Jerry Lewis hafði áhrif víða, líka hér á landi.

Ég er af þeirri kynslóð sem hafði mikla ánægju af gamanleikaranum Jerry Lewis, sem lést í gær, 91.árs að aldri.

Hann brá sér í ýmissa kvikinda líki á ferlinum, en einna best lét honum að leika klaufabárða og hrakfallabálka á þann veg að það var oft óborganlegt.

Lewis notaði stundum ýmis einföld brögð til að gefa persónum sínum skoplegt yfirbragð, og má nefna tanngarð, sem hann notaði til að sýnast sem einfeldningslegastur. 

Þessar tennur Lewis og látbragð þessara persóna, sem hann skapaði, minntu talsvert á karakterinn Eirík Fjalar, sem snillingurinn Laddi bjó til og gæddi lífi. 

Það má giska á að Laddi hafi, eins og fleiri, orðið fyrir áhrifum frá Jerry Lewis, og andlegur skyldleiki kunni að vera á milli einfeldninganna, sem Lewis bjó til, og Eiríks Fjalars. 

 


mbl.is Stjörnurnar minnast Jerry Lewis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einfaldlega of seinn að taka tæki úr eyranu á sér.

Í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hafa flytjendur í öðru eyra sínu apparat, þar sem heyra má sönginn og flutninginn til þess að flytjendurnir geti sungið hreint. 

Til þess að geta notað þessa tækni í stað þess að hlusta á hátalara, sem beinir tónlistinni að þeim upp á gamla mátann, þarf talsverða æfingu, svo mikla æfingu, að undirbúningstíminn í aðdraganda lokaflutningsins keppniskvöldið er nýttur til hins ítrasta til þess að ná valdi á þessu. 

Þeir, sem til þessa þekkja, sáu og heyrðu strax á tónleikunum á Menningarnótt, að Friðrik Dór virtist alls ekki nógu æfður fyrir þessa aðferð, og því var reynt að koma til hans skilaboðum um hvers kyns væri með eindregnum ráðleggingum um að hann tæki apparatið úr eyranum. 

Það tókst ekki strax að koma þessu yfir til Friðriks Dórs, en þegar hann tók loks tækið úr eyranum, snarlagaðist söngurinn og varð kraftmikill og góður á endasprettinum. 


mbl.is Friðrik Dór hefur átt betri daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einhver að tala um að "moka í göngin"?

Það þarf að leita með logandi ljósi ef það á að finna einhver opinber ummæli málsmetandi fólks um það að hætta beri við Vaðlaheiðargöng og "moka aftur í þau" eins og bæjarstjóri Húsavíkur orðar það. 

Raunar er þetta sennilega í fyrsta sinn sem þetta heyrist, því að öllum er það ljóst, að tjónið af því að hætta við göngin á allra síðasta hluta gerðar þeirra yrði miklu meira en ef haldið er áfram. 

Þegar hefur kostnaðurinn orðið miklu meiri en upphaflega var áætlað og sá viðbótarkostnaður verður augljóslega ekki kallaður til baka, heldur stæðu menn frammi fyrir mesta mögulega fjártjóni með því að hætta við göngin nú. 

Eini tilgangurinn sem hægt er að sjá með því að gefa í skyn að einhver vilji "moka í göngin" er sá að setja þá, sem efuðust um upphaflegu áætlunina, í eins slæmt ljós og unnt er.  

 


mbl.is Ekki mokað aftur í göngin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband