"Nóttlaus voraldarveröld" að hefjast í Reykjavík.

Nú er að hefjast "nóttlaus voraldarveröld" í Reykjavík eins og Stephan G. kallaði fyrirbærið. Sólarlag 18.5.17

Sólin fer ekki niður fyrir 6 gráður undir sjóndeildarhring á ný fyrr en um 20. júlí. 

Í fluginu er það aðeins skilgreint sem "nótt" þegar sólin fer lengra niður. 

Svona leit sólarlagið út séð ofan af Vatnsendahæð í kvöld. Hallgrímskirkja og fleiri byggingar í skugganum. 


Svipað að gerast og 2003-2008.

Vöxtur "gráa" bílamarkaðarins núna er hliðstæður svipuðum vexti á árunum 2003-2008. 

Nokkru eftir að sá markaður bólgnaði upp hitti ég Íslending sem hafði brjálað að gera við að flytja inn bíla, einkum stóra ameríska pallbíla, sem nutu sérstakra tollfríðinda sem "vinnubílar" þótt þá væru sumir orðnir af gerðinni Cadillac og í raun stórir lúxusbílar. 

Af þessu samtali mátti sjá hina mjög svo íslensku hegðun að gera út á væntingar, því að jafnskjótt og skrifað hafði verið undir viljayfirlýsingu við Alcoa í júlí 2002 hófst mikil þensla, þótt þá væru enn tvð ár þar til að framkvæmdir eystre hæfust að einhverju marki. 

Hagfræðingur í Seðlabankanum fann út að 80 prósent þenslunnar fælust í auknum yfirdrætti á kreditkortum landsmanna. 

Kunningi minn sagði að menn væru nánast óðir í sem stærsta pallbíla, vegna þess að hækkun gengis krónunnar gerði þá mun ódýrari en áður hefði verið. 

Já, gamla sólarlandaferðaheilkennið, að drekka eins mikið af áfengi í ferðinni og unnt væri af því að það væri svo ódýrt, og að þess vegna græddu þeir því meira sem þeir drykkju meira. 


mbl.is „Grái“ bílamarkaðurinn vex hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjeriffinn og æstur múgurinn, - sígild saga.

Þegar vestrarnir svonefndu voru upp á sitt besta í kvikmyndahúsum um miðja síðustu öld, fjölluðu margir þeirra um réttsýnan og samviskusaman "sjeriff" í villta vestrinu, sem barðist við æstan hóp fólks í þorpinu, sem vildi láta taka fanga af lífi án dóms og laga. 

Þessi saga er sígild, sagan af því að allir eigi rétt á því að hljóta sanngjarna og mannúðlega málsmeðferð, og að afsökunin "þetta eru engir kórdrengir" er ekki gild í þeim efnum. 

Eitt stærsta íslenska dæmið fólst í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, og enn er það spurnoing, hvort þau mál verði nokkurn tíma afgreidd til hlítar eins og vert væri. 

Síðan geta hliðstæð mál verið af margvíslegum toga en um þau öll gildir þó hið sama: Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga kröfu á sanngjarnri, vandaðri og réttlátri málsmeðferð. 

Í kristnu samfélagi er hollt að hafa orð Krists í huga: "Dæmið ekki, því að þér munið sjálfir dæmdir verða." 

Annars búum við ekki í réttarríki. 


mbl.is Íslenska ríkið braut gegn Jóni Ásgeiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband