Veruleiki sviðsins er tvöfaldur.

Veruleiki sviðsins, leiksviðsins eða hvers annars vettvangs, þar sem listsköpun á sér stað, er oft tvíbentur.

Á sviði er oft leitast við að búa til veruleika leikrits, sviðsdagskrár eða kvikmyndar, en samt býr sviðið yfir því að geta orðið vettvangur annars veruleika, raunveruleika hinnar beinu útsendingar lífsins.

Í tengdri frétt á mbl.is er greint frá því að sumir áheyrendur á tónleikum Bruce Hampton hefðu haldið þegar hann hneig niður í lok tónleikanna, væri það leikinn hluti af tónleikunum. 

En það var grimmur veruleiki dauðans.

Hér heima hneig Rúnar Júlíusson niður baksviðs á tónleikum, ef ég man rétt. 

Tvívegis hefur svipað, þó ekki nærri eins alvarlegt, hent mig á sviði. 

Á Sumargleðinni á Kirkjbæjarklaustri 1980 endaði lagið Sveitaball í flutningi mínum á þann veg að ég var kominn aðeins of framarlega á sviðið í öllum hamaganginum, sem fylgir flutningi þess lags. 

Talsvert hátt var af sviðinu niður í salinn, og á sekúndubroti hugkvæmdist mér að fara heljarstökk fram fyrir mig niður í stað þess einfaldlega að hoppa beint niður. 

Þetta mistókst þannig, að ég komst ekki nema helming stökksins á leiðinni niður og kom beint niður á hausinn.

Þar var ég heppinn að hálsbrjóta mig ekki en brákaði samt hálslið án þess að það kæmi í ljós fyrr en fimm árum síðar þegar ég fór að enda þetta lag á því að fara kollhnís aftur á bak og hnykkti á kölkuðum örvef sem hafði myndast í taugaopi í sjöunda hálsliðnum.

Ef ég hefði lamast eða drepist í þessu stökki hefðu áhorfendur áreiðanlega haldið í fyrstu að þetta væri óviðjafnanlega flott og fyndið atriði.

Enda var það svo fyndið að fagnaðarlátunum ætlaði varla að linna. 

Á litlu jólum á Sólheimum í hitteðfyrra framkvæmdi ég atriði sem áheyrendur héldu að væri hluti af söngskránni, og hafði sjaldan verið hlegið og fagnað jafn mikið í 50 ára sögu samkomunnar. 

Ég var að syngja línurnar:  "Hafið þið Gluggagægi séð  /  gráa og síða skeggið með? /  Glápir hann alla glugga á. /  Gott ef hann ekki brýtur þá.

Til þess að gera þetta með tilþrifum, steig ég þrjú skref fram á sviðinu þegar sungið var: "Glápir hann alla glugga á. /  Gott ef hann ekki brýtur þá" - og stangaði höfðinu fram til að brjóta ímyndaðan glugga.

Sviðsljósin lýstu framan í augun og svartmálað sviðið var, séð frá mér, myrkvað og sýndist svört klessa.  Ég sá ekki, að sviðið var styttra en vænta mátti, því að trappa lá upp á það.  

Ég steig aðeins of framarlega, steyptist eins og eldflaug niður í salinn, braut auðvitað engan glugga en braut hins vegar öxlina í staðinn og ætlaði hlátri og fagnaðarlátum aldrei að linna. 

Ég notaði tækifærið meðan hlátrasköllin dundu, stóð strax á fætur og gekk upp á sviðið, þar sem kynnirinn spurði mig lágt: "Er eitthvað að?"

"Já, ég er axlarbrotinn," svaraði ég. 

"Hvernig veistu það?"

"Ég er síbrotamaður", svaraði ég og kláraði lagið og lögin sem eftir voru. 

Það var ekki fyrr en ég var farinn til Reykjavíkur til að komast á bráðamóttökuna í Fossvogi sem það spurðist út fyrir austan að ég hefði axlarbrotnað. 

Albert heitinn Guðmundsson var fastamaður í "Stjörnuliði" mínu meðan hans naut við. 

Eftir nokkra leiki með liðinu hafði Brynhildur kona hans samband við mig og harðbannaði mér að hafa Albert í liðinu, því að hann væri bæði hjartveikur og alltof þungur og feitur, þannig að þessi þátttaka hans væri stórhættuleg. 

Ég lét því Albert ekki vita af næsta leik, en þegar hann komst að því að hann hefði ekki verið boðaður, hringdi hann í mig, sármóðgaður, og spurði mig fyrir hvaða sakir ég teldi hann ekki eiga heima í liðinu. 

Ég sagði honum frá því sem Brynhildur hafði sagt. 

"Henni kemur það ekkert við," svaraði Albert. "Þegar við giftum okkur var það samkomulag okkar á milli að knattspyrnuiðkun mín væri algerlega mitt einkamál og þetta heyrir undir það."

"Já, en ég vil ekki eiga sök á því og bera ábyrgð á því ef þú hnígur niður í miðjum leik," svaraði ég. 

"Eiga sök!" "Hvaða vitleysa er þetta í þér? Þá mátt þvert á móti verða stoltur af því ef ég hníg niður frammi fyrir troðfullri Laugardalshöllinni með boltann á tánum. Úr því að allir menn eru dauðlegir getur maður eins og ég ekki beðið um flottari dauðdaga." 

Eftir þetta var Albert alltaf fyrsti maðurinn sem ég hringdi í þegar til stóð að Stjörnuliðið léki. 

 


mbl.is Lést á eigin tónleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttatíminn var ágætis blað en nafn Sósíalistaflokksins fælir.

Í vanmegna íslensku fjölmiðlaumhverfi var Fréttatíminn oft ágætis blað, oft með þarfa umfjöllun á mikilvægum sviðum sem aðrir fjölmiðlar vanræktu. 

En gjaldþrotið segir allt um það að þetta var samt misheppnuð tilraun fjárhagslega. 

Nöfn stjórnmálaflokka segja ekki alltaf allt um stefnu þeirra og störf. 

Nafnið Venstre á einum stjórnmálaflokknum í Danmörku hljómar vinstri í eyrum Íslendinga en Venstre er samt hægri flokkur ef eitthvað er. 

Framsóknarflokkurinn íslenski hefur barist fyrir stóriðjustefnu síðustu áratugi sem byggist á hugmyndum, sem voru gildar þar til fyrir um hálfri öld þegar þær fór smám saman að verða úreltar og steinrunnar vegna byltingar í tækniefnum og varðandi gildi menntunar fyrir velsæld þjóða.

Að reisa risaálver í Eyjafirði til að "bjarga" Norðurlandi og afneita því að ferðaþjónusta, nýsköpun og frumkvöðlastarf hefðu nokkurt gildi, var hrein afturhaldsstefna.

Nýstofnaður Sósíalistaflokkur er önnur tilraunin undir þessu nafni til að "sameina vinstri menn."  

En ef hann ætlar að halda fram sömu stefnu og nafni hans, sem átti beina fulltrúa á Alþingi frá 1937 til 1953 og síðan áfram Alþingismenn úr sínum röðum fram yfir 1970 hefur nafnið eitt fælingarmátt.

Stefna þess flokks, sem birtist í skýlausri vörn fyrir Stalín, Maó og hinn gjaldþrota kommúnisma Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja, beið skipbrot um víða veröld.

Flokkurinn varð til við samruna Kommúnistaflokksins og vinstri arms Alþýðuflokksins undir forystu Héðins Valdimarssonar 1938, en kommúnistar höfðu tögl og haldir í nýja flokknum og hröktu Héðin úr flokknum fyrir það að Héðinn fordæmdi árás Sovétríkjanna á Finna haustið 1939.

Kommarnir höfðu áfram öll ráð flokksins í hendi sér þar til næsta sameining við hluta Alþýðuflokksins varð 1956 í stofnun kosningabandalags, sem fékk nafnið Alþýðubandalagið.

Þótt Hannibal Valdimarsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins, væri í forystu kosningabandalagsins, vörðu kommarnir áfram allt framferði Sovétmanna og annarra kommúnistaríkja fram til 1968, þegar fimm kommúnistaríki réðust inn í Tékkóslóvakíu og kæfðu þar fæðingu "manneskjulegan sósíalisma."

Sum sósíalísk eða félagsleg fyrirbæri eins og ríkisrekstur í mennta- og heilbrigðiskerfi og margs konar þjónustu, hafa reynst vel hér á landi og erlendis.

Hins vegar mistókst sósíalistum þessa tíma alveg að þjóðnýta útgerðarfyrirtækin og þjóðnýta sumar tegundir verslunar, rétt eins og að sumar þjóðnýtingarhugmyndir Verkamannaflokksins í Bretlandi mistókust.

Nú virðist eiga að endurvekja misheppnaðar þjóðnýtingarhugmyndir í nýstofnuðum Sósíalistaflokki og þar með verður það ekki aðeins nafn hins gamla kommaflokks, sem fælir frá flokki, sem ætlar að sameina vinstri menn í "nýju" afli, heldur líka sumar hugmyndir nýja flokksins, sem eru gamlar og langt vinstra megin við þá hugmyndafræði jafnaðarmannaflokkanna á Nörðurlöndum, sem byggir á "blönduðu hagkerfi".

En af öllum gölluðum þjóðfélagskerfum heims er þetta "norræna módel" þó það skásta, sem enn hefur fundist.  

  


mbl.is Fréttatíminn fer í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endilega að njörva Íslandi niður í net risa háspennulína.

Það kom fram í máli eins af talsmönnum risavaxinna háspennulína um allt Ísland, að hér áður fyrr hefði fólk fagnað því að sjá slík mannvirki sem víðast. 

Það var á þeim tíma sem verið var að rafvæða landið og leggja rafmagn heim á bæina. 

Fyrrum iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, lýsti því í viðtali að það sem hefði markað hennar sýn til allrar framtíðar hefði verið þegar hún sem ung stelpa hefði horft á flotta stráka koma til að leggja rafmagn heim á bæina fyrir norðan. 

Enn virðast ráða ferðinni hér á landi þeir, sem halda að ekkert hafi breyst síðustu hálfa öld, þegar það var eina ráðið til að "bjarga" byggðum að "skaffa" sem stærst verkefni fyrir fjölmennan verkalýð þess tíma þegar hrátt handafl var helsta uppspretta "atvinnuuppbyggingar".

Þegar verksmiðjur SÍS misstu markaði í Sovétríkjunum við fall þeirra um 1990 var hrópað um að eina ráðið til að "bjarga" Akureyri og Eyjafirði væri að reisa risaálver.

Þeir sem höfðu hugmyndir um tækifærin, sem nú hafa skapað þjóðinni stærsta atvinnuveginn með mestu gjaldeyristekjurnar voru úthrópaðir sem "kverúlantar", "fjallagrasatínslufólk" sem "væri á móti rafmagni" og "á móti atvinnuuppbyggingu."

Enn ráða þessi 50 ára gömlu stóriðjusjónarmið mestu um meðferðina á landinu, sem nú malar gull sem ósnortið land einstæðrar náttúru.

 

Samkvæmt könnun á viðhorfum erlendra ferðamanna, eru engin mannvirki, sem þeir sjá og trufla upplifun þeirra meira en tröllauknar háspennulínur. 

En einmitt slíkar línur skulu nú njörva allt Ísland niður í net skógar af möstrum og línum. 

Nú síðast í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum var þess krafist að mannvirkjabelti háspennulína og virkjana með tilheyrandi vegakerfi yrði lagt í gegnum hjarta landsins um Sprengisand. 

Þegar bændur fór að skoða grundvöll Blöndulínu 3 og þær fullyrðingar Landsnets að hún væri nauðsynleg til að gefa byggðunum afhendingaröryggi kom í ljós að þessi risalína átti hvergi að tengjast neinum spennivirkjum byrir byggðarafmagn heldur eingöngu að þjóna stóriðjunni. 

Kröflulína 3 er ekki eina stóriðjumannvirkið sem á að fara þannig um víðerni Norðausturlands að eftir sé tekið. 

Enn stendur óhögguð sú niðurstaða nefndar um skipulag miðhálendisins að skilgreina skuli svæðið Leirhnjúk-Gjástykki sem "iðnaðarsvæði", þ. e. virkjanasvæði. 

Verði það að veruleika getum við endanlega afskrifað að nokkru verði þyrmt af helstu náttúrudjásnum Íslands. 

 


mbl.is Mannvirki skerði ekki ósnortið land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðakstur algengur á Gullinbrú.

Síðustu árin hefur Gullinbrú orðið að helstu leið minni til og frá Grafarvogshverfinu. Þegar maður er á vélhjóli breytist öll upplifun af umferðinni. 

Hjá fólki á hjólum verða öll skilningarvit miklu tengdari því sem er að gerast allt í kringum það í umferðinni, því það verður að gæta sín miklu betur en ef það væri á bíl, -  af augljósum ástæðum. 

Merkilegt er hve margir virðast vera stressaðir á leiðinni um þennan vegarkafla, aka langt yfir leyfðum hámarkshraða. Þetta er ekki það langur kafli að það sé eftir miklu að slægjast með því að æða hann á ofsahraða. 

Svipað á reyndar líka við um marga aðra kafla í borginni. 

Það blasir við, að sá bílstjóri á Miklubrautinni hlýtur að skorta jafnvægi hugans eða vera eitthvað mikið stressaður, sem getur vel séð fyrirfram, að hann muni ekki komast yfir á næsta umferðarljósi, en ekur samt á öðru hundraðinu að gatnamótunum, bara til þess eins að hemla harkalega þegar hann kemur að þeim. 

Í sumum tilfellum myndi slíkur bílstjóri geta liðið ljúflega áfram á grænu ljósi, sem kvikna myndi á réttu augnabliki fyrir hann, ef hann væri ekki svona æstur að komast að rauða ljósinu á gatnamótunum, bara til þess að hemla, stansa, og rykkja síðan aftur af stað. 


mbl.is Árekstur á Gullinbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband