Hvað um klæðningar í öðrum löndum en Bretlandi?

Þegar hafður er í huga fjöldi þeirra háhýsa í Bretlandi, sem þegar hefur verið upplýst um að vera með eldfimar klæðningar, er sérkennileg sú þögn sem ríkir um svipuð hús í öðrum löndum. 

Bretar eru innan við 10% Evrópubúa og hér á landi hefur verið upplýst um svipaðar klæðningar á húsum, en þó ekki jafn háum og í Bretlandi. 

Kom fram í fjölmiðlaumfjöllun um þau, að húsin væri það lág að ekki væri hætt á viðlíka hamförum og í London og þar af leiðandi ekki hættu á manntjóni. 

Raunar kallar það svar á nánari útskýringu af hverju hægt sé að sætta sig yfirleitt við klæðningar sem séu lítt eldþolnar. 

Og á öld mikilla alþjóðlegra viðskipta þar sem Bretland hefur enn ekki gengið úr ESB má furðu gegna ef hvergi finnist annars staðar en hjá Bretum klæðningar af þessu tagi á svipuðum húsum. 


mbl.is 120 háhýsi standast ekki kröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "stöðugleikinn" lognið á undan storminum?

Á yfirborðinu ríkir blíðviðri í íslenskum efnahagsmálum. Hækkun gengis krónunnar gerir það yfirleitt óþarft fyrir seljendur vöru og þjónustu, sem tekin er með í vísitöluna, að hækka verðið og þar að auki gefur þessi gengishækkun svigrúm til þess að komast hjá því að lækka verðið í takt við raunverulegt innkaupsverð til landsins. 

Verðbólgan er lítil sem engin og það gerir að verkum að umsamdar launahækkanir skila sér betur til launþega en ella. 

En tvennt má nefna sem ógnar þessu líkist óveðursbliku sem er að draga á loft áður en stormur skellur á. 

Annars vegar áhrif gengishækkunarinnar á þá atvinnuvegi sem keppa við verðlag samkeppnisaðila erlendis og missa samkeppnishæfni við hækkun gengis. 

Að því hlýtur að koma að bakslag verði 

Hins vegar, og ekki síður ógnvænlegt, er ef að nýju fer af stað kapphlaup launa og verðlags í kjölfar skammsýnislegs úrskurðar Kjararáðs. 

Í því ráði sitja menn sem eru óbeint að taka þátt í verðlagningu eigin launa þegar það ákveður laun fólks á sama launasviði og það sjálft er. 

Ef og þegar blaðran springur vegna óánægju annarra hópa launafólks, sem finnst það sitja eftir, er fjandinn laus. 

Hækkun launakostnaðar almennt, meðal annars hjá útflutningsgreinum og ferðaþjónustu, mun þá bætast við afleiðingarnar af hækkun gengis krónunnar og ný kollsteypa af gamalkunnum toga skella yfir eftir að yfirborðslegur stöðugleiki hefur reynst lognið á undan storminum. 


mbl.is Hrundið af stað nýju „höfrungahlaupi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Las Vegas var breytt.

Er það eingöngu jákvætt með tilliti til gróða af ferðaþjónustu að gera það sem allra dýrast að komast á magnaða áfangastaði? Veiðivötn júní 2017

Sumir halda því fram að keppa beri að því að ná sem mestu af hverjum erlendum ferðamanni og lokka þá, sem eru ríkastir hingað. 

En bitnar það þá ekki á þeim stöðum sem fjær liggja? 

Ekki verður um það deilt að borgin Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum er einhver ofhlaðnasta og yfirgengilegasta borg heims. Upp úr miðri síðustu öld var hún orðin að miðstöð skemmtanalífs af öllum toga, - þar létu frægustu stjörnur kvikmynda, tónlistar og íþrótta ljós sitt skína. 

En það var eftir því dýrt að koma þangað.

Þegar ég fór til Los Angeles 1968 til að skemmta Íslendingum, greiddur þeir flugfarið, og ég datt þá niður á ferðaskilmála þess efnis, að ef ég kæmi til fimm borga í fimm ríkjum í ferðinni, fengist helmings afsláttur á fargjaldi. 

Þær urðu New York, Washington, El Paso, Los Angeles, San Fransisco og Salt Lake City. 

Gerólíkar, - El Paso landamæraborg með mexíkóskum áhrifum. 

Það var að vísu upplifun að koma til Las Vegas, en á móti kom að einn sólarhringur og gistinótt þar var næstum jafn dýr og á öllum hinum stöðunum til samans. 

Að sönnu var ágætur gróði fyrir borgarbúa að gera borgina svona dýra, en þegar næst var komið til borgarinnar um síðustu aldamót, var þetta gerbreytt, og borgin hafði meðvitað verið gerð að mjög hagstæðum áfangastað og fjölskylduvænum. 

Gisting ekki dýr og í nágrenni borgarinnar víða mjög ódýr. 

Borgin orðin vinsælli en fyrr fyrir bragðið, enda varla hægt að hugsa sér hrikalegri "leikjasal" með eftirlíkingum af pýramídunum, London Bridge, Eiffelturninum og öðrum frægustu mannvirkjum heims á hverju götuhorni og gatan "The Strip" eftir endilangri borginni þannig úr garði gerð, að upplifun ímhyndunar og fáránleika sést þar meiri en nokkurs staðar annars staðar. 

Og möguleikar til afþreyingar eftir því. 

Orðspor er oft gulls ígildi og í Las Vegas hefur orðið mikil breyting á aðferðum við að laga orðsporið en fjölga jafnframt þeim sem finnst ágætt að setja sérkennilega upplifun af þessum sýningarsal fáránleikans í safn minninganna. 

Áður hefur því verið lýst hér á síðunni að það sé ekki einhlítt að eftirsóknarverðast sé að ná sem mestum peningum af hverjum ferðamanni og nefnd dæmi um hið gagnstæða. 

Það getur verið neikvætt að gera allt svo dýrt, að ferðafólk verði að neita sér um margt það sem gæti eflt orðspor lands og þjóðar. 

Til dæmis að komast til staða eins og Veiðivatna, en þar var yndislegt að vera í gær. 


mbl.is Reykjavík ein sú dýrasta í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar "síldin lagðist frá."

Nokkrum árum eftir algert hrun norsk-íslenska síldarstofnsins heimsótti ég Raufarhöfn og gerði um það einn af þáttum sjónvarpsins sem báru heitið "Heimsókn". 

Athyglisvert var hvernig menn töluðu um þetta mikla hrun. Þeir sögðu "eftir að síldin lagðist" en ekki "eftir að síldinni var eytt."

Áratugir liðu og síldin hélt áfram að fela sig á þeim stað, sem hún hafði fundið, þegar hún lagðist frá. 

Hún hafði aldrei verið drepin, ónei. 

Menn horfðu út á hafið. Einhvers staðar þarna úti, liklegast í norðri, var hún ennþá öll. 

Því að þar gat hún falið sig undir hafísnum, svo að það var ekki hægt að finna hana á asdicinu. 


mbl.is Síldarstofninn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband