Svipað og tilkoma Iceland Express 2003? Eða annað Bauhaus?

Ísland er eyland langt norður í höfum og samgöngur til landsins því lífsnauðsyn fyrir Íslendinga.

Lélegar samgöngur til landsins voru meðal þátta í afsali valds til Noregskonungs 1262.

Árið 2002 ríkti einokun í flugsamgöngum til landsins. Eitt íslenskt flugfélag naut hennar.

Þá kom flugfélagið Iceland Express til sögunnar og margir gera sér kannski ekki grein fyrir því hve miklu skipti að einokunin var rofin, þannig að hún hefur ekki átt afturkvæmt.

Nú er öldin svo sannarlega önnur að þessu leyti með tugum flugferða á hverjum degi.

Verslun á Íslandi er líka mikils virði vegna fjarlægðar frá öðrum löndum og samgöngurnar, - og einokunarverslun Dana var þungbær.

Afnám hennar og síðar fullt verslunarfrelsi 1854 voru því framfaraspor.

En einokun getur líka verið af fleiri toga.

Á veldistíma Kolkrabbans svonnefnda var viss einokun fólgin í ofurveldi hans á innlendum smásölumarkaði.

Tilkoma lágvöruverslana á borð við Bónus og Hagkaup voru jafnvel meiri kjarabót en fékkst með launabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

En vegna smæðar þjóðfélagsins er ævinlega hætta á fákeppni sem er ákveðið afbrigði af einokun.

Tilkoma Costco veltir upp spennandi spurningum um áhrif hennar og eðli, sem á eftir að svara.

Gríðarlegt kaupæði í versluninni í Kauptúni segir ekki alla söguna, því að svipað kaupæði greip landann þegar stórverslun Bauhaus var opnuð fyrir nokkrum árum, án þess að hægt sé að segja að hún hafi markað mikil tímamót. 

Það liðu mörg ár frá opnun Bauhaus þangað til ég kom þangað fyrst inn, og þá vegna þess að mér hafði verið sagt frá ákveðinni verslunarvöru, sem aðeins fengist þar, mjóum plaströrum af ákveðinni þykkt.

Þetta var fyrir vorferð mína á Sauðárflugvöll fyrir rúmu ári. Ég var þá enn að jafna mig eftir slysfarir og kveið fyrir þvi að þurfa að fara um þetta langa hús.

En þá uppgötvaði ég, mér til mikils léttis, að fyrir fatlaða, eins og ég var þá, var til reiðu rafknúinn hjólastóll til að leita að mjóu rörunum, sem mig vantaði í þessu gríðarstóra húsi.

Kannski var hjólastóllinn þarna til reiðu, aðeins vegna þess, að það var samkeppni um að fá fatlað og aldrað fólk til að versla þar. Ja, hver veit? 


mbl.is Mikil örtröð í Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændaflokkurinn og Ófeigur á sinni tíð.

Í hundrað ára sögu flokks eins og Framsóknarflokkins gerist ýmislegt aftur og aftur, svo sem ósætti á milli forystufólks.

1933 sagði Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra á vegum flokksins, sig úr flokknum og stofnaði Bændaflokkinn.

Í Wikipediu stendur réttilega að eitt stærsta ágreiningsmál þessara ára hafi verið kjördæmamálið og að "þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað á kostnað landsbyggðarinnar".

Af því mætti ráða að landsbyggðarþingmönnum hafi verið fækkað, en það er ekki rétt, því að þeim var ekki fækkað, heldur fjölgað, - Siglufjörður fékk þingmann.

Og fáranlegt öfugmæli væri að gefa í skyn að fjölgun þingmanna í Reykjavík hefði falið í sér eitthvert óréttlæti á kostnað landsbyggðarinnar, því að Framsókn fékk meirihluta þingmanna í kosningunum 1931 út á aðeins 35% fylgisins og það eingöngu vegna hins litla vægis atkvæða í þéttbýli.  

Nóg um það, Bændaflokkurinn fékk þrjá þingmenn en Hermann Jónason felldi Tryggva í Strandasýslu í kosninunum 1934 og Tryggvi dró sig út úr stjórnmálum, enda heilsuveill.

Þá varð Jónas Jónsson frá Hriflu formaður, og ekki vantaði hann það að hafa mikinn og oft sérkennilegan áhuga á mörgum málum, svo sem menntamálum og utanríkismálum.

Helsta pólitíska vopn Jónasar var að vera ritstjóri Tímans, því að hann var sérstaklega ritfær maður og öflugur og skæður á þeim vettvangi.

En líka oft ófyrirleitinn og stóryrtur að við myndun ríkisstjórnar með Alþýðuflokknum 1934 settu Kratar það skilyrði að Jónas yrði ekki ráðherra.

En það hefðu þeir ekki getað gert ef ekki hefði verið ósamkomulag um Jónas innan hans eigin flokks. Rétt eins og var í fyrra um Sigmund Davíð. 

Og Jónas settist aldrei í ráðherrastól eftir það, þótt hann væri formaður og áhrifamaður allt til ársins 1944.

Þá var hann felldur úr formannsstóli en hélt þingsæti sínu í Suður-Þingeyjarsýslu til 1949.

Hann gaf út blaðið Ófeig sem margir lásu, en lenti upp á kant við flesta aðra 1945 þegar Bandaríkjamenn vildu fá herstöðvar í á Keflavíkurflugvelli, Skerjafirði og Hvalfirði til 99 ára.

Sú tala ára var talin jafngilda því að herstöðvarnar yrðu til allrar framtíðar.

Jónas hafði þá sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálamanna lengst af valdatíma sínum að fara í ferðalög árlega austur og vestur um haf og fylgjast grannt með alþjóðastjórnmálum.

Hann áttaði sig á því fyrstur íslenskra valdamanna að þjóðirnar, sem hann kallaði "Engilsaxa", Bandaríkjamenn og Bretar, myndu hafa slíka hernaðarlega yfirburði á Norður-Atlantshafi um ókomna framtíð, að Íslendingar yrðu að laga stöðu sína að því og nýta sér þetta með því að semja um herstöðvarnar gegn því að fá fríverslunarsamninga við Bandaríkin.

Að gera þetta beint ofan í stofnun lýðveldis 1944 var þó of stór biti fyrir alla stjórnmálaflokkana á þingi.

Föðurafi minn, Edvard Bjarnason, var á lista Framsóknarmanna í bæjarstjórnarkosningunum 1934, en móðurafi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, fylgdi Sósíalistaflokknum að málum.

Ég man eftir því þegar Íslendingar gengu í NATO 1949, að þegar afi Ebbi deildi við afa Finn um tillögu Bandaríkjamannna, taldi hann Hriflu-Jónas hafa sýnt framsýni með því að vilja semja við Bandaríkjamenn, því að í slíkum samningum hefðu Íslendingar getað fengið fram þá málamiðlun að hersetan yrði aðeins til 50 ára og að Skerjafjörður, sem væri að verða úreltur hernaðarlega, félli út.

Og 1951 var  kom síðan varnarliðið og sat í Keflavík og Hvalfirði,  einmitt í hálfa öld, og var grátbeðið um að vera lengur, þegar það fór.  

Sigmundur Davíð hefur haft ýmis áhugamál sín á oddinum líkt og Tryggvi Þórhallsson og Jónas Jónsson á sinni tíð og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr Framfarafélaginu, hliðstæðu Bændaflokksins og Ófeigs sem pólistískt baráttutæki.  


mbl.is Fyrrverandi formenn stjórna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullt af Frankensteinum.

Muammar Gaddafi og Saddam Hussein einræðisherrar Líbíu og Íraks voru að sönnu harðstjórar og kúgarar, sem út af fyrir sig var engin eftirsjá af.

Báðir voru Bandaríkjamönnum óþægir ljáir í þúfu og þess vegna á óskalista þeirra, sem Kanar vildu koma frá völdum og fyrir kattarnef.

Hið síðarnefnda taldist vera næsta auðvelt vegna illvirkja þeirra.

Einnig var ljóst að Assad Sýrlandsforseti varð að beita harðræði til þess að þjóðflokkur hans, sem er aðeins um tíundi hluti þjóðarinnar, gæti verið við völd, auk þess sem Assad var taglhnýtingur Rússa og því sjálfkrafa óvinur Bandaríkjanna.  

En í "Arabiska vorinu" sem hófst í Túnis 2011 vissu leiðtogar Vesturveldanna ekki hvað þeir voru að vekja upp með því að styðja andófsöflin, sem vildu koma einræðisherrunum frá völdum. 

Þar voru innan um mjög ólíkir hópar, og stórir hópar harðlínumanna í trúarefnum nýttu tækifærið til að setja allt á annan endann.

Aðeins í upphafslandinu, Túnis, er hægt að segja að Arabíska vorið hafi ekki endað með ósköpum. í hinumm löndunum voru vaktir upp nokkurs konar Frankensteinar sem hrella heimsbyggðina síðan og hafa valdið ómældum hörmungum í ríkjum "Arabíska vorsins" sem varð að heljarvetri með slíkum ósköpum, að bylgjurnar skella yfir þjóðir langt út fyrir Miðausturlönd.   


mbl.is Barðist gegn hersveitum Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Árið 2007" (Með sínu lagi)

 

Mig dreymdi´að það væri komið aftur 2007, -  / 

tryllt að gera á Hrauninu við númer A til Ö. / 

Já, veröldin var skrýtin, það var allt orðið breytt, /

menn voru að reisa hótel og sjoppur út í eitt. 

 

Og ekki hafði neitt að gera efnahagsráðherrann -

því yfir honum réði krónan, sem hér spunann spann. /

Og þingmennirnir flissuðu og fífluðust í kross  / 

því forsætisráðherrann var gamall Mackintosh.

 

Gömlu dagana gefðu mér  /

þá gat ég verslað óður hér. / 

Nú gengið geggjað orðið er. /

Gróðadagana gefðu mér. 

 

En sá draumur!  

Og nú veit enginn hvert hér stefnir eða fer. 

  

 


mbl.is „Vitlaust að gera“ á Hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband