Hversu langt afturábak? 30 ár? 50 ár?

Trump á sér sinn sérstaka "ameríska draum". Það er að færa land sitt og þjóð svo langt afturábak í tímanum að Bandaríkin verði eins "frábær" og þau voru þegar meira en helmingur allra bíla heims var framleiddur þar í landi og milljónir verkamanna höfðu vinnu við verksmiðjurnar miklu í Detroit, Dearborn og Kenosha. (GM, Chrysler, Ford og AMC).

Þessi hluti hins bandaríska hagkerfis er nefndur hér, af því að það voru Bandaríkjamenn sem gerðu bílinn að tákni langstærsta iðnaðarveldis heims og ameríska draumsins.  

Það voru kjósendur á þessu svæði sem gerðu honum kleyft að fá meirihluta kjörmanna út á minnihluta kjósenda, nánar tiltekið þremur milljónum færri atkvæða en Hillary Clinton. 

Eina leiðin sem hann sér til þess að laða fram þennan horfna "mikilleika" er að slá niður þær mengunarkröfur og kröfur til heilnæms umhverfis og sjálfbærra atvinnuvega sem hafa að hans dómi valdið því nánast einar og sér að Ameríka sé ekki lengur frábærust og mikilfenglegust. 

Ásamt því að draga sig út úr samvinnu þjóða í tollamálum og fleiri alþjóðlegumm viðfangsefnum, skilur hann þegar eftir sig afnám fjölda takmarkana á því að eitra og spilla umhverfinu, bara til þess að stóriðjufyrirtækin fái að leika sem lausustum hala.  

Það er sennilega einsdæmi í heimssögunni að eitt stórveldi skuli skera sig frá órofa samstöðu nær allra ríkja heims, sem á sér engin fordæmi, 195 ríki.

Eina smáglætan í málinu hvað Bandaríkin varðar er að það var Kaliforníuríki, sem ruddi brautina á sjöunda áratugnum fyrir að koma böndum á loftmengun, sem var orðin stórlega heilsuspillandi og fólst í þokulofti af sóti og útblæstri sem lék um borgir þess ríkis. 

Um margra ára skeið neyddust bandarískir bílaframleiðendur til að framleiða bíla, sem voru sérstaklega útbúnir til að standast kröfur Kaliforníuríkis. 

Með tímanum fylgdu æ fleiri fordæmi Kaliforníubúa þannig að í dag hefði maður ætlað að enginn myndi láta sér detta í hug að færa klukkuna afturábak. 

En sú hefur orðið raunin, óþyrmilega vægast sagt. 

Eina vonin núna er að í krafti mikils mannfjölda í ríkjum eins og Kaliforníu, verði hægt að gera svipað og byrjað var að gera um 1970 til að fá önnur ríki í BNA til að taka sönsum. 


mbl.is Ákvörðun Trump „mikil ógn við Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins of stór biti?

Aldrei fyrr í réttarfarssögu landsins hafa neitt viðlíka margir dómarar verið ráðnir á einu bretti. 

Og þar að auki um að ræða heilt nýtt dómstig. 

Það er rétt hjá Birgi Ármannssyni að enda þótt sérstök matsnefnd geri tillögur um það hverjir hljóti hinar nýju stöður, hefur ráðherra heimild til þess að víkja frá þeim, ef hann telur, eftir vandlega athugun, að færa megi gild rök fyrir breyttri veitingu. 

En Birgir nefnir ekki, að Alþingi þarf lögum samkvæmt að samþykkja tillögur dómsmálaráðherra og því fylgir svipuð heimild til afskipta. 

En þingið hefur aðeins haft tvo daga til að kynna sér útttekt matssnefndarinnar og mat ráðherrans, og þegar íhugað er flækjustig málsins varðandi alls 33 umsækjendur, sem matsnefndin lagði mat á, er augljóslega verið að kasta til höndum. 

Ekki síst þegar um svo rótttæka aðgerð er að ræða í einu tilvikinu að ráðherra tekur umsækjanda, sem lenti í 30. sæti hjá valnefndinni, fram yfir umsækjanda, sem lenti í 7. sæti. 

Spurningin er hvort þetta mál sé aðeins of stór biti fyrir þingið á svona stuttum tíma á sama tíma og allt er á útopnu þar vegna fjölda málanna, sem verið er að afgreiða fyrir þinglok. 

Margt af því sem málsmetandi aðilar innan dómskerfisins hafa haft við ákvörðun dómsmálaráðherra að athuga felur í sér aðfinnslur og gagnrýni, sem taka þyrfti til athugunar. 

Að því er komið hefur fram hafði matsnefndin þá aðferð að meta hinar ýmsu hliðar hæfis umsækjenda, gefa þeim eins konar einkunnir fyrir og í framhaldi af því heildareinkunn. Síðan mælti hún með því að þeir 15 sem urðu efstir, yrðu ráðnir.

En ráðherrann leggur þetta þannig út, að matsnefndin hefði aðeins talið þessa fímmtán hæfa og enga aðra. Og bætir við að það sé mjög grunsamleg tilviljun að þeir skyldu verða fimmtán!  


mbl.is Ákvörðun ráðherra verði rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta kynslóðastökkið núna?

Sem öldungur er áhugavert að horfa til baka á þær tvær kynslóðir sem liggja eftir fólk á mínum aldri. Sjálfur tilheyri ég síðasta árgangi þeirra sem lagt var í á krepputímanum og telst kannski helst til elstu meðlima rokk-kynslóðarinnar.

Við vorum mörg í sveit á sumrin, unnum láglaunastörf með skóla og fórum að búa við fyrsta tækifæri. 

Við töldumst ekki beint til 68-kynslóðarinnar en vorum í sæmilega tengslum við hana. 

Sú kynslóð var enn uppreisnargjarnari og villtari en nokkur önnur kynslóð 20. aldarinar, en í textanum "Frelsi" sem Mánar fluttu, reyni ég að lýsa hugsunarhætti hippaáranna, en þó með fyrirvörum þess sem var aðeins eldri. 

Við áttum flest börn okkar snemma og það var "baby-boom" í þeim efnum.  

Börnin urðu fullorðin og festu ráð sitt og fimm þeirra byrjuðu að búa á árunum 1980-1995 en það yngsta rúmlega áratug eftir það. 

Falla því flest undir X-kynslóðina.

Barnabörnin komu síðan á árunum 1983-2010 og það er hægt að nefna þá kynslóð sófakynslóðina eða kannski öllu fremur netheimakynslóðina.  

Það er löngu liðin tíð að kaupstaðabörn séu í sveit á sumrin og verkamannavinna með handafli hvarf upp úr 1960.

Kannski er að bresta á stærsta kynslóðastökkið síðan 68 kynslóðin fór hvað mestum hamförum.

Þekkingar- og reynsluheimur unga fólksins núna er að miklu leyti nýr, - netheimar hafa tekið að stórum hluta við mannheimum,- og upplýsingaöflun og menntun á nýju stigi.

Þessi kynslóð afabarna minna væri þegar búin að eiga á annan tug langafaberna ef hún hugsaði og hegðaði sér svipað og eldri kynslóðir.

En það segir sína sögu, að aðeins eitt langafabarn er komið, og það hjá dótturdóttur, sem er hvað aldur snertir inni í miðjum barnabarnahópnum.Sólarlag 31.maí 17

Bræður mínir tveir stofnuðu fjölskyldur 16-17 ára og ein systir mín á níu börn.

En barnabörnin hafa snúið gömlu tímaröðinni við; fyrst er að mennta sig og klára háskólanám á þrítugsaldri, síðan að skoða heiminn og upplifa sem flest, en síðast á blaði er að stofna fjölskyldu og eignast eigið húsnæði.

Fæðingartölurnar sýna þetta stóra kynslóðastökk; frjósemin hefur aldrei verið minni en hjá þessari kynslóð, sem kalla mætti "sjálfukynslóðina", eða "the Selfies generation".

Myndin á síðunni, sem ég ætla að láta fljóta með, er smellt af sólarlaginu í kvöld, upplifuninni sem felst í því að fá að vera til og njóta þess sem maður fær að gjöf.

Bjartasti mánuður ársins, júní, er að ganga í garð.

 

Gróandi vorið gleðiríkt, -

glóandi hnöttur skær, -

ekkert sólarlag öðru líkt, -

unaður hreinn og tær.    


mbl.is Hvað varð um X-kynslóðina?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband