Tvíbent tákn.

Þegar ég dvaldi í Kaupmannahöfn í sex vikur sumarið 1955 kom tvennt mér spánskt fyrir sjónir: 

Þar var danskur coladrykkur Jolly cola, eini coladrykkurinn á markaðnum. 

Og þar voru nánast engir amerískir bílar. 

Þegar ég sagði hjónunum, sem ég dvaldi hjá, frá amerísku bílunum á Íslandi og Coca-Cola, voru þau vantrúuð, einkum á hið fyrrnefnda. 

En þessi drykkur kom sem sé fyrr og af meiri krafti til Íslands en flestra annarra Evrópuríkja, enda var helsti forsvarsmaður Vífilsfells, Björn Ólafsson, ráðherra og kallaður Coca-Cola Björn. 

Þetta vörumerki er svo samgróið amerískri og vestrænni nútímamenningu, að það er víða tákn fyrir bæði gott og illt sem kemur frá Vesturlöndum. 

Í tveimur ferðum til Eþíópíu, sem er svo vanþróað land, að hagkerfi þess er álíka stórt og Íslands, þótt Íslendingar séu næstum 300 sinnum færri, vakti tvennt mikla athygli mína. 

Í landinu voru nær engar einkaflugvélar en hins vegar öflugt flugfélag, sem var stolt landsins, Ethiopian Airlines, rekið og þróað með bandarískri hjálp.

Hins vegar voru stórar Coca-Cola verksmiðjur í Eþíópíu, að það var sama hvar maður kom í landinu, jafnvel í strákofaþorp þar sem fólk og fénaður drápust vegna vatnsskorts, að alls staðar var Coca-Cola á boðstólum. 

Kannski ekki eins mikið drukkið af almenningi og hjá okkur þar sem hin skæða og heilsuspillandi tvöfalda fíkn, koffein og viðbættur sykur, eru lykillinn að vinsældum drykksins. 

Og þegar maður horfði upp á neyðina í einu þorpinu vegna vatnsskortsins, spurði maður í stíl við hinnar frönsku Maríu Antoinette forðum:

Af hverju kaupir fólkið ekki kók til að slökkva þorstann?

Og fékk einfalt svar við þessari heimskulegu spurningu: "Af því að það á ekki peninga." 

Í þessu litla dæmi felst kannski vísbending um það af hverju þessi þekktasti gosdrykkur allra tíma hefur á sér misjafnt orð. 


mbl.is Dagur fagnaði afmæli Coca-Cola á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifðu af tvö flugslys á sama deginum.

Tilviljanir þegar um líf eða dauða er að tefla eru oft svo ótrúlegar, að ritskáld kæmist varla upp með það að setja það í skáldsögu. 

Fyrirsögnin "lifði af flugslys en lést við björgun" er að vísu háð því að slysinu ljúki þegar björgun tekur við. 

En líklega er eitt ótrúlegasta atvikið af þessu tagi þegar fjögurra sæta flugvél brotlenti á Mosfellsheiði að vetrarlagi fyrir tæpum fjörutíu árum, en flugmaðurinn og farþegarnir, finnskar konur, komust lífs af. 

Send var stór björgunarþyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli til að bjarga fólkinu en þegar hún hóf sig til lofts með það um borð, fataðist henni flugið, svo að hún brotlenti ekki langt frá flugvélarflakinu. 

Fólkið lenti sem sé í tveimur flugslysum með stuttu millibili en lifði bæði slysin af eftir að björgunarleiðangur á landi var sendur á vettvang


mbl.is Lifði af flugslys en lést við björgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mývatnslykt af þessu fúski.

Ógilding starfsleyfis sjókvíaeldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi rímar ekki við stanslausan söng fiskeldismanna um að hér á landi sé alls staðar fylgt í hvívetna ströngustu kröfum "með besta fáanlega búnaði og aðferðum, sem þekkjast." 

Þvert á móti koma aftur og aftur í ljós fúsk og yfirhilmingar líkt og gerðist við Mývatn varðandi frárennslismál og aðra aðför að vatninu og lífríki þess.

Það er ákveðin lykt sem gýs upp af fúski sem kenna má við Mývtan, enda er þetta fyrirbæri líka í gangi varðandi fleiri framkvæmdir, svosem línulagnir á svæðinu.

Að ekki sé talað um það, að enn hefur ekkert verið gefið út um það að Landsvirkjun ætli að hætta við að reisa 90 megavatta gufuaflsvirkjun skammt frá austurbakka vatnsins.

Þetta er svona alls staðar, þrátt fyrir viðleitni fólks, sem tók við gerðum hlut þeirra sem óðu fram með látum á fyrsta áratug aldarinnar með allt of stórar gufuaflsvirkjanir á Reykjanesskaganum. 

Með því framferði voru hendur þeirra, sem reyna að vinna úr þessum vanda og eiga enga sök á því hvernig komið er, bundnar. 

Nú hefur hulunni verið svipt af rányrkjunni og ógöngunum, sem fólust í gerð allt of stórra orkusölusamninga til allt of langs tíma.

Og fyrir næstum því tilviljun kom það upp fyrir tveimur mánuðum, að viðkomandi jarðvarmasvæði hafa á örfáum árum sigið um allt að 18 sentimetra og sjór farinn að ganga á land vestan við Grindavík þrátt fyrir staðfasta afneitun hjá HS orku.

Og orkufall um fimmtung til fjórðung staðreynd sem reynt hefur verið að þegja yfir.   


mbl.is Starfsleyfi sjókvíaeldis ógilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband