Breytt ástand á vegunum kallar á breytingar á vegum.

Á aðeins sjö árum hefur ferðamönnum á Íslandi fjölgað margfalt. Ein afleiðing þess er sú, að á vegunum hefur að sama skapi margfaldast þörf fyrir ferðafólk til þess að stansa, skoða útsýnið og taka myndir. 

Þegar slíkt gerist án þess að um útskot sé að ræða skapast ný umferðarhætta, sem bregðast verður við, ekki síst þegar bílar eru stöðvaðir á blindum og varasömum vegaköflum. 

Það sýnir einkennilega en bagalega firringu ef talið er, að það sé óþarfi að bregðast við þessum nýju aðstæðum. 

Þvert á móti er brýn nauðsyn að brugðist sé við þessu, með finna út, hvar helst getur verið ástæða til þess að stansa, og gera þar nógu stór útskot með nauðsynlegum merkingum til þess að aðstoða ferðafólkið við valið og skapa því aðstöðu jafnframt því að auka umferðaröryggi. 

Aðgerðarleysi ber ekki aðeins vott um ákveðna firringu, heldur er það bæði bagalegt og skaðlegt. 


mbl.is Harmar vinnubrögð Vegagerðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Frakkar á íslenskri leið "sameiningar vinstri manna"?

Sósíalistar hafa löngu verið sterkt stjórnmálaafl í Frakklandi, ýmist til góðs eða ekki,  eins og gengur á langri vegferð frá upplausninni bæði fyrir og eftir stríð til daga Mitterands og Hollands. 

"Flokkur franskra sósíalista" hefur heitið sama nafni frá 1969 og ekki verið feiminn við hugtakið sósíalisma líkt og Íslendingar hafa verið frá því að sósíalistafélögin íslensku hurfu endanlega um svipað leyti og hinn núverandi franski sósíalistaflokkur var stofnaður.

Frá 1969 hefur verið svipuð vegferð í gangi hér á landi og hófst 1938 með stofnun Sameiningarflokks alþýðu - sósíalistaflokksins 1938, Alþýðubandalagsins 1956, Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1970, Bandalags jafnaðarmanna 1983, Þjóðvaka 1994, Samfylkingarinnar 1999, Vinstri grænna 1999 og Bjartrar framtíðar nú síðast.

Meira að segja hafa margir skilgreint Pírata sem vinstri flokk. 

 

Í öll skiptin hefur tilgangurinn verið að "sameina vinstri menn" og síðan 1956 helst alls ekki þannig að orðið "sósíal" sjáist í heiti viðkomandi flokks.

Niðurstaðan hefur samt orðið sú, að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur(áður Íhaldsflokkur) hafa, annað hvort báðir saman eða annar þeirra í senn, verið í ríkisstjórn nær samfellt síðustu tæp 100 ár. 

Það var ekki fyrr en árið 2009 að hvorki Sjallar né Framsókn voru í stjórn, og það ástand varði aðeins í fjögur ár. 

Nú lítur út fyrir að Frakkar séu með hruni Sósíalistaflokksins þar í landi að fara inn á svipaða braut við að "sameina vinstri menn" eins og reynd hefur verið hér á landi árangurslaust í átta áratugi. 

Það er sáralítil en nokkur von til þess að stofnun fyrsta flokksins hér á landi í meira en 60 ár, sem ber heitið Sósíalistaflokkur, muni neinu breyta um "sameiningu vinstri manna." 


mbl.is Sósíalistaflokkurinn kominn að fótum fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt sinn átti að "bjarga Eyjafirði" með risaálveri.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi þótt vá fyrir dyrum á Akureyri og í Eyjafirði vegna þess að verksmiðjur SÍS á Akureyri höfðu missst mikilvæga markaði fyrir vörur sínar í Sovétríkjunum vegna falls kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu. 

Í samræmi við þá áltrú og stóriðjutrú, sem tekin hafði verið upp á Íslandi á sjöunda áratugnum, var þrýst hart á að reist yrði risaálver utan við Akureyri, til þess að "bjarga Eyjafirði." 

Einnig að reisa stórt álver á Keilisnesi fyrir sunnan Hafnarfjörð til að "bjarga", já, "bjarga hverju?  Hafnarfirði"?  Nei, "bjarga Austurlandi." 

Á þessum tíma trúðu menn því að Blönduvirkjun myndi "bjarga Norðvesturlandi" vegna gríðarlegrar atvinnu í tengslum við byggingu virkjunarinnar. 

Jú, það var mikið um að vera á framkvæmdatímanum og mörg hundruð manns fengu vinnu við framkvæmdirnar, en þegar þeim lauk misstu jafn mörg hundruð manns vinnuna og notuðu peningana til þess að flytja burtu og koma sér fyrir annars staðar með þeim afleiðingum að fólki fækkaði meira á Norðvesturland en dæmi höfðu verið um áður.  

Við Blönduvirkjun hafa síðan um tveir menn atvinnu að því að mig minnir. 

Svipað hefði gerst fyrir austan vegna álvers á Keilisnesi. 

Álverið reis aldrei á Akureyri og því neyddust menn til hins hræðilega, að reyna "eitthvað annað". Sem álitið var vonlaust. 

Þetta "eitthvað annað" hefur samt reyndar orðið til þess að allan tímann síðan í lok 20. aldar hefur verið fólksfjölgun og uppgangur á Ákureyri og i Eyjafirði. 

En nú hafa stóriðjutrúarmenn öðlast endurnýjaða trú á það, sem eigi að "bjarga" Eyjafirði á svipaðan hátt og álver átti forðum:

Nýja bjargráðið er að Eyjafjörður öðlist sem stærstan skerf af fyrirhugaðri tíföldun sjókvíaeldis á Íslandi á næstu örfáu árum. Nú brýst hliðstæða stóriðjutrúarinnar út í stórkvíatrú. 

Svo heit er stóriðjutrúin enn, að krafan um tugþúsunda tonna sjókvíaeldi í Eyjafirði sem allra fyrst er sett fram, þótt nú sé bullandi uppgangur nyrðra og meira að segja þensla. 

Sem fyrr eru hugmyndir um friðun taldar af hinu illa, komnar frá "öfgafólki" og "umhverfisfasistum", sem séu "á móti atvinnuuppbyggingu" og "vilji fara aftur inn í torfkofana."

Sannið til, að það verður erfitt fyrir Þorgerði Katrínu að standa á móti stórkvía-þrýstingnum. 

Menn með mikla peninga og góð tengsl við valdamenn þrýsta nú á, leiddir af fyrrum forseta Alþingis, miklum sómamanni, að norskir laxagreifar eignist þennan hluta sjávarauðlindarinnar við Ísland, af þvi að krafan um 51% íslenskt eignarhald gildir ekki um þennan sjávarútveg. 


mbl.is Skora á ráðherra að friða Eyjafjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar framfarir í gerð svona hjóla. Deilt um skilgreiningar.

Miklar framfarir eru í gangi í gerð fjalla- og torfæruhjóla.  Þau léttustu eru innan við 10 kíló og stóru torfærudekkin svo belgmikil, að þau hafa mikið flot, einkum ef hjólreiðamennirnir eru léttir. Einnig hafa góð vetrardekk gert það kleyft, til dæmis fyrir mig, að vera á ferð nær daglega á öðru hverju hjóli mínu, Rafreiðhjólinu Náttfara og létta vespuvélhjólinu Létti (Honda PCX) í öllum veðrum í vetur, svo að ekki hefur fallið vika úr, og á stærra hjólinu meira að segja farnar ferðir austur fyrir fjall í nóvember, desember og mars.  

Hér á síðunni hafa verið athyglisverðar rökræður um það hvaða forsendur eða skilyrði eigi að setja fyrir því að um hreinar hjólreiðar sé að ræða. Reiðhjól á Vatnajökli

Var það vegna ferðar Símonar Halldórssonar upp á Hvannadalshnjúk. 

Síðasta brekkan, upp hnjúkinn sjálfan, er svo brött, að Símon varð að bera hjólið upp hana. 

Fyrir þetta vildu gagnrýnendur afreksins láta ógilda það. Símon hefði átt að hjóla alla leiðina, án nokkurra undantekninga. 

Einhver sagði að þetta hefði verið hliðstætt því að hann fengið þyrlu til að flytja hjólið þennan spöl. 

En á þessu tvennu er mikill grundvallarmunur, sem sé sá, að forsendan og skilyrðið fyrir því að þetta teljist hjólaferð, felist í því hvaða orka er notuð. 

Hjólið sjálft er nefnilega orkulaust og knúið af líkamsorku hjólreiðamanna. 

Ef hjólið er borið, er það samt sem áður fært úr stað með líkamsorkunni einni saman. 

Sú orkuuppspretta ætti að vera eina skilyrðið og er augsjáanlega alls ekki hliðstætt við það að orka þyrluhreyfils flytti hjólið. 

Annar gagnrýnandi sagði, að hjólaferðin upp á hnjúkinn væri hliðstæð því að einhver drægi sleða upp á hnjúkinn og segðist hafa rennt sér á sleða þangað upp eftir.

Nú er það svo að leiðin upp á hnjúkinn er öll upp í móti, svo að augljóst er að sleðinn hefði aldrei getað runnið svo mikið sem nokkra metra nema að vera dreginn upp í mót.

Ef til vill mætti setja skilyrði þess efnis að ekki megi bera hjól nema ákveðna prósentu af leiðinni sem farin er til þess að ferðin teljist hjólaferð.

En þess þarf nú varla, því að yfirleitt komast menn miklu hraðar með því að hjóla þær leiðir sem þeir fara heldur en ef þeir færu að taka upp á því að bera hjólin.Fox bíður. Toyota föst í krapi

Svipað á við um skíðagöngu. Við höfum séð í sjónvarpi hvernig keppendur í skíðagöngu hafa misst af sér skíði, en hlaupið áfram og haldið á lausa skíðinu. Auðvitað komast þeir ekki nærri eins hratt áfram svona höktandi á hlaupum eins og ef þeir stæðu á skíðunum, og því er tími þeirra tekinn gildur. 

Ég vil því óska þeim félögunum til hamingju sem réðust til atlögu við Vatnajökul á reiðhjólum.

Ég er hrifinn af töfrum þeirrar naumhyggju sem minnstu, ódýrustu og umhverfismildustu farartækin búa yfir.  Það hefði verið gaman að verða þeim samferða á litlu rauðu jökla-Súkkunni minni, minnsta og léttasta jöklajeppa landsins.  

 


mbl.is Fótstigin jeppamennska yfir jökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband