Þarf ekki að vera einn allsherjar Disneygarður.

Ísland þarf ekki og á ekki að verða einn allsheryar Disneygarður fyrir ferðamenn. Hægt er að nefna fjölda þjóðgarða erlendis, þar sem umferð ferðamanna er margfalt meiri miðað við flatarmál en er hér á landi, en samt er málum þannig skipað að á nægilega stórum svæðum sé umferð takmörkuð við að hver ferðamaður geti upplifað algerlega ósnortna náttúru, kyrrð og frið. 

Þjóðgörðum er skipt í fimm mismunandi stig eða flokka eftir raski og umferð. Auðveldast er að koma böndum á aukinn ferðamannafjölda með því að gera sem stærstan hluta landsins, svo sem á miðhálendinu, að þjóðgarði. 

Í vesturhluta Norður-Ameríku svipar aðstæðum í þjóðgörðum mjög til aðstæðna hér. 

Í Banff-Jaspers þjóðgarðinum í Klettafjöllum er að finna allar fimm gerðir friðunar. 

Við aðalinnganginn úr austri er þjónustuþorp við Lovísuvatn (Lake Louise). Þar er mannvirkjum þannig hagað, að þau séu afturkræf, en staðurinn er í neðsta þrepi. 

Reynt er að öðru leyti að hafa þjónustu- og gistiþjónustu rétt utan marka þjóðgarðsins. 

Á því svæði,  sem telst til efsta stigs þjóðgarðsins, koma örfáir á hverju ári. Sums staðar eru aðstæður svo erfiðar að takmörkun fjöldans kemur af sjálfu sér. 

Annars staðar er beitt ítölu til að viðhalda ástandi svæðisins. 

Til eru vandaðar kvikmyndir, ljósmyndir og bækur af þessum svæðum, sem tryggja það að fólk viti hvað mannkynið hefur þarna til vörslu.

Hér á landi ríkir að mestu ringulreið í þessum efnum í stað þess að hér hefði fyrir löngu átt að rannsaka ofan í kjölinn reynslu annarra þjóða og finna til þess verks þá Íslendinga, sem mesta þekkingu hafa á ferðaþjónustu og þó einkum meðferð þjóðgarða og verndarsvæða.  


mbl.is Upplifi ekki landið sem Disney-garð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum fótaskortur...

Frumherjar rokksins, sem sungu rokklög opinberlega á fyrstu árum þess "in the fifties" eða rétt fram yfir 1960, eru nú komnir á þann aldur, að sá hópur, sem gat komið saman fyrir hálfri öld, er ýmist kominn á áttræðisaldur eða horfinn yfir móðuna miklu. 

Við berum mikla virðingu fyrir þeim, sem horfnir eru, og minntumst til dæmis Sigurðar Johnny sérstaklega á þeirri skemmtun í Grímsborgum í haust, sem var næst á eftir andláti hans. 

Viðstaddir risu úr sætum og vottuðu honum virðingu með þögn.

Við eigum, raunar á hvaða aldri sem er, að þakka fyrir hvern dag sem við fáum að vakna og geta lifað lífinu sem best.  

En síðan getur það líka komið fyrir, að manni verði fótaskortur á tungunni. 

Á einni skemmtuninni í Grímsborgum sátum við í hóp til hliðar við sviðið svo að við sáumst úr salnum, og í byrjun skemmtunarinnar benti ég á hóp okkar og sagði eitthvað á þessa leið:

"Og hér erum við komin, þótt sum okkar séu reyndar látin...."

Vandræðaleg þögn hjá hinum klaufska kynni en samkomugestir hlógu að bullinu.  

Í annað skipti varð einstök uppákoma vegna klaufaskapar míns, sem vakti mikinn hlátur, og hann allan á minn kostnað, líkt og þegar Týr, hinn hugaðasti ása, vildi sýna hugrekki sitt með því að setja hönd sína inn í gin hins ógurlega Fenrirsúlfs. 

En úlfurinn beit höndina af og í sögunni segir síðan: 

"Þá hlógu allir nema Týr, hann lét hönd sína."  

Um atvikið í Grímsborgum gilti hins vegar: 

Þá hlógu allir nema Ómar, hann lét...?´ - ja, ég ætla að geyma það til skemmtunarinnar 21. apríl að segja söguna alla og klára hana. 

 


mbl.is Þeir látnu verða ekki með!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á hjólum losar um rými fyrir bíla, sem það sæti annars í.

Smám saman, en þó ofur hægt, þokumst við í átt til þess sem gerist víða erlendis varðandi notkun hjóla, bæði margvíslega notkun og notkun mismunandi hjóla. 

Hvert reiðhjól, sem farið er á um hjólastíga og gangstéttir, skapar rými fyrir einn bíl, sem annars hefði þurft að aka á götum með manneskjuna sem notar hjólið. 

Létt vélhjól á götu losar líka um dýrmætt rými, því að allt að fjögur hjól geta notað rými sem einn bíll notar. 

Í mörgum erlendum borgum er vélhjólum ætlað sérstakt afmarkað rými fremst við umferðarljós. 

Hugsunin er sú að vélhjólafólkið fari rólega meðfram bílunum inn á þetta fremsta svæði og fari síðan fyrst af stað á grænu ljósi. 

Með því að skila hjólafólkinu á þennan hátt í gegnum umferðarteppuna, er verið að losa um rými, sem þetta fólk hefði annars tekið sitjandi í bíl í teppunni. 

Ef það væri ekki á hjólum, væri það hvert um sig á bíl sem tæki allt að fjórum sinnum meira pláss en hvert hjól. 

Enn meira rými losa hjólin þegar þeim er lagt og þurfa ekki nema lítið brot af því rými, sem hver bíll notar. 

Einstaka bílstjóri bölvar hjólafólkinu af ástæðum, sem erfitt er að skilja. Miklu fremur ættu bílstjórarnir að vera þakklátir hjólafólkinu fyrir að losa um bílapláss fyrir aðra. 

 


mbl.is WOW air með hjólaleigu í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband