Með 700 þúsund króna fjárfestingu er hægt að byrja á morgun.

Hér á landi ríkir alveg sérstök viðleitni til þess að við Íslendingar komumst hjá því að uppfylla skuldbindingar okkar varðandi aðgerðir í loftslagsmálum. 

Samgönguráðherra hélt því fram í sjónvarpsviðtali að stærsti árangurinn gæti falist í hinum miklu flugsamgöngum. 

En í fyrsta lagi eru flugsamgöngurnar alþjóðlegar og því utan sérstaks kvóta okkar sem þjóðar. Og flugsamgöngur í heiminum standa aðeins fyrir 10 prósentum af heildarlosuninni og ferðaþjónustan aðeins fyrir helmingnum af því. 

Innanlandsflugsamgöngur eru með 2% af losuninni innanlands.

Þar að auki er ekki hægt að skipta yfir í raforku í flugflotanum eins og verður æ auðveldara í bílaflotanum.  

Viðleitni til að þarna verði skorið niður er því vonlaus að einhverju marki, en ef menn einblína samt á það, verður auðvitað gulltryggt að við leggjum nær ekkert af mörkum. 

Samgöngutækin á landi liggja hins vegar beint fyrir sem langstærsti hlutinn og þess vegna er svona mikil áhersla lögð á átak á því sviði. 

Og sama daginn og byrjað er að aka á rafbíl, rafhjóli eða léttustu vélhjólum, minnkar útblásturinn frá því sem áður var og árangurinn skilar sér samstundis út í sameiginlegan lofthjúp jarðarbúa. 

"Það hafa ekki allir efni á því að eignast rafbíl" er gild ástæða hjá mörgum, þeirra á meðal mér. 

En þegar ég fór að skoða öll samgöngutækin, allt frá fótstignum reiðhjólum til jeppa og stærri bíla, fannst samt lausn, svo hlægilega einföld, að ef einhver vildi gera það sama, þyrfti hann ekki nema einn dag til að framkvæma hana. 

Tökum persónuleg not mín eins og sér, en kona fékk sér langódýrasta og sparneytnasta bensínbílinn fyrir þremur árum, og auðvitað nota ég hann einstaka sinnum þegar þannigi stendur á að það kemur best út. 

En ég get notað fornbíl af allra minnstu gerð, eða jeppa, sem er fornbíll og af minnstu gerð jeppa. 

Þessum bílum er ekið nokkur hundruð kílómetra á ári og sú niðurstaða er lík niðurstöðunni í Noregi, sem hefur langoftast orðið sú, þegar fólk hefur virkilega tekið til hendi, að það eru tveir bílar á heimilinu, rafbíll, sem er bíll númer eitt og notaður í snattið og stendur fyrir allt að 90% akstursins, og venjulegur bíll, sem er notaður á lengri leiðum en er samt með margfalt minni akstur en rafbílinn.

En galdurinn fyrir aldraðan lífeyrisþega eða tekjulágan einstakling fannst og ég hef lýst henni áður hér á síðunni. Í grunninn þrír farkostir: Náttfari í Elliðaárdal

1.

Raf- og fótknúið reiðhjól, "Náttfari", sem kostaði 250 þúsund krónur og er notað eins mikið og unnt er innanborgar. Orkukostnaður nánast enginn, engin skráning og engar skyldutryggingar eða gjöld.

Ég á núna heima 11 kílómetra frá Umferðarmiðstöðinni, í norðausturhluta Grafarvogshverfis, og þess vegna fólst heildarlausnin í millistiginu: Léttir í Selfossferð 17. 3. 2017

2. 

Minnsta og sparneytnasta vélhjólið, "Léttir," 450 þúsund króna fjárfesting, sem getur náð 90 kílómetra þjóðvegahraða og er notað þegar fara þarf í lengri vegalengdir innanborgar eða í ferðir út á land. Búinn að fara 3500 kílómetra úti á þjóðvegum um allt land síðan í ágúst í fyrra, líka í allan vetur. Myndin af honum tekin í "trúbador"-ferð til Selfoss með hljóðkerfi og allan búnað meðferðis. 

Orkukostnaður, útblástur og rekstrarkostnaður aðeins brot af því sem er á bíl, en hins vegar skyldutrygging og skylduskráning.Fox 410 og Náttfari

3.  

Í sumar: Fiat 126 fornbíll, örbíll af árgerð 1986 / eða Suzuki Fox örjeppi, fornbíll árgerð 1988. 

Engin gjöld, enda aksturinn sáralítill, en lág skyldutrygging. Foxinn er minni um sig en álíka léttur og minnstu nýju fólksbílarnir, örlítið breyttur, svo að hann kemst nokkurn veginn allt það sem jeppar / jöklajeppar komast, en er með lítilli 970cc sparneytinni vél. 

Daginn, sem ég hafði fengið mér bæði hjólin, minnkaði umhverfis/kolefnisfótspor mitt samdægurs um 70% og sá árangur hefur skilað sér út i sameiginlegt andrúmsloft jarðarbúa samdægurs eftir það.

Hver maður þarf aðeins að leita að lausn sem hentar honum persónulega og framfarirner eru það miklar að það verður æ auðveldara.

Krafan sem flest nútímafólk gerir, er að eiga völ á því að komast á eigin farartæki um allt land á þeim hraða sem þarf, en þó löglegum.

Og það er hægt að uppfylla þær óskir og ná samt miklum árangri í brýnum umhverfismálum.  

 


mbl.is Þurfum líklega að draga úr um 35-40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var það ekki álverið, sem átti að "bjarga" Austurlandi?

Um síðustu aldamót var um tvo kosti að ræða varðandi framtíð Austurlands, en það var grundvallarmunur á þeim.

1.

Að gefa svæðinu ca tuttugu ár til að sjá hvernig útkoman væri ef það væri friðað og gert að þjóðgarði með nýtingu fjölbreyttra möguleika fyrir ferðafólk til að upplifa hin stórbrotnu sköpunarverk Jökulsánna tveggja, einkum Jökulsár á Dal.

Gera snotran veg yfir netta brú rétt innan við Kárahnjúka og og útbúa gönguleiðir þaðan inn með Jöklu beggja vegna. Gera göngubrú eða kláf yfir Kringilsá sem opnaði svæði, sem alþjóð hafði dáðst að í mynd Eðvarðs Sigurgeirssonar.

Gefa göngufólki kost á að sjá listaverkin, sem afkastamesti listamaðurinn meðal fljóta Evrópu var að skapa á örfáum áratugum við Stapana, og Rauðuflúð. Lofa göngufólki að horfa í hrifningu upp í stuðlabergsskrautið sitt hvorum megin við Stuðlagáttina, sem Kringilsá hafði skapað með fossum sínum, þar sem Töfrafoss, stærsti fossinn á svæðinu vestan Snæfells var efstur.

Baða sig í heitri lind utan í Hálsinum og njóta skjóls dalsins og huba mikla gróðurs Hálsins.

Kosturinn við að gera þetta var sá, að það útilokaði ekki að virkjað yrði síðar ef einhver síðari kynslóð ákvæði það.  Miðað við það sem tekist hefur að gera annars staðar á svipuðum svæðum á Íslandi hefði þetta getað, í gegnum stóraukna ferðaþjónustu, fjölgað íbúum Miðausturlands og skapað að minnsta kosti jafnmörg störf og hinn kosturinn, auk þess sem arðurinn af ferðaþjónustinni rynni til Íslendinga, í stað þess að allur arðurinn rynni úr landi eins og Alca krafðist að yrði tryggt með sérstökum ákvæðum í orkusölusamningi, sem batt hendur Alþingis í 40 ár. 

2.

En hinn kosturinn var að virkja árnar báðar eins og gert var. Sá kostur var hins vegar þess eðlis, að mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif á Íslandi, eins og fram kom í 1. áfanga Rammaáætlunar, útilokuðu um eilífð að hægt væri að prófa kost númer eitt.

Óþolið var svo mikið og æðibunugangurinn að það mátti ekki vera að því skoða og prófa kost númer eitt, og eyða til þess nánast nokkrum augnablikum í sögu þjóðarinnar miðað við þau eilíðar áhrif sem Kárahnjúkavirkjun mun hafa.

Ein kynslóð gat ekki hugsað sér að hinkra aðeins við það að taka ráðin af öllum kynslóðunum og milljónunum, sem komu á eftir henni.

Sungið var hátt um það fyrir fimmtán árum að Kárahnjúkavirkjun myndi "bjarga" Austurlandi.

Ef svo var, hvers vegna er þá verið að tala um vá fyrir dyrum nú? 


mbl.is „Hér vantar okkur ferðamenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síbyljan um kolaorkuverin í Kína.

Á ársfundi Umhverfisstofnunar, sem stendur yfir þegar þessi pistill er skrifaður, og myndin er af, hefur skotið upp kollinum umræða um þá fullyrðingu stóriðjutrúarmanna, að við Íslendingar séum skyldir til þess að virkja alla orku landsins fyrir álver, vegna þess að ef við gerum það ekki, muni Kínverjar reisa álver sem ganga fyrir kolaorku, sem valda 20 sinnum meiri útblæstri en íslenska framleiðslan. Umhverfis-stofnun, ársfundur

Til þess að þessi margtuggða síbylja um kínversku kolaorkuna standist, er forsendan sú að hvergi í heiminum sé hægt að virkja hreint vatnsafl eða jarðvarma nema á Íslandi. 

En þannig er það ekki, og vel er hægt að virkja vatnsafl nær uppruna súrálsins, sem flutt er um þveran hnöttinn til Íslands. 

Þegar ég flaug yfir Eþíópíu þvera og endilanga árið 2003 blasti við hve miklir orkunýtingarmöguleikar væru í landinu, bæði í jarðvarma og vatnsafli. 

Ekkert af þeim svæðum, sem þar var um að ræða, er á lista yfir merkustu náttúruundur veraldar eins og Ísland er. 

Nú má sjá í frétt á mbl.is að nú sé á vegum Íslendinga í gangi starf við að hefja nýtingu á annarri orku í Eþíópíu en jarðefnaeldsneyti.

Hvað kolaorkuna í Kína snertir, þá hugsa Kínverjar afar þröngt þegar þeir ákveða að reisa álver og kolaorkuver, og vilja helst framleiða alla sína orku sjálfir, svo að sú forsenda stenst ekki að þeir hlaupi til og hætti við að reisa álver sem knúið er af kolaorku ef þeir frétta af því að verið sé að reisa álver á Íslandi.   


mbl.is Neyðarlög seinka framkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu vinir okkar séu sem fremst í röðinni.

Engin nágrannaþjóð okkar á jafn miklar taugar í okkur eða hefur reynst okkur betur en Færeyingar. 

Viðbrögð þeirra í Hruninu munu vonandi aldrei gleymast. 

Þess vegna liggur við að þegar nýr forseti tók við hefði hann fyrst átt að sækja Færeyinga heim. 

En það er að vísu hefði fyrir því að fyrstir séu þær tvær þjóðir, sem við höfum í sögu okkar deilt þjóðhöfðingjum með, Danir og Norðmenn. 

Og það er fagnaðarefni að okkar nýi og góði forseti heimsæki nú Færeyinga og sýni þeim sóma og það þakklæti, sem þeir eiga skilið. 


mbl.is Forsetahjónin til Færeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband