Hefði verið betra að sá lúpínu þarna?

Í hjólaferðalaginu með plötusettið Hjarta landsins - náttúran og þjóðin ber ýmislegt athyglisvert fyrir augu. Léttir, Freysnesi 10.7.17

Nú ái ég skamma stund í Freysnesi og rétt áðan var brunað yfir Skeiðarársand.

Eftir hamfarahlaupið mikla niður á Skeiðársand haustið var hroðalegt um að litast á stórum svæðum á sandinum.   

Flóðið bar þykkan aur um allan sand og þegar hann þornaði og það hvessti geysuðu miklir sandstormar þar næstu misserin. 

Engan hefði órað fyrir öðru en þetta stóra flæmi yrði enn nöturlegra en nokkru sinni fyrr um ókomna tíð og að þar myndi aldrei þrífast stingandi strá. Skeiðará-sandur, birki

Sem betur fór voru flestir leirstormanna í þurrum norðanáttum og fljótlega kom að því að mest af aurnum hafði fokið burt. 

Á tímum mikillar ástar á lúpínunni og í ljósi mikils árangurs af henni á Mýrdalssandi hefði kannski verið talið heillaráð að nota hana í miklum mæli á Skeiðársandi. 

En nálægðin við þjóðgarðinn og Bæjarstaðaskóg varð kannski hemill á það að hafin væri þarna lúpínustórsókn. 

En þá brá svo við að birki fór að sá sér á sandinum í bland við vaxandi mosa. 

Þetta var algerlega á íslenska veginn, þótt hægt færi, og alls ekki eins hratt og lúpínan hefði gert.

Að vísu í litlum mæli í fyrstu en síðan hraðvaxandi. 

Nú er svo komið, að maður sér greinilegan hæðarmun á birkinu á milli ára. 

Ég smellti einni mynd áðan á sandinum en var ekki í góðri aðstöðu til að skoða árangurinn og sé nú að hún er ónothæf nema til að mynda afar grófgerða hugmynd um skóginn, sem er að vaxa þarna upp. 

Það vekur eina af spurningum sem kemur upp í deilum manna um lúpínuna, hvort það sé ævinlega eina leiðin til þess að land grói upp, að fela lúpínunni það einni. 

Og hvort ekki sé mikið verk óunnið í því að vaða áfram með hana skipulagslaust sem allra víðast án þess að efla stórlega þær rannsóknir og aðgerðir, sem geti komið böndum á stjórnleysið. 


Margar slysagildrur í sólinni.

Á fyrsta áfanga kynningar og tónleikaferðar 2000 kílómetra hringina tvo í íslenska vegakerfinu var strax skautað á fullri ferð út á flughált nýlagt malbik, nokkurra kílómetra langt vestan við Sandskeið og síðan mun óvænna í hringtorginu við Hveragerði. 

Mér er kunnugt um alvarleg vélhjólaslys á svona köflum, sem eru hættulegir og flughálir við öll skilyrði, en þó einkum í steikjandi sólskini eða rigningu. 

Það ætti að vera skylda að setja upp aðvörunarmerki tímanlega fyrir ökumenn þegar þeir koma að svona stöðum. 

Svo hált er á svona köflum, að um daginn þegar ég ætlað að taka rólega af stað við ljós á nýju malbiki spólaði hjólið samt, og er það í eina skiptið sem slíkt hefur gerst hjá mér eftir að ég byrjaði á því fyrir ári. 


mbl.is Sólríkt og 20 gráður í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband