Byggðin dreifist í raun þrátt fyrir þéttingu byggðar.

Það þarf ekki að fjölyrða um hagkvæmni þéttingar byggðar og að þess vegna væri hægt að reikna út mikla hagkvæmni við það að öll byggð og sem mest þjónusta og atvinnustarfsemi væri sett í stór háhýsi á sem minnstu svæði.

 

En til þess að það gæti gengið yrði að ríkja harðsvírað miðstjórnarvald þar sem bannað hefði verið strax um 1950 að byggja neitt austan Elliðaáa og sunnan Fossvogar. 

Þegar fólksstraumurinn var sem mestur frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands fyrir daga Berlínarmúrsins, var sagt, að fólkið kysi sér búsetu með fótunum. 

Og hér á landi og í nágrannalöndum okkar kýs fólk sér búsetu með samgöngutækjum sínum. 

Ætli ég verði ekki að teljast ósköp venjulegur fjölskyldufaðir og að ef allt væri með felldu hvað snerti þéttingu byggðar ætti ég ekki heima austarlega í Grafarvogshverfi heldur við Háaleitisbraut þar sem allir mínir afkomendur ólust upp. 

En aðeins eitt barnanna býr í grennd við Háaleitisbraut, einn sonur minn býr erlendis, en öll hin börnin ákváðu að setjast að í úthverfunum og í Mosfellsbæ með alla sína 18 afkomendur. 

Helmingurinn af þessum afkomendum býr í Mosfellsbæ. 

Ef við hjónin ættum heima vestur undir Kringlumýrarbraut værum við í útjaðri fjölskyldubyggðarinnar og mun fjær þeim nær öllum, en við erum núna. Núverandi búseta þeirra þrjátíu sem eru í stórfjölskyldunni, auðveldar öll samskipti okkar. 

Og nú leitar sá eini afkomandi, sem eignast hefur langafabarn, til Reykjanesbæjar eins og svo margt af unga fólkinu gerir um þessar mundir, sem leita þangað sem húsnæði er ódýrast og fljótlegast að komast yfir það, svo sem suður með sjó og í Árborg. 

Samkeppnin um búsetuna einskorðast heldur ekki lengur við atvinnusvæðið á Suðvesturhorninu, heldur við Leifsstöð. 

Fólk flytur einfaldlega til útlanda ef þar bjóðast aðstæður, sem því líkar betur við en hér heima. 

Það er að vísu lengri leið fyrir mig að fara til ýmissa erindagerða vestan Elliðaáa héðan frá austanverðu Borgarholtinu heldur en var frá Háaleitisbraut, en með því að nota að mestu tvenn hjól, rafreiðhjól og létt Honda PCX vespuhjól, hef ég minnkað persónulegan samgöngukostnað minn og kolefnisspor um 70%. 

Hjá svonefndum Samtökum um betri byggð stóð eitt sinn til að leggja fram tillögu á landsfundi Samfylkingarinnar um að banna allar lagningar á nýjum götum og hverfum í útbæjum Reykjavíkur og stöðva með því alla íbúafjölgin þar. 

Ég spurði tillögusmiðinn hvort hann teldi líklegt að hægt væri að þvinga fólk til að flytja inn til miðborgarinnar gegn vilja þess með slíku banni. 

Uppbyggingin í ytri hverfum höfuðborgarsvæðisins byggðist nefnilega á eftirsókn eftir ódýrara húsnæði og dreifðri byggð. 

"Þetta fólk, sem vill endilega vera í dreifðri byggð, getur bara flutt upp á Akranes eða til Hveragerðis" var svarið. 

Sem sagt, betra fyrir hagkvæmnina af þéttari byggð að fólk ætti heima á Akranesi en í Mosfellsbæ? 

Frá Úlfarsdal til þungamiðju byggðar höfuðborgarsvæðisins sem er austast í Fossvogsdal, er álíka langt og frá Vesturbænum í Reykjavík til þessarar þungamiðju. 

Það er nefnilega liðin um hálf öld síðan þessi þungamiðja var við Tjörnina. 140 þúsund af 210 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu, eiga heima austan við Elliðaár og sunnan við Fossvogsdal.  

Og þau 7% af svæðinu vestan Elliðaáa, sem flugvöllurinn þekur, skipta augljóslega engu bitastæðu máli í því sambandi. 


mbl.is Lóðalagerinn tæmdist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refsiaðgerðir stundum gerðar af skammsýni og hræsni .

1979 sat ríkisstjórn í Afganistan, sem var það hliðholl Sovétmönnum, að hún var oft skilgreind sem leppstjórn.  Í augum ráðamanna Sovétríkjanna var Afganistan afar mikilvægt hernaðarlega, því að landið átti löng landamæri að Sovétríkjunum, en einnig landamæri að Íran og Pakistan.

Þá gerðu svonefnd Muhaheddin samtök, sem voru múslimskur fyrirrennari Talibana, uppreisn og steyptu stjórninni. 

Þetta þótti ráðamönnum Sovétríkjanna óviðunandi ógn við það sem kallað er "öryggishagsmunir" og sendu herlið inn í landið "til þess að rétta stjórninni hjálparhönd" eins og það var orðað. 

Þetta vakti mikla hneykslan víða um lönd, og Bandaríkjamenn og Bretar stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Sovétríkjunum, sem meðal annars fólust í því að fá það margar þjóðir til að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu 1980, að jaðraði við eyðileggingu. 

Sovétmenn hefndu fyrir þetta með því að fá kommúnistaríkin til að sniðganga Ólympíuleikana í Los Angeles 1984, þannig að tvennir Ólynpíuleikar fóru að miklu leyti í súginn fyrir þetta brölt allt. 

1985 gáfust Sovétmenn upp við stríðsreksturinn í Afganistan, enda höfðu Bandaríkjamenn stutt þau öfl dyggilega í Afganistan sem gerðu Afganisatn að hreiðri fyrir hryðjuverkasamtök, sem gerðu árásina á Bandaríkin 2001. 

Þá snerist dæmið við þegar NATO undir forystu Bandaríkjanna sendi herlið inn í landið, sem kom á jafn mikilli leppstjórn og Sovétmenn höfðu haft þar fyrir 1979. 

En þetta sýndi hve grunnhyggin stefna Bandaríkjanna hafði verið 22 árum fyrr þegar Sovétmönnum var refsað fyrir að senda her inn í landið. 

Öll sagan á suðurlandamærum Sovétríkjanna og síðar Rússlands er vörðuð skammsýnu mati á aðstæðum. 

Nikita Krústjoff og stjórn hans gerðu mikil mistök þegar Krímskagi var færður úr Rússlandi yfir í nágrannalýðveldið Úkraínu. 

Þetta var að vísu göfugmannlegt og átti að sýna einingu og bræðralag ríkjanna í Sovétsambandinu, en Krústjoff hefði átt að hafa í huga, að Rússar höfðu fórnað meira en 50 þúsund hermönnum í Krímstríðinu rúmri öld fyrr og milljónum manna í Seinni heimsstyrjöldinni til að tryggja öryggishagsmuni Rússa á suðurlandamærum Rússlands.

Þegar sókn NATO og ESB til austurs var komin á það stig að Úkraína gæti færst undir efnahagsleg yfirráð ESB og hugsanlega orðið NATO ríki eins og Eystrasaltslöndin, náði gamalkunnug tortryggni Rússa gagnvart "sókn til austurs" (Drang nach osten) yfirhöndinni með réttu eða röngu og Krímskaginn var tekinn með valdi.

Staða Krímskaga hernaðarlega er svipuð gagnvart Rússlandi og Florida og suðausturríkja Bandaríkjanna er í Bandaríkjunum, - Sevastopol álíka mikilvæg flotastöð fyrir Rússa og Norfolk fyrir Bandaríkjamenn.  


mbl.is Herða refsiaðgerðir gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn og aftur er dómarinn hluti af leikvellinum.

Orðin ef og hefði eru alltaf nærtæk þegar velt er vöngum yfir umdeilanlegum atvikum. Hvað dómgæslu snertir sannaðist enn einu sinni í leik Íslands við Sviss, að dómarinn er hluti af vellinum, slæmur eða góður eftir atvikum og bitnar oft misjafnt á keppendum. 

Við því er lítið að segja. 

Annað ef og hefði má nota um það hvaða þýðingu missirinn á Margréti Láru hafði fyrir íslenska liðið. 

Svona svipað eins og að velta vöngum yfir því hvaða þýðingu Gylfi Þór Sigurðsson hefur fyrir íslenska karlalandsliðsins. 

Ekki tjáir að fást um orðinn hlut í EM hjá konunum. Ef þær vinna síðasta leikinn er hægt að hugga sig við það að það munaði aðeins einu marki í fyrri leikjunum tveimur að gengi liðsins hefði orðið annað og betra en það varð, og allir sem staðið hafa að þátttökunni á ÉM nú geta verið stoltir af allri umgerð hennar og útfærslu. 


mbl.is Ótrúlegt að hún hafi fengið að klára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband