Einhverjir héldu að það þyrfti að klæða Hornstrandir með lúpínu.

Eftir að byggð lagðist af á Hornströndum og sauðfé var þar ekki lengur, hefur allur gróður tekið svo hraustlega við sér að það er hreint ótrúlegt, miðað við það að þetta svæði er annað af þeim tveimur svæðum á Íslandi, sem er á nyrsta útkjálka. 

Þess vegna þurfti að segja mér það tvisvar að í Fljótavík þurfi að verjast ágangi lúpínu, sem einhverjir héldu að vantaði þar líkt og er á Mýrdalssandi.  

Fljótavíkin er umvafin svo miklu náttúrulegu blómskrúði og gróðri í því, að aðdáun og undrun vekur. 

Svipaða sögu var að segja í þeim víkum öllum, sem ég kom í þegar ég gerði sjónvarpsþáttinn "Eyðibyggð" fyrir tæpum 40 árum og ekki hefur gróðurinn minnkað síðan þá. 

Lúpínan er hið mesta þarfaþing þar sem hún á við, en það er frekar í ætt við trúarbrögð og hömluaust trúboð en heilbrigða skynsemi hvernig sumir hafa tekið lúpínuna svo hraustlega upp á arma sína, að það séu engin takmörk fyrir því hvar þurfi að sá henni og útbreiða hana. 


mbl.is Raski ekki lífríkinu á Hornströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torfbæirnir og bær Bakkabræðra höfðu yfirburði yfir Orkuveituhúsið.

Sennilega er hús Orkuveitunnar mesta endemis hús sem reist hefur verið á Íslandi og þó víðar væri leitað. 

Strax í upphaf sáust helstu gallarnir, sem hafa komið í ljós síðan þá og eru lýsandi fyrir bruðlið, sem var í gangi: 

Húsið er alltof stórt og dýrt. Meira að segja Parkinsonlögmálið þess efnis að starfsemi húsa leitist við að fylla þau, gildir ekki í þessu mesta monthúsi álfunnar. 

Jafnvel ekki þótt farið hefði verið í fiskeldi, sem hugmynd var um að setja þar á stofn. 

Húsið er mjóst neðst og breikkar eftir því sem ofar dregur. Ef það yrði hækkað myndi það á endanum yfirskyggja allt Ísland. Fræðilega hægt að hækka það þar til það yfirskyggði hálfa jörðina.

Þessi endemi eiga áreiðanlega sinn þátt í því að húsið riðar í miklum vindi svo að fólk fái jafnvel sjóriðu.

Nú er ljóst að stór hluti hússins var þegar orðinn gjörónýtur á aðeins áratug!  

Í samanburði við gömlu torfbæina hafa torbæirnir margfalda yfirburði yfir Orkuveituhúsið, allt að tífalda yfirburði!

Meira að segja hinn gluggalausi bær Bakkabræðra hafði yfirburði, því að það var þó hægt að gera á hann glugga!  

Kostnaðurinn vegna þessa viðundurs sem Orkuveituhúsið er, verður á þriðja milljarð króna hið minnsta.

Það eru þó smámunir miðað við bruðlið og rányrkjuna á Hellisheiði, þar sem reist var tiu sinnum stærri virkjun en nam því að orkan væri endurnýjanleg og virkjunin sjálfbær.

Þar verður um að ræða hundruð milljarða tjón áður en yfir lýkur.

Þeir helstu sem stóðu að þessum ósköpum öllum hafa forðað sér og prýðis fólk, sem ekki stóð að þessu rugli, þarf að standa í því að berjast við óheyrilegan vanda.  


mbl.is Ein hugmyndin að rífa húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túrbínutrixið er sprellifandi.

"Túrbínutrixið" frá 1970, þegar keyptar voru fyrirfram rándýrar túrbínur í margfalt stækkaða virkjun og láta alla standa frammi fyrir gerðum hlut eða hlíta eignarnámi ella, hefur stungið upp kollinum hér og þar allt til þessa dags.

Í Reykjanesbæ er sagt við íbúana að menn standi frammi fyrir gerðum hlut, búið að reisa mengunarspúandi verksmiðju, sem skuldi verktökum milljarð og bæjarsjóði hundruð milljóna, og yfir vofi að þessir peningar tapist allir nema verksmiðjan fái að að halda áfram "þjóðþrifastarfi" sínu.

Alveg er skautað framhjá því þegar þetta er tiltekið, hvernig eigendur verksmiðjunnar hafa hagað sér fjárhagslega, látið dæma á sig milljarð í skaðabætur vegna vanefnda við verktaka og skuldi stórupphæðir til bæjarsjóðs, en mest af þessum vanefndum urðu til án þess að vandræði við reksturinn ættu þátt í því. 

Það kom strax í ljós hvernig eigendurnir og forsvarsmennirnir höguðu sér, jafnvel í glæfraakstri á Reykjanesbrautinni sjálfri. 

Í gær var sagt að það þyrfti að "bjarga" Helguvíkurhöfn með því að lokka þangað aðra stóriðju ef þessi brygðist, því að búið væri að eyða mörgum milljörðum í þessa höfn, sem hefði frá upphafi verið reist á þeirri forsendu að stóriðja og aðeins stóriðja gæti "bjargað Reykjanesbæ. 

Ekki var kostnaðurinn við gerð Helguvíkurhafnar rakinn nánar, þannig að halda mætti að Íslendingar hefðu eytt öllum þessum milljörðum í höfnina. 

En á sínum tíma var sagt að það væru raunar Bandaríkjamenn sem stæðu að gerð þessarar olíuhafnar. 

Það er sem sagt sögð höfuðnauðsyn að viðhalda hinu stóra túrbínutrixi í Helguvík, sem meðal annars fólst í því 2008 að taka fyrstu skóflustunguna að risaálveri 2008 og hefja byggingu kerskála án þess að búið væri að ganga frá málum varðandi tólf sveitarfélög alla leið austur í Skaftafellssýslu sem áttu að skaffa stæði fyrir háspennulínur, vegi, og virkjanir með tilheyrandi stöðvarhusum, skiljuhúsum. gufuleiðslum, stíflum og uppistöðulónum. 


mbl.is „Verður kísilverinu lokað, já eða nei?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband