"Fúskið" er lúmskt fyrirbæri.

Einn þeirra flokka, sem standa að núverandi ríkisstjórn, gerði það að einu að höfuð verkefni sínu, að draga úr því "fúski" sem viðgengist hefði hjá ríkisstjórnum og Alþingi síðustu ár. 

En fúsk er lúmstkt fyrirbæri þegar menn eru í tímahraki og glíma við skort á tíma og vinnukrafti. 

Síðan hlýtur það að teljast afbrigði af fúski, að í máli, sem snertir beint lögbundið hlutverk Seðlabankans um seðlaútgáfu og seðlaprentun eigi bankinn engan fulltrúa eða aðkomu að starf nefndar um svarta atvinnustarfsemi. 

Sem dæmi um að það er meira en að segja það að hætta notkun seðla, svo sem tíuþúsund kallsins, má nefna, að fyrir nokkrum dögum þurfti ég að öngla saman fyrir framleiðslukostnaði á 72ja laga fjögurra diska hljómdiskaalbúns með heitinu "Hjarta landsins - náttúran og þjóðin", - eingöngu lögum úr smiðju minni um náttúru og tengsl lands og þjóðar. 

Svona framleiðsla er nú komin úr landi og verður að greiða kostnaðinn í einu lagi þegar framleiðslan hefst. 

Í ljós kom, að til að borga heildarupphæðina þurfti að færa 120 þúsund krónur af kreditreikningi yfir á debetreikning til þess að þetta gæti gengið í gegn. 

Þegar í banka kom varð ljóst að þjónustufulltrúar þar gátu ekki gert þetta, heldur væri eina leiðin að fara í hraðbanka, sem væri með möguleika til að leggja inn og taka út í seðlum. 

Fyrst þurfti að taka upphæðina út af kreditreikningnum og síðan að leggja hana inn, seðil fyrir seðil, inn á debetreikninginn. 

Í lokin var þriðja aðgerðin, að millfæra af debetreikningum. 

Það var svolítið skondið að þurfa einmitt að standa í þessu seðlaveseni þegar verið var að viðra hugmyndir um að leggja peningaseðla niður. 


mbl.is Tíu þúsund kallinn ekki á förum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of tilfinningaþrungin umferð.

Tölur sýna að það er tvöfalt meiri lífshætta að vera ökumaður á vélhjóli en bíl, - ef báðir eru miðlungs ökumenn hvað varðar hegðun. Á myndbandi af rimmu milli vélhjólamanns og bílstjórna frá Bandaríkjunum sést að vísu ekki aðdragandi árekstrsins, en vélhjólamaður brýtur fyrsta boðorðið um hegðun á vélhjóli, með því að sparka bíl við hliðina á sér. 

Það er nefnilega hægt að aka þannig á vélhjóli, að líkur á banaslysi verði jafnar því sem eru undir stýri á bíl. Fara þarf eftir fimm meginreglum: 

1. Vera allsgáður. Helmingur banaslysa á vélhjólum er vegna ölvunar knapans, miklu meiri en á bíl. 

2. Gera ráð fyrir að enginn sjái hjólið og að hver einasti ökumaður kunni að taka upp á einhverju óvæntu. 

3. Vera með nægan öryggisbúnað, lokaðan hjálm, vélhjólaklossa og aðrar varnir. 

4. Vera æfður á hjólinu. 

5. Hafa réttindi á hjólið. 

Með sparkinu utan í bílinn brýtur vélhjólamaðurinn reglu númer tvö. 

Það að ökumaðurinn beygir snöggt fyrir hjólið er síðan í raun alvarleg árás í krafti yfirburðastöðu ökumanns bíls gagnvart hjóli. 

Umferðin er oft um of þrungin tilfinningum, tillitsleysi, frekju og skapsmunum. 

Myndskeiðið að ofan er ansi gott dæmi um það. 


mbl.is Reiðir ökumenn ollu stórslysi (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hekla getur gosið eftir klukkustund.

HeklaHekla getur gosið eftir klukkustund hvenær sem er, til dæmis innan klukkustundar frá því að þessi pistill er skrifaður eða lesinn. 

Hekla gaus 1947, 1970, 1980-81, 1991 og 2000. Núna eru liðin nokkur ár síðan fjallaið "komast á tíma", þ.e. hefur lyfst jafnhátt og það stóð fyrir síðasta gos. 

Þrátt fyrir stórkostlega tækni við að spá fyrir um eldgos, er það misjafnt eftir eldfjöllum. 

Hvað Heklu snertir er viðbragðstíminn aðeins um klukkustund, og var það síðast árið 2000. 

Hundaheppni getur ráðið því, bæði til góðs eða ills, hvar fólk eða farartæki eru stödd þegar fjallið gýs. 

Sem dæmi má nefna að ég var að ganga upp landgang áætlunarvélar frá Reykjavík til Akureyrar í febrúar 2000 þegar ég heyrði í sex-fréttum RÚV í litlu útvarpstæki mínu, að Hekla myndi gjósa innan klukkustundar, jafnvel eftir hálftíma. 

Með því að semja við flugstjórann samþykkti hann að taka sveig á leiðina norður til þess að ég gæti tekið mynd út um gluggann af mekkinum sem þá reis langt upp fyrir skýjahuluna sem annars byrgði sýn til fjallsins af jörðu niðri og í neðri flughæðum. 

Sem sagt: Fyrstu loftmyndir af gosinu þegar það var nýbyrjað. 

Strax frá árinu 1999 voru gerðar ráðstafanir vegna nýrra hræringa í Eyjafjallajökli, sem gátu orðið til þess að fjallið gysi eftir meira en einnar og hálfrar aldar hlé. 

Síðan gaus það 2010 eins og heimsbyggðinni er í minni. 

Enginn átti von á berghlaupinu risastóra í Öskju fyrir nokkrum árum og voru þeir, sem voru á ferli þar heppnir. 

Hugsanlega var það lítil flóðbylgja vegna hlaups úr bakka Öskjuvatns sem hvolfdi bát þýsku vísindamannanna Knebels og Rudloffs 1907, en hvarf þeirra hefur æ síðan verið mönnum ráðgáta og valdið meintum reimleikum á svæðinu.

Vegarstæðið um Almenninga á Siglufjarðarleið sígur jafnt og þétt og óþægilegt er að vita af því.  

Einn af stærstu jarðskjálftum í sögu lands okkar getur hvenær sem er dunið yfir á Húsavík, nokkurn veginn nákvæmlega þar sem verið er að reisa kísilver. 

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur varað við þessu og lagði til að reynt yrði að reisa verið fjær þessum miðpunkti en án árangurs. 

 


mbl.is Næsta hlaup tímaspursmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband