Þarf að friðlýsa öll lónin og jökulöldurnar.

Fagna ber friðlýsingu Jökulsárlóns og móta djarfa stefnu til að stækka Vatnajökulsþjóðgarð. 

Á sama hátt og það væri hlægilegt ef mörk Vatnajökulsþjóðgarðs færðust inn á við jafnharðan og jökullinn hopar í hlýnandi veðurfari, ættu þessi mörk að verða dregin við þá línu þar sem jökullinn náði lengst um aldamótin 1900, víðast hvar árið 1890.  

Innan þjóðgarðsins yrðu þá fyrirbæri eins og svonefndir Hraukar norðan Brúarjökuls og Eyjabakkajökuls, sem aðeins finnast á Íslandi, einkum Sauðárhraukar og Hraukarnir í Kringilsárrana.

Í þá síðarnefndu hafa vísindamenn tekið snið, sem sýnir, að Brúarjökull óð svo hratt fram 1890 og dró sig svo hratt til baka, að ekki gafst tími fyrir jökulinn til að byggja upp venjulegar háar öldur, heldur skildi hann eftir eins konar rúllutertu, þar sem gróðurlög og öskulög þekktra eldgosa voru eins og krem og tertulög. 


mbl.is „Íslendingar allir eiga þessa náttúruperlu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rímar við fullt Háskólabíó um hásumar.

Greinilegt er að Flokkur fólksins hefur reist fylgisbylgju á þeim meðbyr sem lýsti sér í húsfylli á fundi í Háskólabíói um daginn, sem bar heitið Sumarþing. 

Fyrir tilviljun heyrði ég viðtal við Ingu Sæland formann flokksins í útvarpi á ferð um landið þar sem hún útskýrði þennan meðbyr meðal annars með að vitna í ánægjutal fjármálaráðherra varðandi það að meðallaun hér á landi væru nú 712 þúsund krónur á mánuði. 

Þegar það væri skoðað, að strax og einstaklingur fái meira en 146 þúsund krónur á mánuði, sé byrjað að taka skatt af laununum, blasti við óviðunandi gjá á milli þeirra sem minnst mættu sín og þeirra, sem hefðu margföld laun á við láglaunastéttirnar. 

Fylgisbylgjur vegna þessara mála hafa oftast komið á útmánuðum í aðdraganda kosninga. 

Þannig reis svipuð bylgja og enn stærri í upphafi árs 2007 í aðdraganda Alþingiskosninga hvað varðaði framboð aldraðra og öryrkja. 

Sú bylgja fjaraði út og ekkert varð af framboðinu, enda voru viðbrögð þáverandi stjórnmálaflokka þau að taka málin upp í kosningastefnuskrár sínar. 

Eins og svo oft áður voru loforðin að mestu gleymd eftir kosningar. 

Í þetta skiptið er svo að sjá, að fylgisaukning Flokks fólksins bitni ekki mikið á núverandi stjórnarandstöðuflokkum, heldur fyrst og fremst á litlu flokkunum í ríkisstjórninni. 

En þegar litið er yfir sögu síðustu níu ára í íslenskum stjórnmálum, virðist litlu hafa skipt hvaða flokkar voru í stjórn á þessu tímabili. 

Íslenskir stjórnmálaflokkar ættu að íhuga vel stöðuna í þessum málum, ekki til þess að taka upp fögur loforð í stefnuskrár sínar, heldur til þess að láta verk fylgja orðum. 


mbl.is Stærri en BF og Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu mennirnir vissu þetta.

Ef lofthiti fylgdi sólargangi væri hlýjast að meðaltali í kringum 20. júní hér á landi. En vegna tregðu í hitabreytingum tefjast árlegar hitasveiflur um einn mánuð. 

Þannig er að meðaltali kaldast á hverju ári seint í janúar í Reykjavík og jafnvel síðar inn til landsins norðan- og austanlands. 

Og að sama skapi er hlýjast að meðaltali í kringum 20. júlí, mánuði eftir sumarsólstöður, eins og nú gæti verið að gerast. 

Gamla tímatalið íslenska miðast við þetta og í almanakinu var miðsumar í fyrradag og heyannir hófust í gamla daga. 

Ég man þá tíða þegar ég var í sveit um miðja síðustu öld að allt sumarið fór í kapphlaupið við að slá og ná inn heyjum sumarsins, og stóð slátturinn eitt sumarið alveg fram í miðjan september og farið upp fyrir túnið og slegin svonefnd Kvíabrekka fyrir ofan bæinn. 

Einnig náð inn útheyi af landi utan túnsins niðri á sléttlendinu niður af bænum, þótt þau hey væru afar næringarlítil. 

Nú má sjá víða hvernig vel vélvæddir bændur klára mestallan heyskapinn á undra skömmum tíma, jafnvel heilan slátt á viku eða tiu dögum. 

Í lok júlí hefur sólin sigið nokkrar gráður og kemst meira en sex gráður undir sjóndeildarhringinn um miðnæturskeið í Reykjavík, en talsvert seinna á norðurhluta landsins. 

"Nóttlaus voraldarveröld" orti skagfirska skáldið, sem alltaf var með hugann á Íslandi, þótt hann lifði mestan sinn aldur í Vesturheimi. 

Og tvisvar síðustu daga hefur hitinn farið yfir 20 stig á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum í 660 metra hæð yfir sjávarmáli. 


mbl.is 24,9 stiga hiti í Húsafelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband