Miklu skárra 1:0 en 2 eða 3:0.

Íslensku stelpurnar sýndu í hinum erfiða leik gegn sterku liði Frakka, að það getur verið til alls líklegt á EM ef þær vinna rétt úr þessum úrslitum. 

Markið kom úr víti, og þá má alveg eins spyrja hvort íslenska liðið átti ekki alveg eins að fá að taka víti eftir franskt brot innan vítateigs í fyrri hálfleik. 

Hinu er ekki að leyna að betra liðið vann, fékk fleiri færi og var tvívegis nálægt því að skora. 

Víkingaklappið og öll önnur umgerð um leikinn af hálfu Íslendinga hefur verið til fyrirmyndar og gefið tilefni til stolts og ánægju. 

Áfram stelpur! Þið eruð á réttri leið og getið þetta!


mbl.is Nístingssárt tap gegn Frökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bakpokalýður" og "skítapakk."

Eitt af þeim fyrirbrigðum, sem löngum hefur reynst drjúgt við að skapa fordóma og illindi í framhaldinu er að skipta fólki í tvo hópa: Við - og - þeir. 

Svæsnustu stjórnmálamenn síðustu aldar nýttu sér þetta, Hitler, Stalín og aðrir. 

Hér um árið var amast við svonefndum "erlendum bakpokalýð" sem kæmi til landsins og ætti svo litla peninga að ekkert fé lægi eftir þá að lok Íslandsdvöl. 

Oftast var þetta námsfólk og þótti það alveg sérstaklega óheppilegt að fá einhvern "hippalýð" inn í landið. 

Þá gleymist alveg það orðspor og auglýsing sem slíkt fólk ber með sér til útlanda og einnig það, að oft kemur þetta fólk aftur til landsins þegar það er orðið vel fjáð eftir að hafa menntað sig. 

Ég hef oft nefnt puttaferðalanginn, sem ég tók upp í á áttunda áratugnum en varð síðan jarðfræðiprófessor og kemur nú með um 30-40 nemendur sína til landsins á hverju ári auk þess sem hann stundar þar fyrir utan rannsóknir og mælingar hér á landi. 

Það eru ekki mörg ár síðan við Íslendingar vorum fullfærir um að míga og skíta út miðborgina um nætur um helgar, og ef útlendingar væru svona miklu verri en við, ætti drullufjaran í Skerjafirði ekki möguleika á móti ástandinu í miðborginni á mesta ferðamannatímanum. 

Ferðir mínar á milljóna útihátíðir erlendis, svo sem í Bandaríkjunum, sýndu mér, að á slíkum hátíðum var ekki að finna svo mikið sem karamellubréf á mótsstað á sama tíma sem ekki þarf nema litla samkomu hér á landi til að allt vaðist út í rusli og óþverra. 

 

Úrgangur útlendinga´er sjúkur

og af því mikill bagi, 

en ef að það er íslenskur kúkur 

er það í góðu lagi. 


mbl.is Urðu fyrir aðkasti í húsbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Muhammad Ali blindaðist í 5. lotu gegn Liston.

Fátt er nýtt undir sólinni og það hefur áður gerst í mikilvægum bardögum í hnefaleikum, að menn hafi blindast. Einna frægast er það þegar eitthvað efni úr herbúðum Sonny Listons fór í augu Muhammads Ali (sem þá hét Cassius Clay) seint í 4. lotu og olli þvílíkum sviða, að Ali ætlaði að rífa af sér hanskana og gefast upp í hléinu. 

Angelo Dundee fékk hann ofan af því, þvoði augun eftir bestu getu og skipaði Ali: "Hlauptu!" 

Það gerði Ali mestalla 5. lotuna og slapp frá hörðum árásum Listons, sem hafði séð hvernig komið var fyrir Ali. 

Í 6. lotu hafði hann yfirburði og Liston gafst upp, sitjandi á stólnum í horni sínu eftir lotuna. 

Þetta hafði áður gerst í bardaga Listons við Eddie Machen nokkrum árum fyrr, sem passaði sig á því að láta á engu bera, þannig að Liston vissi ekki af vandræðum Machens. 

Í hnefaleikum er ekki eins auðvelt og í UFC að krækja fingrum í augu andstæðinga, því að fingurnir eru faldir saman inni í hanskanum. 

Engu að síður er stranglega bannað að slá með opnum hanska og sömuleiðis bannað að slá ef andstæðingurinn er kominn á hnén, styður höndum á gólfið eða hangir á köðlunum. 


mbl.is Potaði í augað á Gunnari Nelson - mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband