"Næstu misserin"? Ekki næstu mánuðina?

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var spurður núna rétt í þessu í fréttum RÚV, þegar þetta var sett á blað, hvort hann muni bjóða sig fram til formanns í Framsóknarflokknum, færðist hann undan því að svara afdráttarlaust, en sagðist myndu bíða og sjá hvernig málum yndi fram "næstu misserin."  

Þetta vekur athygli og jafnvel spurningar um hvort um mismæli hafi verið að ræða, því að flokksþing verður haldið eftir aðeins átta mánuði hið mesta. 

En ef til vill er Sigmundur Davíð einungis að segja, að ekki liggi á fyrir byggðakosningar næsta vor, að Framsóknarflokkurinn klári að skipa forystumálum sínum til framtíðar. 

Eða að gefa í skyn, að lendingin verði sú að stríðandi fylkingar í flokknum sættist á að Lilja Alfreðsdóttir verði formaður, en kannski aðeins til bráðabirgða?

 


mbl.is Flokksþing Framsóknar í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt aðalgagnrýnisefni Trumps var stefnan í Miðausturlöndum.

Eitt helsta gagnrýnisefni Donalds Trumps í kosningabaráttunni var stefna fyrri ríkisstjórnoa í málefnum Miðausturlanda. 

Svo langt gekk hann að hann sakaði Hillary Clinton um að hafa stofnað Íslamska ríkið. 

Það er því í fullu samræmi við þessa gagnrýni hans, sem hann fer til þessa heimshluta í fyrstu opinberu heimsókn sína. 

En þar með er samræmið búið og ósamræmið tekur við. 

Ekki er að sjá að Trump hafi gert neitt hingað til til þess að lægja öldurnar á þessu svæði. 

Hann heimilaði hiklaust loftárás á stöðvar Sýrlandshers, Bandaríkjaher er nýbúinn að gera aðra umdeilda árás, sem hefur ergt Rússa. 

Hann lak viðkvæmum leyndarmálum, sem Ísraelsmenn höfðu trúað honum fyrir, beint í Rússa. 

Frést hefur, vonandi þó í falskri frétt, að Trump hyggist ætla að halda mikla tölu um Íslam yfir hausamótunum á ráðamönnum Sáda. 

Yrði slíkt fáheyrt, enda myndi heyrast hljóð úr horni í Ameríku, ef gestur frá múslimaríki í Miðausturlöndum héldi slíka tölu um Kristna trú í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna. 

Trump var snjall í því að beina athyglinni að sjálfum sér í kosningabaráttunni. Ítarleg rannsókn á umfjöllun fjölmiðla um hann og Clinton sýndi að Trump fékk um 60% rými, en Clinton 40%. 

Trixið byggðist á því að Trump gætti þess að segja eitthvað nýtt og magnað sem flesta daga og fá með því ummælin til að tróna efst á fréttalistum. 

Hann gætti þess að ráða vígvellinum og hafa ætíð frumkvæðið svo sterkt, að Clinton lenti í vörn og í því að þurfa ævinlega að bregðast við í stað þess að ná frumkvæði. 

Samt greiddu um þremur milljónum fleiri bandarískir kjósendur henni atkvæði en greiddu Trump atkvæði. 

En Trump yfirspilaði hana í þeim ríkjum, þar sem atkvæðin skiluðu hlutfallslega flestum kjörmönnum.

Nú leiða menn að því getum að Trump ætli að nota ferðalag sitt til að beina athyglinni frá rugli og uppákomum síðustu viku. 

Vonandi þó ekki með því að hleypa öllu upp í loft í þeirri miklu púðurtunnu, sem Miðausturlönd eru. 


mbl.is Fyrsta utanlandsferð Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki unglingavandamál, heldur foreldravandamál?

Fyrir rúmum áratug var brotist inn í tvo bíla fyrir utan blokkina, sem ég bjó þá í um klukkan fjögur að morgni laugardags. Þetta var í júní og því björt nótt. 

Þetta voru þrír unglingar og þeim tókst að koma öðrum bílnum í gang og þeysa burt á honum. 

Bíllinn fannst síðar gereyðilagður við Hafnarfjörð. Engar bætur fyrir hann.

Niðurstaða lögreglunnar þar: Algengasta orsök þessa fyrirbæris: Foreldravandamál, - ekki unglingavandamál. Foreldrarnir farnir á helgarfylleríið, "skyldudjammmið" og drengirnir í reiðileysi á meðan. 

Þegar ég var nýfluttur í hverfið þar sem ég bý nú, kom ég eitt sinn út að kvöldlagi og sá þá að nokkrir unglingar höfðu hópast í kringum lítinn bíl, sem ég á, og var einn unglingurinn að hoppa uppi á þaki hans, en hinir að taka sjálfur (selfies) af sér með skemmdarverkið í baksýn. 

Unglingarnir hlupu allir í burtu þegar ég reyndi að hafa hendur í hári þeirra. 

Engar bætur. Óupplýst mál. DSCN8459

Hugsanlega var þetta sama gengið og hafði farið inn í verslun, gengið berserksgang og rústað hllum af glervarningi á metttíma, takandi sjálfur í leiðinni og síðan öll á bak og burt á örskotsstund. 

Fyrir viku kom ég að bíl mínum skemmdum eftir þrjá unglinga sem höfðu verið með læti fyrir utan blokkina klukkan hálf fimm á laugardagsmorgni. DSCN8461

Hugsanlega hluti af genginu sem heldur vöku fyrir nágrönnum mínum á kvöldum og nóttum hinum megin í blokkinni. Prísa mig sælan að eiga ekki heima þeim megin.  

Nágranni minn, sem býr í blokk, gegnt bílastæðinu sagði mér, að hann hefði vaknað við lætin í drengjum sem fóru um með með háreysti, en hefði ekki séð fyrr en eftir birtingu um morguninn, að þeir hefðu skemmt bílinn með því að hoppa uppi á vélarhlífinni og brjóta framrúðuna. 

Ég hringdi á lögreglu en var sagt, að ég yrði að koma niður á stöð og gefa skriflega skýrslu.

Vitandi um fleiri atvik sem lögreglan hefur ekkert sinnt hér í hverfinu lét ég það vera.

Fannst, að ég hefði annað þarfara að gera, og veit nú, að löggan hefur nóg að gera vegna svipaðra mála annars staðar í borginni án þess að nokkur árangur náist, að því er sagt er skilmerkilega frá í frétt um það mál. 

Sá um árið á lögreglustöð staflana af skýrslum vegna svipaðra mála, sem þar hrúgast upp. 

"Áfengisbölið verður að hafa sinn gang" var einhvern tíma sagt. "Skyldudjammið" verður líka að hafa sinn gang, sem og  unglingavandamál, sem eru í raun foreldravandamál.

Sparnaður og aðhald í löggæslu hefur líka verið talinn brýnn svo að meiri velta sé í þjóðfélaginu til "græða á daginn, grilla á kvöldin og "fara út á lífið og djamma á næturnar."  

P. S.  Svefnstyggi nágranninn er til alls vís, því að hann sýndi frábæra rannsóknarlögregluhæfileika fyrir nokkrum árum. Þá léku bensínþjófar lausum hala í hverfinu, en hann sá til þeirra og heyrði að vélin í bílnum, sem þeir voru á, var 318 kúbika V-8 vél frá Chrysler-verksmiðjunum og bíllinn Dodge Magnum. 

Bílþjófarnir þrættu þegar löggan greip þá eftir tilvísan hins heyrnarnæma manns, en þegar í ljós kom að það var 318 kúbika V-8 Chrysler-vél í Dodge Magnum bílnum, féll þeim allur ketill í eld, gáfust upp og játuðu!  

Þessi nágranni minn reyndist hafa lengi verið með gríðarlegan áhuga á amerísku bílvélum og bílum og kann margt annað fyrir sér, sem getur komið sér vel!  

 


mbl.is Ganga berserksgang í Langholtshverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband