Tilhneigingin til þess að vera áratugi á eftir tímanum.

Við Íslendingar erum að ýmsu leyti með klofið hugarfar. Til dæmis erum við að mörgu leyti með nýjungagjörnustu þjóðum og keyrðum á fullt varðandi fótanuddtæki, loðdýraeldi, farsíma og netnotkun um leið og þessi fyrirbæri birtust okkur. 

En að sumu leyti erum við einstaklega seinir til að átta okkur á nýjum viðhorfum og aðstæðum og höldum dauðahaldi í kennisetningar, sem voru af lagðar í öðrum löndum, stundum fyrir mörgum áratugum. 

Norðmenn ákváðu 2002 að slá því föstu að tími nýrra og stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn þar í landi. Var þó óvirkjað vatnsafl þar í landi, sem að magni til er álíka mikið og óvirkjað vatnsafl á Íslandi. 

Árið 2017, 15 árum eftir þessa ákvörðun Norðmanna, eru hátt í hundrað nýjar virkjanir á dagskrá á Íslandi. Þótt sumar þeirra hafi verið settar í verndarflokk í rammaáætlun, kaupa áhrifamiklir menn upp þær jarðir, sem eru á virkjanasvæðunum, og eru þeir varla að gera það nema af því að þeir ætlast til þess að græða á virkjanammöguleikunum. 

Og 2014 stillti þáverandi forsætisráðherra sér upp í miðju þess hóps, sem ætlar að reisa álver sunnan Skagastrandar og láta rafmagn úr ánum, sem eru í verndarflokki, til þess. 

Áltrúin, sem landsmenn tóku fyrir hálfri öld er sem sé enn sprellifandi sem og trúin á það að "eitthvað annað" komi ekki til greina. 

Er ferðaþjónustan, sem fellur undir "eitthvað annað", þó orðin stærsti atvinnvegur þjóðarinnar. 

Nú hafa Norðmenn lagt sjókvíaeldi á hilluna en á sama tíma eru uppi áform um það að tífalda slíkt eldi á Íslandi undir því kjörorði enn á ný að "eitthvað annað" á laxeldi komi ekki til greina. 


mbl.is Býst við átökum um fiskeldismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirfullar borgir, Barcelona og Reykjavík?

Dóttir mín, tengdarsonur og fjölskylda skiptu um heimili við spánska fjölskyldu frá Barcelona í þrjár vikur.

Hafi spánska fólkið ætlað að flýja yfirfulla borg og það íslenska líka, virðast það hafa verið byggt á misskilningi ef marka má Ferðavefinn The Culture Trip, sem setir báðar borgirnar á lista yfir borgir, yfirfullar af túristum.

Spánska fólkið lét að vísu sæmilega af dvölinni hér og ferðaðist drjúgt í Íslandsdvölinni.

En í Barcelona eru nú orðnir svo margir ferðamenn, að það bitnar ekki aðeins á lífi íbúanna og húsnæðismálum þeirra, heldur er orðið erfitt eða jafnvel ekki hægt að komast að til að skoða helstu og merkustu staði borgarinnar vegna of mikillar aðsóknar.  


mbl.is Ferðamenn ættu að forðast Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rís skepnan loks gegn skapara sínum?

Margir telja að Steve Bannon hafi í raun skapað fyrirbærið Donald Trump, mótað stefnu hans og lagt honum orð í munn og heilu ræðukaflana.

Bannon laðaði öfluga hægri hópa til fylgis við Trump og án Bannons hefði Trump hvorki orðið frambjóðandi Republikana né forseti. 

Strax þegar Trump hafði verið kosinn sáust merki þess að hann óaði við því hve áhrifamikill Bannon væri orðinn og baðaði sig mikið í sviðsljósinu.

Síðan hefur þetta haltu mér slepptu mér heilkenni verið áberandi.

Þetta er vandasamt fyrir Trump, því að hann heldur áfram að vera háður áhrifum Bannons. 

Spurningin er því klassísk: Rís skepnan loks gegn skapara sínum?

 


mbl.is Er Trump hræddur við að reka Bannon?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband