið svo margt, að þolmörkum sé jafnvel náð. 

Þó er það svo, að fjalllendisþjóðgarðar erlendis, eins og Yellowstone, með vetrarhörkum og stuttu sumri, ráða við 4,3 milljónir ferðamanna á svæði, sem er ellefu sinnum minna en Ísland að flatarmáli. 

Yellowstone var fyrsti þjóðgarður heims, stofnsettur fyrir 140 árum. 9000 ferkílómetrar hans eru nær eingöngu óbyggðir með skógum, fjöllum og nokkrum hverasvæðum og hann liggur að meginhluta á hásléttu, sem er hærra yfir sjávarmáli en Öræfajökull. 

Hægt er að aka inn í garðinn í gegnum fjögur þjónustuhlið, en inni í garðinum á milli þeirra liggur einfalt malbikað vegakerfi, sem myndar stafinn 8. Alls um 500 km langt. Til samanburðar er áætlað að vegir og vegslóðar á Íslandi séu um 20 þúsund kílómetrar hið minnsta. 

Engir aðrir vegir en þessi áttu laga tveir hringir eru í garðinum. Aðeins einn örstuttan malarvegarspotta var þar að finna árið 1999, þegar ég var þar á ferð í fyrra skiptið sem ég ferðaðist þangað. 

Að öðru leyti er aðeins hægt að fara gangandi um garðinn eftir 1600 kílómetrum af göngustígum, þar sem notuð er ítala til að tryggja að göngufólk fái sem mesta náttúruupplifun í friði og kyrrð. 

Að langmestu leyti gista þessar 4,3 milljónir árlegra ferðamanna á þéttbýlisstöðum, sem eru skammt utan við þjóðgarðinn. 

Viðkvæm hverasvæðin fá trygga varðveislu án rasks, jafnvel þar sem umferðin er margfalt meiri en við Geysi í Haukadal eða Hveraröndina við Námaskarð. 

Eftir að hafa komið á hversvæðið við Old Faithful blasir við Íslendingi hvílík þjóðarskömm umgengnin við Geysissvæðið er og hefur verið um margra áratuga skeið. 

Það er tómt mál að tala um að gefa skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu hér á landi af neinu viti nema að fyrst hafi verið farin vönduð og ítarleg kynnisför til erlendra þjóðgarða, þar sem aðstæður eru hvað líkastar þeim, sem hér eru, til að nýta sér margra áratuga reynslu af rekstri þeirra. 

Ef slík rannsóknarferð hefur verið farin, hefur sú frétt farið fram hjá mér. 

Eftir slíkri ítarferð og slíkum vinnubrögðum ætti að vera innt á Alþingi. 

 

 


mbl.is Krefjast skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband