Ekki fluga á ferð við Mývatn.

Það vakti athygli mína á ferð í gegnum Mývatnssveit í gær, að ekki var flugu að sjá né að finna fyrir. 

Þegar ekið er á vélhjóli á fullri ferð er varla hægt að hugsa sér betri leið til að finna fyrir því hvort mikið er af flugum á ferð. 

Við viss skilyrði bylja þær eins og smásteinar bæði á plastinu á hjálminum og vindhlífinni framan á hjólinu eða klessast þar og mynda grænar skellur.  

Auðvitað finnst flestum mýið við þetta fagra vatn hvimleitt þegar það myndar stróka og þessar smágerðu flugur smjúga um allt, nema fólk verji sig því betur með flugnaneti. 

En á móti kemur, að mýið er nauðsynlegur hluti af hinu heimsþekkta lífríki vatnsins og vatnið dregur einfaldlega nafn sitt af því. 

Það er því hluti af nauðsynlegri upplifun þess, sem komið hefur um langan veg til að kynnast þessu magnaða fyrirbæri. 


mbl.is Veðrið stjórnar veru mýflugna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellin og kerfisvilla leika grátt einn af stórmerkilegum bræðrum.

Allir þekkja Gylfa Ægisson og tónlistarverk hans. Færri vita að hann á tvo bræður, sem ekki eru síður merkilegir listamenn á sviði ljóðagyðjunnar, Lýð og Sigurð. 

Þeir eru alveg einstakir menn, þessir bræður, og hafa glatt og snortið ótal hjörtu um ævina með ljóðasnilli sinni. 

Því miður vita ekki nógu margir um það sem þeir hafa lagt af mörkum til að gleðja fólk í kringum sig og lífga upp á tilveruna. 

Stundum segi ég frá ljóðrænum samskiptum okkar Lýðs sem var nokkurs konar hirðskáld Hrekkjalómafélagsins í Vestmannaeyjum. Ævinlega hrífst fólk af tilþrifum hans og ég er honum þakklátur fyrir að hafa lagt mér til perlur sínar. 

Það er dapurlegt í okkar svonefnda allsnægtarþjóðfélagi ef Lýður Ægisson er grátt leikinn af kerfi samfélagsins á gamals aldri. Hér er greinilega kerfisvilla á ferð.  

Það snertir streng í hjarta þeirra, sem hann þekkja, að frétta af því hvernig komið er fyrir honum, og ekki gott til þess að vita ef fleiri kerfisvillur leynast hér og þar í velferðarkerfinu. 

Hið opinbera og stundum flókna kerfi okkar þjóðfélags, sem er utan um aldraða, býr yfir slysagildrum, og ég veit og vona að góðir menn, sem hafa helgað krafta sína málefnum gamla fólksins, muni kippa málum í liðinn, þegar þörf er á.    


mbl.is Þarf að greiða tvöfalt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo stór og spennandi bardagi vegna þess hve óvissan er mikil.

Langt er síðan jafn spennandi, óvenjulegur og stór bardagi hefur verið háður í hnefaleikum og bardagi Conor McGregor og Floyd Mayweather getur orðið.  

McGregor er örvhentur og hin beina vinstri hans er einhver sú hraðasta og harðasta, sem menn hafa séð. 

Vegna þess hve marga hann hefur rotað með þessu höggi og þar með komist jafn oft og raun ber vitni frá því að fara í gólfið, er spennan einstaklega mikil varðandi möguleika Floyd Mayweather að verjast henni. 

En Mayweather býr yfir einhverrri bestu vörn sem þekkst hefur í hnefalaikum og því gæti alveg eins farið svo að bardaginn verði leiðinlegur. 

En það er svolítil mótsögn í því að segja að bardaginn geti orði svo óskaplega spennandi af þessum sökum. 

Það er ekki algengt að heimsmeistarar í hnefaleikum berjist við menn sem hafa komist langt í öðrum bardagaíþróttum, þótt skyldar séu, og það voru talin mikil mistök hjá Muhammad Ali að berjast við japanskan fjölbragðaglímumann án þess að gera það eins og Mayweather, með hönskunum einum. 

Um nokkurrra ára skeið var það ósk margra, að Muhammad Ali berðist við Teofilo Stevenson, kúbverskan hnefaleikara, sem var á tímabili í sérflokki í þungavigt í áhugamannahnefaleikum. 

En þetta var í Kalda stríðinu og samningar náðust aldrei, því miður. 


mbl.is McGregor og Mayweather hittust í Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband