Heppilegur staður, sem leysir vanda.

Jón Grétar Sigurðsson hefur um árabil staðið sig vel í því að byggja upp aðstöðu fyrir ferðaþjónustu sunnan við Þjóðveg eitt þar sem hann liggur sunnan við Skaftafell. 

Nú er þessi dugnaður hans og þar á undan dugnaður hjónanna Önnu Ragnarsdóttur og Jóns Benediktssonar við uppbyggingu í Freysnesi að skila sér. 

Þarna er ákjósanlegt flugvallarstæði og þannig í sveit sett, að flug til og frá flugbrautunum þarf ekki að vera umtalsverð truflun fyrir ferðafólk í þjóðgarðinum, því að helstu náttúruperlur þess eru allar norðan við þjóðveginn. 

Umferð um veginn með sínum umferðarhávaða er álíka mikil truflun og flugumferðin, sem er heldur fjær en landumferðin. 

Yfirleitt er þjóðgörðum skipt í mismunandi svæði eftir því hve mikil röskun er af mannavöldum innan þeirra. 

Flokkunin felur í sér fimm flokka, og mannvirkin neðan brekku í Skaftafelli, í Freysnesi og við hringveginn og flugvöllinn falla inn í þann flokk, sem er með þolanlega röskun, af því að hún er að öllu leyti afturkræf. 

Og með því að byggja þarna upp er verið að létta af vaxandi ágangi upp við Skaftafellsbrekkurnar, þar sem þjóðgarðsmiðstöðin er. 

Síðar meir væri alveg mögulegt að færa þjóðveginn og flugvöllinn sunnar, ef menn vildu minnka hávaða frá umferð á landi og í lofti og færa umsvifin vegna vaxandi ferðamannastraums enn fjær brekkunni. 


mbl.is Flugstöð rís í Skaftafelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðsheildin ræður mestu.

Á þjóðhátíðardaginn er við hæfi að fjalla um þá, sem hafa varpað skæru ljósi á land og þjóð.

Þar hafa landslið í boltaiþróttum verið áberandi á þessari öld.

Boltaíþróttir eru flokkaíþróttir og það er alveg sama hvað einn leikmaður er góður, að hann getur ekki unnið leiki einn án þess að samleikurinn, ógn frá öðrum leikmönnum í sókn og samvinna í vörn, fylgi með. 

Þrjú nöfn koma upp í hugann, Gylfi Þór Sigurðsson í knattspyrnu og handboltamennirnir Ólafur Stefánsson og Aron Pálmarsson.

Gott dæmi um að afburðamaður í hópíþrótt njóti sín því aðains ao samvinna hans og annarra í liðinu séu góð, er samvinna góðs markvarðar og varnarinnar í handbolta, þar sem vörnin auðveldar markverðinum að verja skot með því að lokka skotmenn andstæðinganna til að skjóta þannig á markið, að staðsetning og viðbrögð markvarðarins nýtist sem best. 

Nú gengur íslenska landsliðið í gegnum erfið kynslóðaskipti þar sem eldri leikmenn eru á lokaferli sínum í landsliði og nýir óreyndir menn að koma inn. 

Slík skipti geta tekið nokkur ár, og jafnvel þótt Aron Pálmarsson njóti sín til fulls í liði, sem er örskammt frá því að vera það besta í Evrópu, er erfiðara að nýta hæfileika hans hjá landsliði sem í viðkvæmri umbreytingu. 

Besta dæmið um að Íslendingur sem þá var vafalítið besti leikmaður í heimi, hafi notið sín til fulls í topplandsliði Íslands og hjá Evrópumeisturum Magdeburg, er Ólafur Stefánsson þegar hann var á hátindi ferils síns. 

Í úrslitaleik Magdeburg snerist allt um Ólaf í sókn og vörn, en ástæðan fyrir því að andstæðingarnir gátu ekki tekið Ólaf úr umferð, var sú, að aðrir leikmenn voru svo góðir, að það varð líka að gæta þeirra allra til fulls.

Ef við Íslendingar værum nú með svipað gæða landslið og var í kringum Ólaf Stefánsson á sinni tíð, nytu stórkostlegir hæfileikar Arons Pálmarssonar sín betur en þeir gera nú.

Hann er óheppinn að landsliðið skuli í heild ekki vera jafn gott nú og það var þegar "silfurdrengirnir" gerðu garðinn frægan. 

 


mbl.is Segir Aron vera besta leikmann í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á stórfelld tilraunastarfsemi að renna ljúflega í gegn?

Það hefur komið fram að sú framleiðsluaðferð, sem Silicor Materials ætlar að nota á Grundartanga sé alveg ný uppfinning, sem valdi nær engum umhverfisáhrifum. 

Svo virðist sem mikill vilji sé fyrir því að láta fyrirtækið komast upp með að fara í þessa stóru framkvæmd sem allra ljúflegast á forsendum, sem skilað er á pappírum. 

Og sagt er að það skipti engu máli hvort mat á umhverfisárhrifum fari fram eða ekki, né heldur skipti máli hver niðurstaða þess verði, verksmiðjan verði samt örugglega reist. 

Fyrirtækið hefur gefið loforð út og suður ár eftir ár um að fjármagna verkefnið og borga tilskilin gjöld án þess að standa við eitt eða neitt. 

Fortíð fyrirtækisins sýnir að við þessu mátti búast, en samt segja íslenskir viðsemjendur fullum fetum að verksmiðjan muni rísa. 

Þetta minnir á það þegar sveitarstjórinn í Vesturbyggð marg endurtók fyrir tæpum áratug að það væri 99,9% fullvíst að risa olíuhreinsistöð yrði reist í Hvestudal við Arnarfjörð. 

Sú yfirlýsing hefur aldrei verið afturkölluð. 

Formlega hefur heldur aldrei verið hætt við reisa álver Norðuráls í Helguvík, sem krefjast myndi virkjana allt frá Reykjanesi upp á miðhálendið og austur í Skaftafellssýslur. 

Og norður í landi kaupa kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki og aðrir upp allar "virkjanajarðir" sem hægt er að krækja í til að reisa álver milli Blönduóss og Skagastrandar, sem enn er stefnt að að reiaa. 


mbl.is Ógilti ákvörðun Skipulagsstofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband