Merkilegt að það skuli vera svona lítill atkvæðamunur.

Okkkur Íslendingum þætti það einkennilegt ef það ylti aðeins á einu eða tveimur atkvæðum á þingi hvort 15-20 þúsund Íslendingar yrðu settir út úr velferðarkerfi okkar. 

Svipað ætti við um nágrannalönd okkar. 

Sem betur fór stóð John McCaine fyrir því að atlögunni að Obamacare var afstýrt. 

En Donald Trump mun víst ekki ætla að láta sér segjast. 


mbl.is Obamacare lifir - þungt högg fyrir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigraði einhver í Dunkirk?

Þegar í ljós kom, að á fjórða hundrað þúsund hermenn, breskir og franskir, höfðu bjargast frá Dunkirk í júníbyrjun 1940, þótti það réttilega mikið afrek. 

Sumir kölluðu þetta sigur, en Winston Churchill var raunsær, og sagði, að enda þótt óvænt og mikið afrek hefði falist í þessari miklu björgun sem bæri að þakka fyrir, ynnust styrjaldir ekki til langframa á flótta.

Herliðið varð að skilja eftir allan vopnabúnað sinn og vistir, og var það gríðarlegur missir fyrir Breta, ekki aðeins að hafa 300 þúsund manns vopnlausa, heldur einnig að færa Þjóðverjum þetta allt upp í hendurnar til afnota fyrir aðalverkefni þeirra, að leggja Frakka að velli.

Margt hefur verið skrafað og skrifað um Dunkirk, ekki aðeins flóttann mikla, heldur ekki síður um það að Hitler lét stöðva sóknina gegn breska "leiðangurshernum" í tvo dýrmæta daga.

Það hafi verið gróf mistök hjá honum og næsta óskiljanleg.

Við skoðun ótal gagna um málið má hins vegar sjá útskýringar.

Í fyrsta lagi snerist stríðið númer eitt um það að hefna fyrir úrslitin 1918. Forgangsröðin byggðist á því, úr því að svo fór að Vesturveldin "vildu stríð og fengju því allt það stríð sem þau vildu", að gjörsigra franska herinn.

Hitler hafði tekið áhættu með ákvörðunum sínum í Rínarlöndum 1936, með töku Austurríkis og Munchenarsamningunum 1938, töku Tékkóslóvakiu í mars 1939, innrásinni í Pólland 1939 með tilheyrandi veiklun herbúnaðar á vesturlandamærum Þýskalands á meðan og með innrás í Noreg og Danmörku 9. apríl 1939.

"Glæsilegasta herför allra tíma" sem hófst 10. maí 1940, hafði heppnast vonu framar og þýski herinn brunað á ótrúlegum hraða vestur að Atlantshafi og klofið með því "Breska leiðangursherinn" og lítinn hluta franska hersins frá franska hernum, svo að á fjórða hundrað þúsund hermenn voru innikróaðir á svæðinu við Dunkirk og höfðu ekki skotfæri og vistir nema til skamms tíma.

En hernaðarsagan geymdi mörg dæmi um það, að leiftursóknir með fleyg herliðs, sem sótti langt fram, gátu misheppnast ef fleygurinn var ekki nógu vel varinn til hliðanna.

Þegar litið er á kort af fleyg Þjóðverja, var hann orðinn mjög langur og virtist hættulega mjór.

Möguleiki var á því að Bretar og Frakkar gætu komið með krók á móti bragði og ráðist samtímis á hliðar fleygsins og klofið hann í tvennt.

Ef svo færi, myndi staðan breytast í andhverfu sína, fremsti hluti fleygs Þjóðverja yrði króaður af.

Guderian og fleiri töldu, að töf á árás á breska herliðið myndi gefa því dýrmætan tíma til að endurskipuleggja sig, og að nýta ætti tækifærið sem best með því að halda frumkvæðinu og stuðla að tímahraki, ringulreið og undrun bandamanna.

Raunar var örvinglan bandamanna alger. Samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun sótti breski herinn fram inn í Belgíu til þess að mæta þýska hernum þar sem lengst inni í landinu, og beindi því sóknarmætti sínum í öfuga átt þegar hermenn og skriðdrekar sóknarfleygs Þjóðverja kom í bakið á þeim. 

Eftir á að hyggja var það vafalaust rétt hjá Guderian og Rommel að upplausnin yrði þeim umum meiri hjá bandamönnum, sem sótt væri hraðar á þá, en Hitler óttaðist, að þýski herinn yrði að fórna of miklu í árásina á Breta, og betra væri að tryggja hann sem best, því að höfuðatriðið væri að hafa herinn sem sterkastan í forgangssókninni suður um Frakkland.

Með því að lágmarka tjón Þjóðverja og auka öryggi sóknarfleygsins, myndi hámarksárangur náðst með því kosta sem minnstu til að láta Breta gefast upp.

Á þessum tveimur dýrmætu dögum kyrrstöðunnar átti enginn von á því að hægt væri að bjarga nema hluta breska herliðsins yfir Ermasund.

Annað kom á daginn og Hitler missti af gullnu tækifæri til að ganga milli bols og höfuðs á mest öllu breska herlðinu.

Að vísu fékk hann upp í hendurnar allan herbúnað Bretanna, sem á móti misstu hann allan í óvindahendur, en sú ætlan Hitlers að Bretar myndu sjá sitt óvænna eftir fall Frakklands og semja frið reyndist gróf mistök í stöðumati.    


Allir bílar tengdir öllum. 740 kílómetra kennslustund.

Eftir 740 kílómetra og átta klukkustunda langa samfellda kennslustund í akstri í hraðri umferð í gær kveikir fyrirsögnin "bíllinn tengdur" á mbl.is frétt sérstök hughrif Íslendingsins, sem kynnist aðeins tengslum bílstjóra á þjóðvegum svo gagn sé að með því að aka eftir þjóðvegum erlendis. 

Í slíkum akstri frá Brussel í Belgíu suður til Macon í Suður-Frakklandi lærist smátt og smátt, að allir bílstjórarnir á leiðinni fylgjast grannt hver með öðrum, ekki aðeins fram á við, heldur ekki síður með því að vera á stanslausum verði aftur fyrir sig. 

Á löngum kafla leiðarinnar, þar sem hámarkshraðinn er 130 km/klst, getur hraðamismunur bílanna verið allt að 60 kílómetrar á klukkustund í brekkum.  

Heima á Fróni myndi slíkt valda sífelldumm vandræðum og hættu, en ekki hér í landi, nema að Íslendingur eins og ég sé á ferð. 

Aldeilis frábært er að fylgjast með því hvernig hægfarari bílstjórar á undan manni fylgjast með manni i baksýnisspeglum sínum og færa sig til, jafnvel fleiri en einn í einu, til þess að búa til sem greiðasta óg hættuminnsta leið fyrir alla. 

Að sama skapi stendur maður sjálfan sig, óvaningurinn norðan frá heimsskautsbaug, að því að valda óþarfa töfum með sofandahætti, sem hefur veirð áunninn í áratuga stjórnlítilli umferðinni heima. 

740 km? Ekki hætta á að verða syfjaður?  Síður, ef allan tímann er verið að leysa jafnóðum viðfangasefni varðandi umferðina framundan, fyrir aftan og til hliðar. 

Tveimur dögum áður en ég fór að heiman datt mér í hug á drjúgri leið á Honduvespuhjóli mínu að telja hvernig stefnuljós voru gefin í hringtorgunum og gatnamótunum á leiðinni. 

Fljótlega kom í ljós að talningin var auðveld. Af um tveimur tugum bíla í stefnubreytingum, gaf ENGINN stefnuljós.  Það voru ALDREI gefin stefnuljós.  

Í ÖLL skiptin þurftu þeir aðrir ökumenn sem stefnuljósagjöfin hefði auðveldað för, ýmist að kveljast í óvissu eða að tefjast.  

 


mbl.is Bíllinn tengdur fjölskyldu mannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband