"Við lifum öll á sömu plánetu..."

John F. Kennedy kom eins og hressilegur gustur inn í Hvíta húsið, yngsti Bandaríkjaforseti sem elstu menn mundu eftir, glæsilegur og flottur. 

Oft er vitnað í innsetningaræðu hans, en ef ég mætti velja bestu ummæli hans, féllu þau skömmu áður en hann var veginn að gefnu tilefni af því, að rúmu hálfu árið áður rambaði mannkynið á barmi kjarnorkustyrjaldar:  

"Við lifum öll á sömu plánetu, - öndum að okkur sama loftinu, - eignumst afkomendur, sem okkur er annt um, - og erum öll dauðleg." 

Kennedy var aðeins við völd í minna en þrjú ár og þrátt fyrir viðleitni til að minnka hart misrétti kynþátta og mannréttindabrot í syðri hluta Bandaríkjanna, kom það í hlut arftaka hans, Lyndon B. Johnson, að lögfesta merkilegustu mannréttindabætur í Bandaríkjunum í heila öld.

Það var ekkert minna en stjórnmálalegt afrek en til þess beitti Johnson því yfirþyrmandi flóði af háfleygu tali, skjalli, hóli, hótunum, refskap, þvingunum og undirmálum sem hann réði yfir eftir einstæðan stjórnmálaferil og árangur á bandaríska þinginu. 

En Johnson var einfaldlega svo margslungin persóna og þar að auki einstaklega óheppinn með stefnu sína í Víetnam, að ekki leikur um hann viðlíka ljómi og leikur um John F. Kennedy. 


mbl.is Jákvæð ummæli Bandaríkjaforseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var býflugan á Sauðárflugvelli laumufarþegi?

Í flugferð til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum í fyrradag var margt að sjá og flest óvenjulegt.

Það var 13 stiga hiti á vellinum, sól í heiði og hlý suðvestangola. 

Ég skildi því flugvélina eftir opna á meðan ég að basla við að hefja eftirlits- og yfirferð yfir völlinn. 

Þegar ég renndi við hjá vélinni til að kippa með mér einhverju til að narta í, brá svo við að stærðar býfluga flögraði við vinstri vænginnSauðárflugvöllur Snæfell í baksýn 27.5.17 og hvarf. 

Ég minntist þess að svipuð býfluga hafði verið á sveimi í Stórubót á Rangárvöllum þegar ég var að ferma vélina af þeim búnaði sem þarf í fyrstu ferð til Sauðárflugvallar eftir veturinn. 

Datt mér því fyrst í hug að flugan hefði verið laumufarþegi norður og ætti ekki glæsilega framtíð á þessu gróðurlitla svæði 60 kílómetra frá byggð í 660 metra hæð yfir sjávarmáli, jafnvel þótt sumarið sé svo sannarlega komið þarna mánuði fyrr en venjulega. Sauðárflugvöllur úr na. Kverkfjöll í baksýn. 27.5.17

Að vísu er gróðurvin, svonefndar Kvíslar, aðeins kílómetra norður af vellinum með það miklum gróðri, að eitthvað ætti flugan að geta naslað í þar. 

En í samtali við Völund Jóhannesson, sem stundar garðrækt í Grágæsadal, um átta kílómetra vestur af Sauðárflugvelli, sagði hann að þar væru býflugur að staðaldri. 

Myndirnar hér á síðunni eru frá ferðalaginu í fyrradag.

Snæfell í baksýn á efst, síðan loftmynd úr norðaustri yfir flugvallarstæðið og autt hálendið allt til Kverkfjalla og Brúarjökuls.  

 


mbl.is Einstök tenging við náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasöm leið til að gera "America great again."

Frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar hafa Þjóðverjar kappkostað að tryggja, að skelfilegar afleiðingar hernaðar- og valdahyggju fyrstu áratugi síðustu aldar endurtaki sig. 

Í staðinn hafa þeir lagt áherslu á uppbyggingu lýðræðislegs og frjálslynds en þó agaðs þjóðfélags. 

En Donald Trump hagar sér eins og heimtufrekur og öfundsjúkur krakki og hrópar: "Þjóðverjar eru slæmir, mjög slæmir." 

En dæmið sem hann tekur um hina vondu Þjóðverja er afar illa valið; það að "Þjóðverjar moki milljónum bíla inn í Bandaríkin". 

Trump talar um þetta eins og að hér séu brögð í tafli, eins konar undirboð. 

En meginástæðan er allt önnur: Þýsku bílarnir sem Kanarnir keppast við að kaupa eru nefnilega dýrir og kvartað yfir því í bandarískum bílablöðum. 

Ástæðan fyrir því að þeir eru samt svona vinsælir vestra er einfaldasta ástæða viðskipta: 

Þeir eru betri, betur hannaðir, betur gerðir, nýtískulegri, vandaðri, traustari og endingarbetri en amerísku bílarnir. 

Ef þeir væru það ekki myndu þeir auðvitað ekki seljast og ef þeir væru ekki betri myndu Þjóðverjar ekki getað grætt á því að selja þá svona dýrt.

Trump hamrar á nauðsyn þess að gera "America great again."

Og það var Ameríka fyrir 60 árum. Þá framleiddu Bandaríkjamenn fleiri bíla en allar aðrar þjóðir heims samanlagt. 

 Í öllum sérfræðiritum um bíla, sem ég hef lesið, ber mönnum saman um, að þá hafi amerísku bílarnir verið vandaðir, í forystu í tækni og hönnun,traustir og endingargóðir.

Cadillac var "Standard of the world", ekki Benz. 

Lögð var alúð við smáatriðin, misfellulausa samsetningu, dyrnar voru þéttar og hurðir féllu hljóðlega að stöfum,gírstengur runnu ljúflega í gírana og öll stjórntæki virkuðu vel. 

Vökvastýri og aflhemlar gerðu stjórnun auðvelda og Chevrolet "small block" 265 kúbika V-8 vélin, sem kom á markað 1954, er talin ein af tíu merkustu bílvélum allra tíma.

En neyslusprengjan, sem speglaðist í unglinga- og rokkbyltingunni, ærði bílaiðnaðinn.

1956 gerði Chrysler magnaða atlögu að GM og Ford með stórum og næstum því vængjuðum bílum þar sem útlitið og öfgafull tíska voru aðalatriðið, en gæðin sátu á hakanum, einkum vegna þess að menn flýttu sér um of til að "hafa frumkvæðið."

Hestaflakapphlaup byggt á næstum ókeypis bensíni, sem fékkst að miklu leyti með því að arðræna Arabaþjóðirnar, hin nýju olíulönd, setti allt á annan endann.

Svarið 1960 við innfluttum Volkswagen og Renault, sem þrátt fyrir tolla seldust vel,fólst meðal annars í smíði Ford Falcon, sem var smíðaður með þeirri forsendu að endast ekki nema í tvö til þrjú ár.

Í framhaldi af þessu sóttu sigruðu þjóðirnar í heimsstyrjöldinni, Japanir og Þjóðverjar, inn á Ameríkumarkaðinn með bíla, þar sem hagkvæmni, véltækni, ending og vöruvöndun voru aðalatriðin.  

Það eru afkomendur þessara bíla sem hafa valdið því að veldi Ameríku í bílasmíði í heiminum hrundi að miklu leyti, vegna grunnatriðis markaðskerfisins og frjálsra viðskipta, sem er: Betri vara. 

En Trump málar skrattann á vegginn,og í staðinn fyrir að beita sér fyrir því að Bandaríkjamenn taki sig saman í andlitinu og fari aftur að framleiða bestu bíla í heimi, heimtar hann höft og bönn og virðist ætla að takast að þröngva Þjóðverjum til að fara að byggja upp her og herveldi. 

Trump ætti frekar að snúa sér að umvöndunum í garð Þjóðverja vegna einstrengingslegrar stefnu þeirra gagnvart Grikkjum og fleiri þjóðum, en í þeim efnum mættu Þjóðverjar taka sér tak.  

En hann veit sennilega ekkert í sinn haus um það. 


Bloggfærslur 29. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband