"Ekkert er ókeypis"?

Það hefur verið sagt að engin vara né þjónusta sé í raun "ókeypis". Að baki liggi alltaf kostnaður eða vinna, sem meta megi til peninga. 

"Costco-æði" er nýtt orð, sem meðal annars speglast í því að fyrr í dag höfðu 68 þúsund manns skráð sig inn á sérstaka facebook- síðu áhugafólks um Costco og verðið á söluvörunni þar. Kannski verður talan komin í 100 þúsund á morgun, sem er helmingur allra kjósenda á Íslandi. 

Nú hefur framkvæmdastjóri FÍB fært að því rök að Costco leggi 15% álagningu á eldnsneyti og fölnar þá aðeins trú sumra á það að álagningin sé engin. 

Að vísu er til dæmi um afnám einokunar hér á landi, sem bendir til þess að tímabundið hafi þeir tveir aðilar, sem þá hófu að keppa um hylli neytenda, það er, að farþegar í áætlunarflugi innanlands hafi flogið með keppinautunum fyrir verð, sem var það lágt, að ekki aðeins hafi það falið í sér enga álagningu, heldur meðgjöf. 

Þetta gerðist með því að Íslandsflug bauð helmingi lægra fargjald en Flugfélag Íslands, sem hafði haft einokun á helstu flugleiðum innanland. 

Flugfélagið svaraði með því að lækka sitt verð líka um helming, og vegna þess að bakhjarl þess, Icelandair, var margfalt sterkari en bakhjarlar Íslandsflugs, þoldi Flugfélagið lengur að bjóða svona lágt verð, þannig að Íslandsflug gafst upp, og síðan hefur Flugfélag Íslands haft einokun á þessum flugleiðum. 

Ekki leið á löngu þar til flugfargjöldin höfðu hækkað það mikið að nýju, að þau voru orðin nokkurn veginn jafn há og fyrr. 

Af því mætti draga þrjár spurningar:

1. Töpuðu bæði flugfélögin á rekstrinum á meðan á samkeppninni stóð?

2. Ef þau töpuðu, sem hlýtur að hafa verið raunin, hve mikið var það tap? Og var flugið í raun á "gjafverði"?  Ef það var tap á rekstrinum, hvaðan komu þeir peningar, sem þurfti til að borga það tap?  Frá gróða á öðrum sviðum í umsvifum þessara félaga?

3. Veldur einokunin því, að okrað sé á neytendum? Hvers vegna getur á stundum verið álíka dýrt að fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur og á milli Íslands og meginlands Evrópu, allt að tíu sinnum lengri leið?

Og síðan fleiri spurningar. Á vöruverðið eftir að verða jafnara en nú er á þeim markaði, sem Costco hefur áhrif á?  Og hefur verið okrað hingað til á neytendum á einstökum vörum á þeim markaði?


mbl.is Telur Costco leggja 15 kr. á lítrann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eru á ferli úlfur og refur..." Æpandi og háskalegar mótsagnir Trumps.

"Örn í furutoppi sefur, / eru á ferli úlfur og refur.."

Ofangreind ljóðlína úr kvæði Gríms Thomsens um Arnljót Gellini í dálítið hálfkæringslegri notkun, koma í hugann þegar litið er á hinar æpandi mótsagnir, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sýnt heimsbyggðinni síðan hann braust til valda í Bandaríkjunum og valdið með því ólgu, öryggisleysi og óróa.

Trump kveikti elda í kosningabaráttunni á marga vegu og sakaða meðal annars Obama og Hillary Clinton beint og hiklaust um að hafa stofnað Íslamska ríkið með því að veita uppreisnarmönnum í Sýrlandi hernaðarlegan og fjárhagslegan stuðning.

Eitt fyrsta verk hans sem forseta er síðan að fara langt fram úr Obama og Clinton í hernaðarlegri innspýtingu í púðurtunnuna í Miðausturlöndum og dæla meira fé í hergagnaiðnaðinn í Bandríkjunum í einu stökki en dæmi eru um á síðari tímum.

Á sama tíma gerist hann mesti "fundaskelfir" heims með háskalegum yfirlýsingum um að Bandaríkin muni geta átt það til að standa ekki við grundvallaratriði NATO um að árás á eitt ríki bandalagsins teljist árás á þau öll.

Trump gumar af "einstæðum stórsigri" sínum í forsetakosningunum þótt í raun hafi þremur milljónum fleiri kjósendur kosið Hillary Clinton en Trump.

Það er í samræmi við firringu hans, sem hefur meðal annars birst í því að hann hefur túlkað hvert einasta gjaldþrot sitt og ófarir sem "mikla sigra." 

Skammsýni, grunnhyggni, fáfræði og einsýni Trumps virðast fá takmörk sett, samanber það hvernig hann kippir Bandaríkjunum út úr samstöðuhópi þjóða heims um aðgerðir í umhverfis- og orkumálum.

Ofangreind lýsing kann að þykja óvægin en því miður er hún sönn og það á eftir að koma betur í ljós, því miður.  


mbl.is Segir Trump veikja Vesturveldin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heildar kolefnissporið liggur ekki alltaf í augum uppi.

Fyrir þau not, sem ráðherrabíl eru ætluð, væri tvinntengilbíll líklegast með minnsta kolefnissporið í heild. Þá er gert ráð fyrir því að bíllinn hafi góða aðstöðu til að fá rafhleðslu þegar hann stendur kyrr á milli ferða í bæjarsnattinu, þannig að akstur hans sé að mestu leyti fyrir rafmagni.

En þetta dæmi getur verið nokkuð snúið. 

Fyrir löngu hefði átt að vera búið að koma fyrir aðstöðu til rafhleðslu fyrir framan Stjórnarráðshúsið og ráðuneytin ef mönnum væri einhver alvara með að sýna gott fordæmi. 

En líklega getur góður dísilbíll komist nálægt tvinnbíl (hybrid), ef miðað er við allt kolefnissporið sem bætist við aksturinn varðandi framleiðslu á tvinnbílnum, viðhaldi, rekstri hans og förgun. 

Tvinnbíll sem ekki er tvinntengilbíll er jafnvel hugsanlega lakari kostur en dísilbíll ef heildar kolefnisporið er reiknað út. 

Ég átti einu sinni skemmtilegt samtal við Ólaf Ragnar Grímsson þáverandi forseta, þegar hann kom á forsetabílnum, sem er tvinnbíll, Lexus, og renndi upp að hótelinu, þar sem ég var staddur í anddyrinu. Ég sagði við hann: 

"Ef þú vilt gefa gott fordæmi getur þú verið á dísilknúnum Bens eða BMW af sömu stærð og Lexusinn, með svipaða eyðslu, snerpu, hraða og rými, þægindum og hraða, en bara með talsvert einfaldari og ódýrari vélarbúnað og minna heildar kolefnisspor. Og slíkur bíll hefði verið ódýrari í innkaupi fyrir þjóðina, því að tvinnbílarnir fá afslátt af gjöldum, sem er afar hæpið að hægt sé að réttlæta."

En Ólafur brosti og svaraði:

"En það er meira P.R. falið í því að vera á tvinnbíl."

 

Við hlógum báðir, því við þessu átti ég ekkert svar, nýbúinn að biðja hann um að sýna glöggt fordæmi, sem væri sem sýnilegast. En það er dísilbíll ekki. 

Tökum annað dæmi. Ef miðað er við þá kröfu að færa einn mann úr stað á einkafarartæki, hvert sem er og á hvaða löglega hraða sem er, reikna ég með því að einfalt vespuvélhjól sé með minna heildar kolefnisspor en nokkur rafmagnsbíll.

Hjólið er nefnilega tíu sinnum léttara en léttasti rafmagnsbíll og eyðir þrefalt minna en sparneytnustu og ódýrustu bílar, sem eru þó fimm sinnum dýrari hið minnsta.

Og hjólið er tíu sinnum ódýrara í innkaupi og fjármagnskostnaði, auk þess sem kolefnissporið vegna framleiðslu, reksturs og förgunar er margfalt minna.

En það er kannski meira P.R. falið í því að aka rafmagnsbíl.  


mbl.is Einn bíll keyptur síðustu þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband