Jafnaðarmenn eða jafnréttisflokkurinn.

Skilgreiningin og heitið sósíaldemókratar er löngu heimsþekkt. Sterkustu flokkarnir hafa lengst af verið á Norðurlöndum en einnig í Þýskalandi og Bretlandi. 

Flokksheitin hafa í íslensku verið ýmist jafnaðarmenn eða verkamannaflokkar eftir því hvað flokkarnir hafa heitið í hverju landi fyrir sig, og enginn hefur velkst í vafa um meginstefnu þeirra, sem stundum var kölluð lýðræðissósíalismi til aðgreiningar frá kommúnistum.

Nafnið Samfylkingin var kannski talið nauðsynlegt um síðustu aldamót til að segja frá því að í flokknum væri aðallega fólk úr fjórum flokkum, sem sameinaðisti í einum. 

En þetta nafn sagði ósköp lítið um stefnu flokksins og hvað hann hefði fram að færa. 

Kjörorð hans, frelsi - jafnrétti - bræðralag, þekkir almenningur yfirleitt ekki. 

Af þessum þremur kjörorðum tengist orðið bræðralag kannski helst orðinu samfylking, en það er fyrir löngu kominn tími til að flokkurinn noti meginstefnumálið, jafnréttið, í nafni sínu.

Þess vegna mætti hann alveg eins heita jafnréttisflokkurinn.

Það er yfirleitt regla í því þegar verið er að selja fólki hugmyndir, í þessu tilfelli kjósendum, að finna það orð sem lýsi eðli þess best sem verið er að bjóða.

Það auðveldar umræðu um útfærslu stefnunnar og mótun hennar og á að auðvelda kjósendum valið í kosningum.  


mbl.is Hugmyndir um nýtt nafn ekki nýjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt smátt gerir eitt stórt.

DSC00287Þátttaka hvers og eins í atburðum eins og Reykjavíkurmaraþoni sýnist ekki stórt má út af fyrir sig. 

En á bak við þátttöku hverrar manneskju er oftast langur aðdragandi undirbúnings og ræktun sérstaks lífsstíls. 

Hún Ninna okkar hljóp enn eitt maraþonið í dag og Óskar Olgeirson, maður hennar, fylgdist vel með, en hann stundar fjallgöngur, hjólreiðar og útiveru. 

Myndirnar tala sínu máli sem ég ætla að setja hér inn, - og ég ætla að setja endasprett Ninnu í lifandi mynd inn á facebook. DSC00284

Eitt af ótal "smáu" sem bar við á hjólaferð minni um borgina var hvernig sett höfðu verið út fjögur borð með alls fjórum stólum fyrir utan verslunarmiðstöðina Miðbæ við Háaleitisbraut. 

Um svona lítil atriði, sem geta verið svo stór, gildir stundum eins konar catch 22: Af því að fólk reiknar með lélegu veðri þýðir ekkert að hafa borð og bekki á almannafæri, enda láta skemmdarvargar þau ekki í friði. 

En af því að engin borð eða bekkir eru yfirleitt á almannafæri, notar þau enginn. 

Á mynd hér sést eitt af borðunum fjórum, næst er borðið, nesti og vélhjólahjálmur, fjær er auður stóll (í bili) og fjær er útivistarfarartækið. 


mbl.is Þúsundir hlupu í blíðunni (myndir)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of lítill tímasparnaður takmarkar gjaldtöku.

Vissulega munu Vaðlaheiðargöngin verða mikil samgöngubót að vetrarlagi þegar færð og veður eru slæm. 

En meirihluta ársins mun þó einn galli verða á gjöf Njarðar varðandi umferð og gjaldtöku. 

Það sést vel á samanburði við Hvalfjarðargöng. 

Við það að fara í gegnum Hvalfjarðargöng í staðinn fyrir að aka fyrir Hvalfjörð, sparast 41 km hálftíma akstur.  

Ef 70 km/klst hámarkshraði verður í Vaðlaheiðargöngunum verður tímasparnaðurinn af því að aka um þau aðeins um átta mínútur. 

Á góðum sumardögum þá ferðamannatímanum, þegar umferðin er einna mest, er hætt við að margir muni kjósa að spara sér 1500 króna veggjald, einkum þeir sem koma austan frá, svo sem ferðamenn, og missa við það að njóta hins mikla og fagra útsýnis yfir Eyjafjörð sem blasir við á leiðinni niður af Víkurskarði.

Það verður því vandi á höndum að ákveða veggjaldið. Ef veggjaldið verður of hátt, gæti heildarinnkoman yfir árið orðið minni en vegna stórum minni umferðar heldur en yrði ef gjaldið yrði lægra, jafnvel lægra en í Hvalfjarðargöngunum.

Af tvennu illu er það verri kostur og minni þjóðhagslegur sparnaður að umferðin verði mjög lítil vegna of hás veggjalds, heldur en menn horfðust í augu við þá staðreynd, að héðan af mun veggjald aldrei borga þessi göng í þeim mæli sem menn héldu í upphafi, og hefðu því veggjöldin nógu lág til að örva umferð um þau. 


mbl.is Gjaldskrá hærri en í Hvalfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband