Villandi fyrirsögn fyrir marga lesendur.

Engin furða er að fréttin með fyrirsögninni "Gunnar fékk 45 daga keppnisbann" sé mest lesin, því að venjulega fá íþróttamenn keppnisbann fyrir brot á reglum eða vítavert athæfi. 

Lesa þarf alllangt inn í fréttina til að sjá hið sanna, að Gunnari var gert skylt að gera keppnishlé öryggis síns vegna. 

Svipað er gert í áhugamannahnefaleikum þegar keppendur fá rothögg eða slæm höfuðhögg. 

Í atvinnumannahnefaleikum taka flestir hnefaleikarar sér minnst sex vikna hlé eftir erfiða bardaga, eða um það bil 45 daga hlé, en öruggara er að hléð sé tvöfalt lengra. 

Þá er fyrri hluti hlésins notaður til svipaðs og þegar fólk verður almennt fyrir meiðslum, svo sem að vera í sex vikur í gipsi meðan brot eru að gróa. 

Sex vikur eru stundum taldar vera lágmarkstími til að koma sér í form, þannig að minnst tólf vikur alls eftir keppni með umtalsverðum meiðslum eru oft taldar vera hæfilegur tími til að komast í viðunandi bardagaform. 

Og dæmi eru um miklu lengri hlé, svo sem þegar Muhammad Ali var í ár frá keppni milli bardaganna við Sonny Liston vegna uppskurðar við kviðsliti. 


mbl.is Gunnar fékk 45 daga keppnisbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn slappur bílstjóri og allir eru í hættu.

Ekki þarf nema einn óvarkáran eða ókláran bílstjóra til þess að valda stórhættu á fjölförnustu mjóu vegunum í vegakarfinu svo að jafnvel lifshætta vofi yfir öllum öðrum vegfarendum á leið hins hættulega ökumanns. 

Nú hrannast upp slys þar sem ökumenn ýmist aka of hratt, kunna ekki að víkja til fulls eða hvort tveggja. 

Meðal meginástæðnanna er vegakerfi, sem er fjarri því að ráða við umferðarmagnið, svo sem vegurinn í gegnum Þingvallaþjóðgarð. 

Slysahættan vex í réttu hlutfalli við fjölgun bíla og fjölgun ökumanna, sem vanmeta aðstæður eða eru ekki færir um að verða á ferð undir stýri í hinu lélega vegakerfi. 

Fulltrúi vegagerðarinnar segir að stórar rútur eigi ekki að vera á ferð á veginum í þjóðgarðinum.  

Þetta er fullkomlega óraunhæft. Menn loka ekki Gullna hringnum fyrir tugþúsundum fólks á þennan hátt.  Það eina sem bílstjórar á svona stórum rútum gætu gert er að aka svo löturhægt, að þeir geti stöðvað rútuna í tíma áður en glanninn eða afglapinn á móti geti valdið árekstri. 

Það myndi að sjálfsögðu hægja mjög á umferðarflæðinu þarna, en yrði þó skárra en að fara safna upp alls kyns árekstrum og óhöppum. 


mbl.is „Þess­ir veg­ir eru stór­hættu­leg­ir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um þjóðsönginn og fánann?

Um fleiri fyrirbrigði gagnvar landi og þjóð en skjaldarmerkið gilda ákveðnar reglur, svo sem um fánann og þjóðsönginn. 

Þjóðsöngvar allra þeirra landa, sem ég hef heyrt, hafa hvorki inngang né viðprjónaðan endi. 

Þannig er íslenski þjóðsöngurinn og spurningin er hvort það væri heimilt fyrir einhvern útsetjara að prjóna framan á hann "intro". 

Gott dæmi um viðprjónað intró er lagið "Nú liggur vel á mér."  Snjall útsetjari lagsins samdi 14 sekúndna langt intro á lagið sem líka er spilað oftar í laginu og í lok þess, og setur svo mikinn svip á það að það er ekki aðeins hálft lagið hvað snertir áhrif þess, heldur jafnvel betri helmingur lagsins. 

Hvað ef einhver snjall útsetjari þjóðsöngsins gerði svipað við hann?

Hvað snertir skjaldarmerkið hefur það verið notað í fleiri merkjum, svo sem í merki Flugmálastjórnar Íslands, þar sem það var illu heilli aflagt og sett í staðinn merki, sem gefa á hvergi nærri eins skýran hátt að vera merki íslenskrar stofnunar eða fyrirtækis. 

Ekki er að sjá að skylt hafi verið að birta gamla, góða merkið ævinlega með hvítum bakgrunni og birtist afar oft á búningum, sem voru svartir eða í dökkum litum.  Flugmála stjórn

Þegar Flugmálastjórn var skipt upp var þetta frábæra merki aflagt, björguðust nokkur þeirra frá glötun, og komst ég fyrir tilviljun yfir nokkur merki og ber eitt þeirra á húfum minni. 

Sem flugmaður get ég ekki hugsað mér betra merki en þetta, með landvættunum, fánanum og vængjum, sem mynda fljúgandi skjaldarmerki. 

Þótt merkið sé á svörtum grunni, finnst mér það skila sér miklu betur en grámyglulega skjaldarmerkið á svarta bakgrunninum sem sjálft stjórnarráðið birtir.

 


mbl.is Skjaldarmerkið birt á rangan hátt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband